Öfgar leiddar til öndvegis

Pistlar
Share

Á síðustu árum hefur málflutningur í umhverfismálum orðið hvassari og öfgakenndri en áður hefur þekkst. Áherslurnar hafa færst frá því að lágmarka áhrif einstakra framkvæmda eða annarra mannlegra athafna á umhverfið yfir í að koma í veg fyrir framkvæmdir og banna nýtingu og umferð. Sérstaklega hefur þetta ágerst eftir hrun viðskiptabankanna. Þá virðast hafa orðið vatnaskil að þessu leyti. Það kemur einna skýrast fram í því að þarfir fólks eru orðnar víkjandi fyrir náttúrunni, rétt eins og náttúran sé orðið sjálfstæð persóna í lífríkinu sem er öllu öðru æðri. Hún er orðin hinn nýi guð sem fallið er frammi fyrir í tilbeiðslu.

Tveir heimar – tvær þjóðir

Að vísu á þetta bara við um náttúruna utan höfuðborgarsvæðisins. Einhvers staðar utan við það svæði er dregin lína. Innan hennar eru það framfarirnar sem eru hinn mikli guð en þar fyrir utan er það náttúran. Afleiðingin verður að tvær ólíkar umhverfisstefnur eru reknar í landinu. Innan höfuðborgarsvæðisins má leggja vegi um viðkvæm hraun, jafnvel á Þingvöllum, en utan þess má ekki hrófla við kjarrgróðri. Innan þess má byggja hótel hvarvetna, meðal annars á elsta kirkjugarði landsins. Utan þess má ekki reisa hótel við Mývatn eða í Kerlingarfjöllum. Innan höfuðborgarsvæðisins má þvera firði og voga og reisa hábrýr en utan þess má ekki sneiða hjá mestu snjóalögunum í fjörðunum við Breiðafjörð.

Með markvissum áróðri og með skírskotun til verndar náttúru lands og sjávar hefur orðið til þessu tvöfalda umhverfisstefna sem nýtur umtalsverðrar hylli meðal landsmanna, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu þar sem kjósendur eru flestir. Nú á tímum er fólk meðvitað um ótrúlegan eyðingarmátt hins tæknivædda iðnaðarþjóðfélags og við blasir sá möguleiki að jörðin geti orðið óbyggileg. Óttinn er tilfinning sem óprúttnir geta auðveldlega spilar á. Með vísan til tortímingar eða heimsendis er auðvelt að afla stuðnings við annars mjög umdeilanleg markmið.

Við þessar aðstæður verða ávallt öfgarnar árangursríkar. Það hefur gerst hér á landi eins og annars staðar. En hin íslenska útgáfa er þó sérstök að því leyti að þeir sem lengst ganga vilja ekki búa við afleiðingar eigin málflutnings. Þess vegna byrjar umhverfisstefnan ekki fyrr en komið er út fyrir hina eiginlegu og óeiginlegu borgarmúra. Innan þess er framfarasvæðið og ekkert skal til sparað til þess að bæta efnahaginn, atvinnumöguleikana og lífskjörin. Verndunarstefna verður því öfgakenndari og ósveigjanlegri eftir því sem framfarasvæðið fjarlægist meir. Það er búið að skipta landi og þjóð í tvo aðskilda heima með ólíku gildismati á náttúrunni og stöðu hennar.

Hinn sanni tónn

Því meir sem fólk óttast um framtíðina verður það móttækilegra fyrir öfgakenndum málflutningi. Stjórnmálaflokkar hafa áttað sig á því að það borgar sig að vera vinur náttúrunnar. Það gefur aukið fylgi í kosningum. Í vaxandi mæli hefur verið teflt fram umhverfismálum sem stefnumáli flokkanna. Það er til þess fallið að setja flokkinn í jákvætt ljós. Það er hins vegar ekki vinsælt að boða lífskjaraskerðingu, samdrátt í atvinnu eða annað af því taginu. Svo þannig varð til sú „snjalla“ lausn að færa umhverfismálin bara út fyrir efnahagsumhverfi fjöldans. Þá er hægt að vera sannur umhverfisflokkur sem sýnir aðdáunarverða fórnfýsi og er reiðubúinn að tala fyrir erfiðum ákvörðunum – utan þjónustusvæðis vaxtarsvæðisins.

Landvernd Vinstri grænna

Á stuttum tíma hefur orðið eðlisbreyting á markmiðum og starfsemi Landverndar. Fylgt hefur verið harðari og öfgakenndri stefnu en áður. Í stað þess að leggja áherslu á bæta áform er nú lagst af hörku gegn framkvæmdum. Rekin er sú stefna að kæra mál á öllum stigum , tefja og þæfa þau með lagakrókum. Nú er áherslan á að stöðva mál en ekki lagfæra. Á síðasta starfsári Landverndar var lögð fram 21 kæra, auk þess sem rekin voru dómsmál. En það er einkennandi að allir krafturinn beinist gegn framkvæmdum á landsbyggðinni. Sjö kærur voru gegn raflínulögn frá Þeistarreykjum til Húsavíkur og aðrar kærur voru til höfuðs hótelbyggingum í Mývatnssveit og í Kerlingarfjöllum. Ekkert mál var rekið fyrir náttúruna á höfuðborgarsvæðinu.

Það er til marks um uppgang öfganna í þessum efnum að höfuðarkitektar svartstakkastefnu Landverndar eru nú í boði Vinstri grænna orðnir hæstráðendur í Umhverfisráðuneytinu, annar sem ráðherra og hinn sem aðstoðarmaður ráðherrans. Það er meðvituð ákvörðun um að fórna minni hagsmunum fyrir meiri, að þeirra mati. Vestfirðingar falla undir minni hagsmunina.

Kristinn H. Gunnarsson

“ onclick=“return fbs_click()“ target=“_blank“ class=“fb_share_link“>Deila á Facebook

Athugasemdir