FULLVELDIÐ VESTUR

Pistlar Uncategorized
Share

Það var rifjað upp á dögunum hverjar framfarirnar á Íslandi hafa orðið síðan fullveldið var endurheimt fyrir réttum 100 árum. Þá var íslensk þjóð í skugga náttúrulegra harðinda, stórfellds eldgoss og fádæma kulda og tókst að auki á við mannskæðustu farsótt síðan svarti dauði og stórabóla var, spænsku veikina, sem felldi 500 manns á skömmum tíma. Þetta voru ekki þær aðstæður sem heppilegastar eru til fyrir fámenna þjóð til þess að taka til sín vald í eigin málum.

En það gekk nú samt. Það var þjóðareining um fullveldið og hver maður fann til ábyrgðar og vildi leggja sitt af mörkum. Eitt allra frumstæðasta þjóðfélag Evrópu árið 1918 hvað innri gerð og máttarviði laut reis úr öskustónni. Þjóðartekjur margfölduðust og lífskjörin lyftust hratt. Áður en tvær kynslóðir voru gengnar til ævihvíldar blasti við ungu kynslóðinni, sem við átti að taka, bjartari framtíð en jafnaldrar þeirra gátu vænst erlendis, jafnvel í grónum stórveldum.

Án fullveldisins er vandséð að þetta kraftaverk hefði gengið eftir. Það má að vísu halda því fram að nýting fiskimiðanna hefði þrátt fyrir danska stjórn gefið af sér verðmætar framleiðsluvörur seldar á erlendum mörkuðum í líkingu við það sem raunin varð. Og þó, það er nokkuð vandasamt að færa rök fyrir því að dönsk yfirvöld hefðu lagt í það að færa út landhelgina frá fjarðarbotnum til hafs og kallað yfir sig reiði Breta og Þjóðverja. Það er líka enginn vafi á því að hugsjónin og þráin um sjálfstæði í eigin málum dreif áfram margan manninn með almannahag að leiðarljósi fremur en afmarkaðri hagsmuni einstakra fyrirtækja. Hugsjónirnar ýttu til hliðar að nokkru leyti hinni kapitalísku ágóðavon. Í huga athafnamannanna var framgangur íslensks þjóðfélags meira virði en hagnaður eigin atvinnureksturs.

Þetta breyttist um það leyti sem framsalið í kvótakerfinu var komið á. Hægt og sígandi eftir það var eigin ágóðavon meira og meira þungamiðja í stjórnun og ákvörðunartöku og  þau viðhorf um ábyrgð og samkennd til einstakra samfélaga, og stundum þjóðarinnar í heild, viku til hliðar.

Fullveldið tapaðist

Þróunin þýddi að fullveldið hafði tapast fyrir sjávarútvegssamfélögin um landið. Veigamesti þátturinn hagkerfi í þessum samfélögum var tekinn frá þeim. Menn réðu ekki lengur hve mikil atvinnustarfsemi væri og með framsalinu réðu menn heldur ekki því að atvinnustarfsemin yrði áfram, né hvar ágóðanum yrði ráðstafað. Einstaklingum var fengið það vald og gefið algert frelsi til þess ráðstafa því út frá þröngum eigin hag og ekki annarra. Þannig er það ennþá. Einstaklingar sem á hverjum tíma hafa atvinnuréttindin undir höndum eru hafnir upp yfir almenninginn sem aðall og eru algerlega lausir við allar skyldur við annað en eigin ágóðaþörf. Almenningurinn hefur tapað fullveldinu. Það er vegna þess að ríkið ákvað að fullveldið skyldi verða persónubundin eign útvalinna. Það er mjög af skornum skammti sem tekjur af nýtingu fiskimiðanna, með öðrum orðum hlutur af auðlindarðinum, eða annarra auðlinda svo sem vatnsafls eða náttúruverða eftir heim í héraði til uppbyggingar og framfara. Vestfirðir eru óvenjuríkir í þessum skilningi og hér eiga milljarðar króna, taldir í tugum ár hvert, að vera tekjur samfélags íbúanna. Í fjórðungnum væri, ef rétt væri gefið, eitt allra öflugasta hagvaxtarsvæði landsins með sterka innviði, fjölbreytt atvinnulíf og vaxandi byggð.

En það er ekki rétt gefið og það verður ekki nema Vestfirðingar fari að búa sig af krafti fyrir því að taka til sín fullveldi í mikilvægum málum.

Svæðisbundnar ríkisstofnanir

Í seinni tíð, eftir að komið var inn á þessa öld fór að verða vart við frekari fullveldisflutning til sérstakra aðila. Nú er það helst að ráðin eru tekin af fólki heima í héraði og flutt til úrvalssveitar ríkisstarfsmanna sem er falið að hafa vit fyrir okkur. Nýting lands og sjávar með sínum gögnum og gæðum eru sett undir eftirlit og leyfisveitingar stofnana og þar með tekin ráðin af heimamönnum.

Skýrustu dæmin eru á Vestfjörðum. Það er kannski vegna þess að á höfuðborgarsvæðinu hefur sú skoðun náð fótfestu að Vestfirðir eigi að vera eins hvers konar  syndaaflausn fyrir náttúrurspjöllin á höfuðborgarsvæðinu. Þetta viðhorf birtist inn í einstökum stofnunum. Hæst ber þar Skipulagsstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og nú síðast Hafrannsóknarstofnun. Þar hafa forsvarsmenn lagt sig fram um að leggja stein í götu framfara á Vestfjörðum í vegagerð um Teigsskóg í Gufudalssveit , virkjunaráform í Hvalá í Árneshreppi og atvinnuuppbyggingu með sjókvíaeldi.

Þetta á alls ekki við um allar opinberar stofnanir. Þar ræður bæði hvert verkefni stofnunarinnar er og líka hverjir helst ráða málum innan viðkomandi stofnanir. Veðurstofa Íslands hefur lagt sig fram um uppbyggingu á starfsemi sinni á Vestfjöðrum. Umhverfisstofnun hefur líka sýnt góða viðleitni til þess að dreifa störfum um landið. Aðrar stofnanir og ráðuneytin búa flest við fornaldarviðhorf og tekja ekkert geta verið utan 101 Reykjavík. En það er í heild algerlega óásættanleg staða að eiga það undir einstökum ráðandi einstaklingum hvort og þá  að hver miklu leyti hagsmunir almennings um landið eru jafnsettir höfuðborgarsvæðinu.

Með tilkomu þessara meðhöndlunar opinbers valds verður það knýjandi nauðsyn fyrir samfélög á Vestfjörðum að endurheimta fullveldið sem áður var í veigamiklum málum. Það á við um nýtingu auðlinda sem og eðlilega hlutdeild í arðinum sem þar verður til.

Því meir sem valdið er flutt frá heimamönnum til einstaklinga eða stofnana þeim mun verr gengur að tryggja íbúunum jafna og eðlilega hlutdeild í þjóðartekjum og þjóðarauðnum. Vestfirðinga vantar milljarða tugi króna á hverju ári inn í hagkerfi sitt. Þessir peningar eru færðir til og úr höndum fólksins sem á réttmæta kröfu til þeirra. Það er stóra arðránið í íslensku þjóðfélagi um þessar mundir.

Fullveldið vestur.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir