Afstæðar sóttvarnarreglur

Pistlar
Share

Það er ekki tekið út með sældinni að vera í fyrirsvari fyrir aðgerðum gegn illvígri og bráðsmitandi drepsótt.

Það þarf að takmarka verulega samskipti fólks og jafnvel banna samneyti ættingja, vina, vinnufélaga og vandalausra til þess að koma í veg fyrir, eins og hægt er, að fólk smitist, sjálfu sér og öðrum til tjóns.

Svo erfið er pestin að þegar sigur virtist unnin og um stund hafði verið slakað á samskiptabanninu gaus hún upp aftur hér og hvar og stjórnvöld voru ráðalaus og vissu varla hvaðan stóð á sig veðrið.

Almenna reglan

Þá var aftur gripið til hertra aðgerða og reynslunni ríkari var nú talað skýrar en nokkru sinni:

Tveggja metra reglan er skylda, en ekki viðmið. Það skulu allir sem ekki búa á sama heimili hlýta reglunni.

Í klausu um nálægðartakmarkanir á covid.is segir: „Á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi, m.a. þeirri sem talin er upp í 3. gr., skal tryggja að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki deila heimili.“

Þetta er sem sé almenna reglan er nú sagt.

 

Vegna þessa hefur fjölmörgum viðburðum verið aflýst. Jarðarfarir fara fram að viðstöddum örfáuum nánustu aðstandendum. Sama á við um fermingar og  útskriftir í skólum. Bannað hefur verið að hitta nána ættingja á hjúkrunarheimilum. Skólahald er verulega úr skorðum o.s.frv.

Almenna reglan á nefnilega við um almenning, nema hvað.

Sérákvæðið

En svo kemur afstæðisreglan. Hún er þannig að erfiðar reglur eiga ekki við um alla. Sérstaklega þá sem setja reglurnar. Þeir auðvitað fylgja reglunum út í ystu æsar þar sem það á við. Hvenær það er, er svo afstætt. Eitt og annað gerir það að verkum að þeir eru  reglurnar eiga ekki alltaf við.

Þegar ferðamálaráðherrann verður uppvís að því að hunsa tveggja metra regluna í vinahópi, og storka þannig drepsóttinni, draga orðuhafarnir upp úr pússi sínu áður óþekkta reglu og sýkna ráðherrann sinn af því að hafa brotið almennu tveggja metra regluna. Nýjungin varða tengda og ótengda aðila og er svona:

„Þarna var hugsunin hjá sóttvarnarlækni að þetta væru einstaklingar sem eru ótengdir.“

Vinkonurnar, hver af sínu heimilinu, voru sem sé ekki bundnar af tveggja metra reglunni af því þær eru tengdar – sem vinkonur.

Þá hverfur smithættan sem dögg fyrir sólu. Samráðherrarnir og aðal kinkar kolli og veifar höndunum svo ákaft að áhorfandanum svimar og sundlar að auki.

Undanþágan frá  sérákvæðinu

En smithættan hverfur ekki þegar tengdir aðilar hittast í jarðarför, fermingu eða vð skólaútskrift. Þá er almenna reglan tveggja metra fjarlægð milli tengdra sem ótengdra aðila- alltaf. Því hvernig á að hafa stjórn á drepsótt ef almenningur fellur ekki undir almenna reglu?

En þetta eru erfiðar reglur og krefjast mikilla fórna af fólki sem leggur sig fram fyrir land og þjóð – og sérstaklega almenning.

Það sjá allir að sóttvarnarreglur verða í þeim tilvikum að vera afstæðar og sveigjanlegar.

-k

 

Athugasemdir