Græðgi á sterum

Pistlar
Share

Talsmaður samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi heldur því fram í Morgunblaðinu í byrjun ársins að veiðigjaldið, sem útgerðarfyrirtæki greiða ríkinu fyrir afnot af fiskimiðunum, sé komið langt fram úr hófi og sé skaðlegt sjávarútveginum og þar með samfélaginu öllu. Hátekjuskattur á sterum er nafngiftin sem hlutur ríksins fær.

Staðreyndirnar tala öðru máli. Þær eru að um þessar mundir fær útgerðin 87% af framlegðinni í sinn vasa en ríkið aðeins 13%. Til ríkisins rennur veiðigjaldið, sem er núna 23 kr/kg fyrir hvert kg af þorski. Útgerðin fær 156 kr/kr. til sín. Það er sjö sinnum hærra. Hlutur ríkisins í arðinum af auðlindinni er ekki hátekjuskattur á sterum. Öðru nær, en skerfur útgerðarinnar af arðinum er græðgi á sterum.

Óbreytt veiðigjald

Ramakvein útgerðarinnar er tilkomið vegna þess að veiðigjaldið tvöfaldast í krónutölu frá síðasta fiskveiðiári. Það skýrist af því hreinn hagnaður af fiskveiðum árið 2015 varð sá mesti síðan 2001 og tvöfaldaðist frá 2014. Þess vegna er fjárhæð veiðigjaldisins 2015 tvöfalt hærri en ársins 2014. Veiðigjaldið er óbreytt hlutfall af hreinum hagnaði. Það er því ekkert meira íþyngjandi nú en áður. Hreinn hagnaður varð 2014 sá minnsti síðan 2009. Þess vegna varð álagt veiðigjald síðasta fiskveiðiárs líka lágt og lækkaði um 50% frá árinu þar á undan. Hreinn hagnaður eftir veiðigjald jókst úr 10 milljörðum króna í 20 milljarða króna frá 2014 til 2015. Útgerðin er að græða meira en ekki minna. Stóryrðin um stórfellda hækkun veiðigjaldsins eru röng.

Veiðigjaldið aðeins 10% af framlegð

Leiga á kvóta er mikið stunduð. Útgerð sem leigir til sín kvóta gerir það vegna þess að tekjur af aflanum eru hærri en kostnaðurinn við veiðarnar. Það verður að vera framlegð af slíkum veiðum. Markaðsverð á leigukvóta gefur góða mynd af framlegðinni. Á árinu 2015 voru samkvæmt upplýsingum á vef Fiskistofu leigðar gegn gjaldi um 14% af öllum útgefnum kvóta í þorski. Það voru 26.837 tonn í 2065 viðskiptum og samtals voru greiddar 6.103 milljónir króna í leigugjald. Að meðaltali voru greiddar 227 kr/kg. Þetta er það stór hluti af heildinni og viðskiptin það mörg að telja verður að gott mat fáist á framlegðina af veiðunum almennt. Veiðigjaldið sem nú er kvartað undan er miðað við afkomuna þetta sama ár 2015 og er 22,98 kr/kg. það er aðeins 10% af meðalleiguverði þorskkvótans. Þetta markaðsverð á leigukvóta leggur grunn að verði varanlega kvótans eða aflahlutdeildarinnar sem lánastofnanir styðjast við.

Myndin breytist ekki mikið þótt veiðigjaldið sé borið saman við afkomuna á yfirstandandi fiskveiðiári í stað þess að miða við 2015. Meðalverð á 1 kg af þorskkvóta fjóra fyrstu mánuði fiskveiðiársins 2017/18 er 156,35 kr. Bæði fjöldi viðskipta á bak við meðalverðið og magnið hefur aukist. Til viðbótar kvótaleigunni þarf að greiða veiðigjaldið 22,98 kr/kg. Samtals greiðir sá sem tekur kvótann á leigu 179 kr. Það er þá matið á framlegðinni. Hlutur veiðigjaldsins af framlegðinni um þessar mundir er um 13% samkvæmt þessum tölum. Það er ekki mikil breyting frá 10%.
Svonefnd veiðigjaldsnefnd hefur það hlutverk að reikna út veiðigjaldið og jafna því niður. Nefndin reiknar út framlegð samkvæmt forskrift í viðkomandi lögum. Hún ber þess merki að Alþingi hefur sýnt málstað samtaka útgerðanna mikla tillitssemi. Engu að síður reiknast nefndinni til að framlegðin af þorskveiðum hafi verið um 102 kr/kg. Veiðigjald upp á 22,98 kr/kg þar af er 22% af framlegðinni og getur á engan hátt talist óhófleg.

Vanmetnar tekjur

Hafa þarf í huga að stærstur hluti aflans er seldur í beinum viðskiptum milli skyldra eða sama aðila. Verðið er enda mun lægra en markaðsverð. Stór hluti útgerðarinnar er nátengdur fiskvinnslu. Á þennan hátt eru tekjur útgerðarinnar lækkaðar og færðar yfir á vinnsluna sem er að mestu undanþegin veiðigjaldi. Við þetta lækkar hagnaður útgerðarinnar og veiðigjaldið til ríkisins verður lægra en það í raun á að vera. Sjávarútvegsfyrirtækin halda þannig með bókhaldsbrellum eftir meira af hagnaðinum í sjávarútveginum. Ekki er gott að fullyrða um hversu miklu af raunverulegum hagnaði af útgerðinni er komið undan veiðigjaldi en færa má rök fyrir því að það geti verið um 20%.

550 milljarðar kr á 8 árum

Afkoma í sjávarútvegi hefur verið fádæma góð allt frá 2009. Samanlögð framlegð (EBITDA) greinarinnar frá 2009 – 2016 framreiknuð er um 600 milljarðar króna. Þar af hefur ríkissjóður fengið um 50 milljarða króna í formi veiðigjalds. Eigendur sjávarútvegsfyrirtækjanna hafa fengið ríflega 90% til sín. Það er um 550 milljarðar króna. Upplýst er að arðsemi í sjávarútvegi sé tvöfalt meiri en í atvinnulífinu. Það er líka upplýst að einungis 1.000 manns eigi nánast allt eigið fé einstaklinga í íslensku atvinnulífi.

Átökin standa um skiptingu á arðinum. Ef ríkið tekur til sín stærri hlut með hækkandi veiðigjaldi mun verð á kvóta lækka að sama skapi. Talsmenn sjávarútvegsins vilja að þessir fáu eigi sem mest og að hinir mörgu, almenningur, fái sem minnst. Það er kjarni málsins; græðgi á sterum.

Kristinn H. Gunnarsson

“ onclick=“return fbs_click()“ target=“_blank“ class=“fb_share_link“>Deila á Facebook

Athugasemdir