Vestfirðingar utan þjónustusvæðis

Pistlar
Share

Það er ekki ofmælt að Vestfirðingum hafi verið illilega brugðið þegar í ljós kom að innsta forysta Vinstri grænna valdi framkvæmdastjóra Landverndar í embætti umhverfisráðherra. Hinn nýi ráðherra hefur verið allt frá 2011 aðaltalsmaður Landverndar og hefur beitt sér af fullum þunga gegn flestum framfaramálum á landsbyggðinni. Landvernd hefur árum saman beitt sér af alefli gegn atvinnuuppbyggingu á Húsavík og staðið að kærum á öllum þáttum málsins hvort sem það lýtur að virkjun Þeistareykja, lagningu raforkulínu þaðan til Húsavíkur eða kísilmálverksmiðjunni sjálfri. Við lá um tíma að samtökunum tækist með lagakrókum og kæruflóði að koma í veg fyrir að verksmiðjan fengi rafmagn. Allt í nafni náttúrunnar.

Umhverfisofstæki

Það hefur ekki áður sést viðlíka ofstæki í andstöðu við almenn framfaramál og birst hefur undanfarin ár í framgöngu Landverndar. Samtökin hafa beint spjótum sínum gegn uppbyggingu og framförum á Vestfjörðum. Gildir einu hvort um er að ræða vegagerð ,atvinnuppbyggingu eða öruggt aðgengi að raforku. Lagst er gegn öllum tilraunum á Vestfjörðum til þess að gera lífskjör í fjórðungnum sambærileg við það sem er annars staðar á landinu.

Það má ekki leggja veg um Teigsskóg af umhyggju fyrir umhverfinu. Engu máli skiptir þótt íbúar fjórðungsins líði dag hvern fyrir frumstæða vegaslóða. Engu máli skiptir þótt framgangur birkis sé sá mesti á landinu og þúsundir hektara af birkigróðri hafi bæst við á Vestfjörðum á undanförnum árum og engu máli skiptir þótt fyrirsjáanlegt sé að þúsundir hektara af nýjum birkigróðri muni bætast við á næstu árum. Engu máli skiptir þótt skaðinn af vegagerð um Teigsskóg sé lítið brotabrot af nýliðun birkis á Vestfjörðum. Mannfólkið á Vestfjörðum og velferð þess skal víkja fyrir brenglaðri mynd og veruleikafirringu svokallaðra umhverfissinna.

Því miður er veruleikafirringin að verða útbreidd eins og Vestfirðingar urðu varir við í sumar í umræðu um Hvalárvirkjun. Það er ótrúlega virkur og áhrifamikill hópur fólks sem vinnur á þessum hugmyndafræðilega öfugsnúna grundvelli. Þar má nefna stofnanir eins og Skipulagsstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Ríkisstjórnin, sem sat frá 2009 til 2013, mátti ekki heyra á það minnst að leggja veg um Teigsskóg og umhverfisráðherra þeirrar ríkisstjórnar lagði sig fram um að girða fyrir alla möguleika til þess að fá vegagerðina samþykkta. Þau ummæli heyrðust á þeim tíma að fyrr myndi frjósa í helvíti en að vegur yrði lagður um Teigsskóg.

Hinn nýi umhverfisráðherra er handvalinn af þeim sem mestu réðu um stefnuna þá og hann mun ekki hvika um tommu. Það vekur athygli að umhverfisráðherrann fær þau ummæli frá félögum sínum í Vinstri grænum, sem rætt hefur verið við, að vera svartstakkur í umhverfismálum, ósveigjanlegur í skoðunum og frekjuhundur sem skammi fólk ótæpilega ef það er ekki nógi fljótt til að beygja sig undir hans vilja.

Hvað varðar laxeldið í sjó á Vestfjörðum og sérstaklega í Ísafjarðardjúpi þá gildir það sama og um Teigsskóginn, að hinn nýi umhverfisráðherra hefur verið hatrammur á móti því í fyrra starfi sínu og sama á við um fyrirhugaða virkjun Hvalár.Frammistaða hans í þessum þremur málum hefur verið pólitískri ráðningarskrifstofu hans, Vinstri grænum, vel að skapi.

Vestfirðingum ofaukið

Rauði þráðurinn í þessari stökkbreyttu umhverfisstefnu, sem hefur breytt henni í illvígt krabbamein, er sá að framtíðarhlutverk Vestfjarða er að vera þjóðgarður þar sem náttúran er varðveitt í sem upprunalegastri mynd fyrir komandi kynslóðir. Þörfin fyrir þjóðgarðinn kemur til af því að óhjákvæmilegt er talið að ganga á náttúruna og auðlindir hennar á höfuðborgarsvæðinu og nálægum uppbyggingarsvæðum. Framfarirnar eru nauðsynlegar til þess að bæta lífskjörin og náttúrunni syðra verður að fórna til þess. Þar má því leggja vegi hvar sem er, þar má alls staðar virkja, þar má byggja hótel hvar sem, jafnvel ofan á elsta kirkjugarði Reykvíkinga, þar má í stuttu máli gera allt sem skapar peninga. Þessa miklu fórn er svo ætlað að bæta upp með því að friða Vestfirði og gera fólkið þar að útlögum í eigin heimabyggð. Vestfirðingum er eiginlega ofaukið á Vestfjörðum. Það má segja þeir séu utan þjónustusvæðis hins íslenska ríkis.

Við er tekin ríkisstjórn hagsmunaöfganna. Vinstri grænir tefla fram framkvæmdastjóra öfgasamtaka og Sjálfstæðisflokkurinn þjónar öðrum öfgasamtökum og setur handlangara helsta útgerðarauðvaldsins í sjávarútvegsráðuneytið. Hvorugt verður Vestfirðingum eða landsmönnum til neinnar gæfu.

Kristinn H. Gunnarsson

leiðari í Vestfirðingi, 1.tbl. 1. árgangi; 7. des. 2017

Athugasemdir