Uppreist æra í stað siðbótar

Pistlar
Share

Ákvörðun Vinstri hreyfingarinnar, græns framboðs um stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki reisir æru formanns Sjálfstæðisflokksins upp frá dauðum og frestar um sinn óhjákvæmilegri siðbót í íslenskum stjórnmálum.
Það er stöðugt vaxandi krafa almennings að þeir stjórnmálamenn eigi að víkja af vettvangi stjórnmálanna sem blanda saman eigin hagsmunum og almannahag. Eftir bankahrunið er lítil þolinmæði fyrir sérhagsmunagæslu í fremstu víglínu stjórnmálanna. Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins hrökklaðist úr ráðherraembætti fyrir réttum þremur árum og skömmu síðar úr varaformannsstól flokksins vegna spillingar. Þegar öll sund voru lokuð gafst hún upp og sagði af sér. Þá kvöddu hana tveir menn með tárin í augunum og hældu henni á hvert reipi. Annar þeirra var forsætisráðherrann, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og hinn var fjármálaráðherrann, Bjarni Benediktsson.

Wintris og Vafningur

Mat þessar tveggja manna á því hvernig nota eigi valdastólana er gerólíkt mati almennings. Þeir æra almenning reglulega með breytni sinni og valdhroka. Blekkingarleikurinn með Wintris varð til þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson varð að segja af sér embætti forsætisráðherra og varð heldur ekki vært í ríkisstjórn. Þrátt fyrir að fá ágætt fylgi í alþingiskosningunum er hann enn utangarðsmaður í stjórnmálunum og fær engan flokk til þess að starfa með sér nema þá helst Sjálfstæðisflokkinn. Yfirgnæfandi meirihluti kjósenda er algerlega andvígur því að leiða formann Miðflokksins til valda og það verður ekki gert.
Á sama hátt er mikil andstaða við formann Sjálfstæðisflokksins. Fylgi flokksins undir hans forystu hefur aldrei verið minna í gervallri sögu Sjálfstæðisflokksins. Fylgið fer líka minnkandi. Ástæðan er óbeit kjósenda á hagsmunaskörun milli stjórnmála og viðskipta.

Lögbann á fjölmiðlafrelsið

Menn skulu ekki gleyma því að í gildi er lögbann við umfjöllun fjölmiðla á efni sem tengist formanni Sjálfstæðisflokksins. Stundin og Guardian voru búin að birta nokkuð efni úr skjölum og sýna fram á ósannsögli forsætisráðherrans fráfarandi þegar þrotabú Glitnis greip inn í atburðarásina með dyggri aðstoð sýslumanns sem þegið hefur ítrekað embætti sitt úr hendi flokksins og stöðvaði frekara upplýsingastreymi skömmu fyrir alþingiskosningarnar. Bannið stendur enn og mun vara a.m.k. fram á næsta ár.
Eru hinn nýhreinsaði Framsóknarflokkur og Vinstri grænir búnir að gleyma því að formaður Sjálfstæðisflokksins leyndi tveimur skýrslum í aðdraganda alþingiskosninganna á síðasta ári? Önnur skýrslan fjallaði um eignir Íslendinga á aflandseyjum og hin skýrslan dró fram að lækkun höfuðstóls íbúðalánsskulda um 72 milljarða var alveg sérstök gjöf til auðugra.
Það má líka minna á að Stundin hefur áður dregið fram að formaður Sjálfstæðisflokksins forðaði áhættufé sínu í sjóði 9 tímanlega yfir í ríkistryggð bréf fyrir hrunið 2008 þar sem hann bjó yfir upplýsingum sem almenningur hafði ekki. Í Vafningsmálinu er nú upplýst að Bjarni Benediktsson hafði aðra og meiri aðkomu en hann hafði áður sagt en lögbannið stöðvaði frekari umfjöllun um málið.

Eftir Bjarna kemur Borgun

Það er líka upplýst að árið 2009 hafi Bjarni Benediktsson hringt í eiganda DV til þess aðstöðva fréttaflutnings blaðsins af Vafningsmálinu. Eftirfarandi er birt í Stundinni 18. okt. 2017:
„Hann var ekkert að skafa af því, hann ætlaðist til þess að ég stöðvaði þennan fréttaflutning,“ sagði Hreinn Loftsson, aðaleigandi DV, þegar hann lýsti símtali Bjarna árið 2009.
Það hefur líka verið rakið að 120 milljarðar króna afskriftir eftir hrun tengjast Bjarna Benediktssyni og föður hans.
Að lokum má rifja upp þa ótrúlegu „handvömm“ Landsbankans undir stjórn fjármálaráðherrans Bjarna Benediktssonar að selja hlut sinn í Borgun langt undir raunverði til aðila innan armslengdar frá ráðherranum.

Apavatnsför Katrínar

Það er spillingin í stjórnmálunum sem er helsti vandinn. Það er krafan um siðbót í stjórnmálunum sem forystumenn sumra flokka þverskallast við sem veldur óstöðugleikanum. Það er ekki væntanleg ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna sem veldur áhyggjum. Það er sakaruppgjöf Vinstri grænna til handa formanni Sjálfstæðisflokksins sem veldur því að þessi leiðangur formanns Vinstri grænna verður jafn ógæfusamur fyrir hana og Apavatnsför Sturlu Sighvatssonar vorið 1238 var fyrir hann. Óstöðugleikinn og ókyrrðin munu halda áfram vegna hinnar uppreistu æru og breytir engu hver situr í forsætisráðherrastólnum.

Kristinn H. Gunnarsson

leiðari í blaðinu Vestfirðir
16.11. 2017

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir