Áfram vestur

Pistlar
Share

Fyrir réttri viku var undiritaður formlegur verksamningur um Dýrafjarðargöng. Þar með er í höfn áratugalangt baráttumál Vestfirðinga fyrir greiðum heilsárssamgöngum milli norður og suðursvæðis Vestfjarða. Jarðgöngin verða að öllu forfallalausu tekin í notkun eftir rúm þrjú ár, líklega síðla árs 2020. Vissulega geta enn brugðist góð áform og fögur fyrirheit og jarðgöngunum gæti verið seinkað, en það verður að teljast mjög ólíklegt og ekki eru fordæmi fyrir því að brugðið hafi verið af ásettu ráði frá tímasettri verkáætlun eftir að samningar hafa verið undirritaðir. Því er hér því slegið föstu að Dýrafjarðargöngin séu í höfn.

Sóknarfæri

Rökin fyrir samgöngubótunum eru margþætt. Fyrst þau að Vestfirðir frá Djúpi að Breiðafirði verða með öruggum heilsársvegi milli svæðanna að einu atvinnu- og menningarsvæði. Þessi tvö langsamlega fjölmennustu svæði Vestfjarðafjórðungs munu fyrst eftir Dýrafjarðargöng geta veitt hvoru öðru styrk í uppbyggingu og þróun atvinnuveganna og þjónustustarfsemi. Það segir sína sögu að Vestfirðir eru síðust allra landsvæða á Íslandi til þess að ná þeim framförum að verða eitt samgöngusvæði. Það er reynslan alls staðar á landinu að viðlíka framförum í samgöngum hefur fylgt vaxandi tækifæri í atvinnumálum og fjölgun íbúa í kjölfarið. Samgöngur eru vissulega ekki það eina sem máli skiptir til þess að snúa vörn í sókn en fullyrða má að án samgangna sé vonlítið að ná nokkurri viðspyrnu. Búsetuskilyrði og lífskjör íbúanna munu batna.

Dýrafjarðargöngum fylgja aðrar vegaframkvæmdir. Nýr vegur verður lagður um Dynjandisheiði með þeim endurbótum sem nauðsynlegar verða til þess að vegurinn verði öruggur heilsársvegur. Eins verður að ljúka nýjum vegi austur Barðastrandarsýslu. Án þessara nýju vega verða Dýrafjarðargöngin svo gott sem tilgangslaus fjáraustur. Ákvörðun um Dýrafjarðargöng fylgir að sem fyrst verður að ljúka vegagerð um Gufudalssveitina í Austur Barðastrandarsýslu. Af þessum ástæðum hefur það alltaf verið mikilvægast að festa Dýrafjarðargöngin sem fyrst í sessi.

Allar þessar vegaframkvæmdir leiða af sér að samgöngur milli Reykjavíkursvæðisins og Vestfjarða munu batna og leiðir styttast. Leiðin milli Patreksfjarðar og Reykjavíkur mun styttast um 21 km og verður um 375 km. Styttingin milli Reykjavíkur og Ísafjarðar verður enn meiri eða um 49 km. Vegalengdin milli svæðanna verður þá komin niður í um 400 km. Það bætur búsetuskilyrðin bæði í vestur Barðastrandarsýslu og á norðanverðum Vestfjörðum að stytta ferðatímann til höfuðborgarsvæðisins og gera vegina örugga allan ársins hring. Mest mun muna um breytingarnar í Dýrafirði. Þar munu íbúa eftir göng geta farið suðurleiðina í stað þess að fara fyrst til Ísafjarðar og þaðan um Ísafjarðardjúp ætli þeir vestur á bóginn, hvort sem það er til Patreksfjarðar eða til Reykjavíkur. Styttingin fyrir Þingeyringa til Reykjavíkur verður um 150 km – hvora leið.

Baráttusaga

Baráttan fyrir Dýrafjarðargöngum er orðin býsna löng. Líklega er fyrst minnst á Dýrafjarðargöng í jarðgangaáætlun þáverandi ríkisstjórnar sem lögð var fram á Alþingi í apríl 2000 og samþykkt mánuði síðar. Þar var ákveðið að jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar yrðu rannsökuð sérstaklega. Í lok maí 2008 eru Dýrafjarðargöngin formlega samþykkt inn í samgönguáætlun Alþingis og gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist 2010 og verkinu verði lokið árið 2012. Hrun fjármálastofnanna þá um haustið gerði þessi áform að engu. Síðan hefur gengið á með loforðum og fyrirheitum stjórnmálamanna um að hefja framkvæmdir en jafnoft hafa þau fyrirheit breyst og horfið eins og lauf í vindi. Í marsmánuði 2009 var fluttu tveir þingmenn Vestfirðinga, Kristinn H. Gunnarsson og Guðjón Arnar Kristjánsson, tillögu á Alþingi um Dýrafjarðargöng og nýjan veg um Dynjandisheiði. Lögðu þeir til að framkvæmdir yrðu boðnar út þá sama ár og yrðu lokið 2012. Það gekk ekki eftir og voru aðrar jarðgangaframkvæmdir settar í forgang. Baráttuhópurinn Áfram vestur skipaður 14 Vestfirðingur varð til um sumarið 2009 og beitti sér fyrir samstöðu meðal Vestfirðinga um samgöngubæturnar með fundahöldum og lagði sitt af mörkum til þess að hafa áhrif á stjórnvöld og Alþingi. Verður sú saga rakin betur síðar. En nú átta árum síðar er þeim áfanga náð að verksamningur liggur fyrir undirskrifaður. Munu framkvæmdir formlega hefjast 13. maí næstkomandi í Arnarfirði við fyrirhugaðan gangamunna.

Blaðið Vestfirðir sendir Vestfirðingum öllum og landsmönnum öllum árnaðaróskir og hvetur þá til þess, sem það geta, að vera viðstaddir upphaf framkvæmdanna.

Kristinn H. Gunnarsson

Leiðari í blaðinu Vestfirðir 27.4. 2017

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir