Vanhæfur Umhverfisráðherra

Pistlar
Share

Björt Ólafsdóttir, Umhverfisráðherra gerir í dag opinberlega kröfu til þess að kísilmálmverksmiðjunni í Helguvík verði lokað. Tilefnið er að síðastliðna nótt eldur kom upp í ofnhúsi verksmiðjunnar vill ráðherrann að lokunin standi meðan eftirfarandi verði skoðað:
1. Hver er ástæða einkenna sem íbúar nálægt verksmiðjunni upplifi og mengunarmælingar skýra ekki.
2. Vinnuaðstæður starfsmanna athugaðar.
3. Hvernig verksmiðjan er fjármögnuð.

Ótvírætt er að eldur í verksmiðjunni er alvarlegt mál. Starfsemi verksmiðjunnar liggur eðlilega niðri og lögreglurannsókn er hafin á eldsupptökum. Málið er í eðlilegum farvegi og enginn í hættu.
Umhverfisráðherrann ákveður að hafa afskipti af málinu, segir nóg komið og vill lokun. Áður hefur ráðherrann á stuttum valdaferli sínum ítrekað lýst yfir andstöðu við stóriðju og þar með kísilmálmverksmiðjuna í Helguvík. Þann 12. janúar sagði hún t.d. á visir.is að tími mengandi stóriðju væri liðinn. Orðrétt: „Ég er ekki hrifin af kísilverum þar sem þau menga mjög mikið“.

Misnoktun ráðherravalds

Eitt er að ráðherrann tali fyrir skoðunum sínum varðandi stóriðju en annað er að ráðherrann fer hér út fyrir valdsvið sitt og inn á svið undirmanna sinna og nánast krefst þess að þeir breyti starfsleyfi kísilmálmverksmiðjunni og stöðvi starfsemina. Þetta skrifar ráðherrann orðrétt á opinni facebook síðu sinni:
Nú er komið nóg. Það þarf að loka kísilmálverksmiðjunni í Helguvík á meðan eftirfarandi þættir eru kannaðir til fullnustu.
Það er Umhverfisstofnun sem fer að lögum með útgáfu starfsleyfis fyrir verksmiðjuna en ekki ráðherrann. Umhverfisráðherrann er yfirmaður Umhverfisstofnunar og skipar forstjórann. Björt Ólafsdóttir er með þessum afskiptum sínum að misnota ráðherravald sitt til þess að hafa áhrif á undirmann sinn í Umhverfisstofnun.
Að lögum er það Umhverfisstofnunin sem getur lokað til bráðabirgða. Í 29. gr. laga nr 7/1998 segir : „Telji [Umhverfisstofnun] 1) svo alvarlega hættu stafa af tiltekinni starfrækslu eða notkun að aðgerð þoli enga bið er henni heimilt til bráðabirgða að stöðva starfsemi eða notkun þegar í stað“.
Slík ákvörðun er stjórnsýsluákvörðun. Hana verður að taka samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og gæta þar m.a. að rannsóknarreglu, meðalhófsreglu og andmælarétti. Sá sem fyrir ákvöruninni verður getur kært hana til sérstakrar nefndar, úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. °Starfsmenn Umhverfisstofnunar verða því að vera undir það búnir að geta varið ákvörðun um rekstrarstöðvun fyrir úrskurðarnefndinni. Ráðherrann krefst aðgerða sem hann á ekki að hafa áhrif á og ber enga ekki ábyrgð á.

Misnotkun lagaákvæða
Krafa ráðherrans er þannig rökstudd að ef rök hennar yrðu lögð til grundvallar aðgerðum Umhverfisstofnunar væri augljóslega um alvarlega rangtúlkun lagaákvæðanna sem styðjast verður við þegar ákveðið er að stöðva starfsemina. Í lögunum um hollustuhætti og mengunarvarnir (7/1998) er heimildin bundin við að um alvarlega hættu sé að ræða af starfseminni. Aðstæður núna þegar ráðherrann setur fram sína kröfu eru að verksmiðjan er ekki í starfrækslu og verður ekki fyrr en eldsupptök eru ljós og öryggi starfsmanna er tryggt. Væntanlega mun Umhverfisstofnun gæta að þessu þegar til þess kemur að setja á starfsemina í gang aftur og þarf ekki neina hvatningu frá Umhverfisráðherra til þess.
Hin tvö atriðin sem ráðherrann nefnir sem ástæður fyrir lokun snúa að „einkennum“ sem íbúar upplifi og að fjármögnun stofnkostnaðar.
Eigi að loka út af „einkennunum“ þarf tvennt að liggja fyrir : annað að þau falli undir alvarlega hættu og hitt að starfsemi verksmiðjunnar valdi þeim. Þetta verða starfsmenn Umhverfisstofnunar að vega og meta. Ákvörðun sem tekin kann að verða þarf að vera málefnaleg og rökstudd annars geta fjárhagslegar skaðabætur fallið á ríkissjóð.
Krafan um lokun vegna rannsóknar á fjármögnun verksmiðjunnar á sér enga stoð í lögunum og það nær ekki nokkurri átt að ráðherrann sjálfur skuli setja fram kröfur um afdrífaríka ákvörðun sem ekki eru studdar neinum lagalegum rökum.

Hafnar leikreglunum
Björt Ólafsdóttir, Umhverfisráðherra er einn þeirra stjórnmálamanna um þessar mundir, sem kærir sig kollótta um leikreglurnar sem henni er ætlað að fylgja. Lýðræðið byggir á lögum og reglum og því að þeir sem fara með vald hverju sinni fylgi þeim ákvæðum. Björt Ólafsdóttir veit fullvel að málið er ekki í hennar höndum, húnveit líka að hún á ekki að beita stöðu sinni sem ráðherra og yfirmaður til þess að krefjast tiltekinna aðgerða af undirmönnum sínum. En hún ákveður að fara sínu fram samt. Hún hafnar leikreglunum ef þær henta ekki pólitískum markmiðum hennar. Fyrir vikið er ráðherrann vanhæfur.

Þetta er hættuleg þróun sem verður að stemma stigu við. Það stendur forystumönnum ríkisstjórnarflokkanna næst. Skylda þeirra er að taka í taumana og halda ráðherranum innan ramma laganna.

Kristinn H. Gunnarsson

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir