Hækkar gengi hýrnar brá

Pistlar
Share

Gengishækkun krónunnar er kjarabót fyrir almenning

Undanfarnar vikur hafa hellst yfir landsmenn grátstafir forsvarsmanna í sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Það er engu líkara en að hækkandi gengi íslensku krónunnar sé stórfellt efnahagslegt vandamál sem sé við það gera út af við afkomu fyrirtækjanna. Þannig hefur til dæmis framkvæmdastjóri LÍÚ sagt berum orðum að til greina komi að flytja fiskvinnslu til útlanda og forystumenn ferðaþjónustunna bera sig enn verr yfir því óréttlæti stjórnvalda að ætla þeim að greiða sama virðisaukaskatt og almennt gildir í landinu.

Þarna þarf aðeins að staldra við áður en menn tapa sér yfir barlómnum og hætta að sjá sólskinið í heiðskíru veðri. Það er að sönnu rétt að útflutningsfyrirtæki tapa á því að gengi krónunnar hækkar, að því leyti að færri krónur fást fyrir seldar afurður til útlanda sem greitt er fyrir í erlendri mynt. Þarna getur orðið munur á tekjuþróun og útgjaldaþróun á þann veg að útgjöldin hækka meira en tekjurnar vegna gengisáhrifanna.
Hins vegar er ekki allt sem sýnist. Frá bankahruninu 2008 hefur gengið verið lágt og þess vegna hafa útflutningsgreinar búið við góðæri umfram aðra. Sérstaklega hefur verið gullgrafaraástand í sjávarútveginum eins og opinberar tölur um bera með sér.Ekki bara vegna lágs gengis krónunnar heldur hefur verð á sjávarafurðum verið sérlega hagstætt erlendis. Á árunum 2014 og 2015 hækkaði verðið um 18% í erlendri mynt og stóð svo í stað í fyrra.
Ferðþjónustan hefur notið hins lága gengis, sem gerði það ódýrt fyrir erlenda ferðamenn að koma til landsins. Eins og alltaf þegar mikil eftirspurn verður þá hækkar verðið. Fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa sætt lagi og hækkuðu verð á sinni vöru um 11% á síðasta ár að því er fjármálaráðherra hefur upplýst. Tekjur ferðþjónustunnar hafa hækkað að raungildi þrátt fyrir hækkandi gengi krónunnar.

Almenningur fær ávinning

Hin augljósu áhrif af hækkandi gengi krónunnar er að hagur almennings batnar. Innflutningsverð á vöru og þjónustu lækkar og kaupmáttur ráðstöfunartekna vex. Verðbólga hefur verið lág síðustu 3 ár og skuldir hafa lækkað. Hækkandi gengi dreifir háum fjárhæðum milli þjóðfélagshópa. Hagnaður útflutningsgreina minnkar og er í raun færður til almennings. Segja má að verið sé að færa hluta að gróðanum í sjávarútveginum til almennings. Hækkandi gengi gerir það sem veiðigjaldið á að gera. Útgerðarauðvaldið hefur í gegnum kverkatak sitt á stjórnmálaflokkum landsins lækkað greiðslur fyrir afnotin af fiskimiðunum um ¾ en þeim hefur hins vegar ekki tekist að koma í veg fyrir fjármagnstilfærslurnar í gegnum gengi íslensku krónunnar. Almenningur nýtur góðs af því.

Seðlabankinn hefur reynt að draga úr gengishækkuninni með því að kaupa erlendan gjaldeyri og selja ískenskar krónum. Gjaldeyrisforði Seðlabankans er óheyrilega mikill. Hann var um síðustu áramót 815 milljarðar króna og jókst um 163 milljarða króna á síðasta ári. Það má setja a.m.k. eitt spurningarmerki við þessa viðleitni Seðlabanka Íslands til þess að lækka gengi krónunnar. Það kostar háar fjárhæðir að eiga svo mikinn gjaldeyrisforði. Árlegur kostnaður er ekki undir 30 milljörðum króna. Það er fé sem betur væri varið til samfélagslegra verkefna fyrir utan að vera hrein öfugmæli að láta almenning kosta aðgerðir til þess að rýra kjör sín eins og lækkun gengis krónunnar gerir alltaf.

Minnugir þess að gengi krónunnar var hátt í aðdraganda fjármálahrunsins haustið 2008 eru margir órólegir yfir háu gengi nú. Það er ólíku saman að jafna. Þá var það ódýrt erlent lánsfé sem streymdi til landsins og innanlands var engin hörgull á aðilum sem tóku féð að láni og borguðu háa vexti. Spilaborgin hrundi þar sem enginn starfsemi innanlands gat borgað þessa vexti. Fjármálastarfsemin í heild sinni var bara óábyrgt fjárhættuspil byggt á skuldasöfnun. Nú er það ekki lánsfé heldur bein viðskipti erlendis frá sem veldur innstreymi gjaldeyris. Þau viðskipti bæta efnahag aðila innanlands. Það er eignamyndun nú. Það mun verða svo þar til verðlagið á þjónustunni hefur hækkað svo í verði að eftirspurn útlendinganna dregst saman. Gengishækkunin verður til þess að lokum að jafnvægi kemst á í efnahagslífinu. Almenningur yrði verr staddur ef gengið hækkaði ekki þar sem þá myndi verðbólgan rjúka upp. Það er hægt að flýta því að ná jafnvægi án verðbólguáhrifa með ríkisfjármálaðgerðum eins og hækkun skatta á umsvifin. Það er ekki aðeins nauðsynlegt heldur einnig skynsamlegt af stjórnvöldum að hækka skattlagningu á ferðaþjónustuna og fá þannig hluta af ágóðanum í ríkissjóð. Það á að varast nú sem fyrr að hlusta á grátkór sérhagsmunanna.

Kristinn H. Gunnarsson

Leiðari í blaðinu Vestfirðir 1. júní 2017

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir