Forsetaframbjóðandi LÍÚ

Pistlar
Share

Komandi forsetakosningar eru einstakar að því leiti að harðsvíraðasti sérhagsmunahópur landsmanna stendur leynt og ljóst þétt að baki framboði ritstjóra Morgunblaðsins.

Morgunblaðið er í eigu auðugustu útgerðarmanna landsins. Þeir keyptu Morgunblaðið árið 2009 og útgerðarmenn eiga 96% alls hlutafjár. Meðal útgerðarfyrirtækja sem eiga Morgunblaðið eru Samherji, Ísfélag Vestmannaeyja, FISK Seafood á Sauðárkróki, Síldarvinnslan, Rammi, Skinney – Þinganes, Hraðfrystihúsið Gunnvör, Lýsi og Vísir. Útgerðarfélögin sem eru í eigendahópi Morgunblaðsins ráða samtals 36,5% alls kvóta á Íslandsmiðum. Samherji er stærsti beini hluthafinn með nærri 20% hlutafjár. Guðbjörg Matthíasdóttir í Vestmannaeyjum er stærsti einstaki hluthafinn í gegnum ýmis félög og ræður hún beint eða óbeint 45% hlutafjár samkvæmt úttekt Inga Freys Vilhjámssonar í Stundinni á síðasta hausti.

Útgerðin borgar tapið

Útgáfufélag Morgunblaðsins var gjaldþrota eftir hrun og var á höndum Íslandsbanka. Af fyrirtækinu voru afskrifaðar 3,5 milljarðar króna samkvæmt úttekt sem birtist í Kjarnanum í september 2015. Þrjú tilboð bárust í blaðið, eitt frá hópi undir forystu Vilhjálms Bjarnasonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins, annað frá áströlskum fjárfesti og það þriðja frá útgerðarmafíunni íslensku. Auðvitað var síðastnefnda hópnum fært blaðið. Það þurfti frekari afskriftir upp á einn milljarða króna tveimur árum seinna. Hafa því verið samtals afskrifaðir 4,5 milljarðar króna af Morgunblaðinu.

Nýju eigendurnir réðu strax fyrrverandi forsætisráðherra og fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins í stól ritstjóra. Þeir hafa greinilega ekki rekið blaðið á arðsemisgrundvelli heldur einblínt á pólitískt og sérhagsmunatengt hlutverk þess og kostað því til sem þarf til þess að ná árangri. Samanlagt tap af rekstri blaðsins frá 2009 – 2014 nemur 1300 milljónum króna samkvæmt því sem fram kemur í Kjarnanum.

Eitt af aðalbaráttumálum blaðsins var að berjast hatrammlega gegn öllum áformum síðustu ríkistjórnar um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.

Ritstjóri blaðsins leiddi þá baráttu fyrir hönd eigendanna, útgerðarfyrirtækjanna og hann er nú forsetaframbjóðandi eigendahópsins. Ritstjórinn sá til þess um 13 ára skeið sem forsætisráðherra að bæla niður allar tilraunir á Alþingi til þess að skera upp kvótakerfið og koma á nauðsynlegum og óhjákvæmilegum breytingum. Nú er hann sendur út af örkinni til þess að tryggja útgerðarauðvaldinu auðsveipan forseta í sína þágu. Morgunblaðinu hefur á ósvífinn hátt verið beitt frambjóðandanum til framdráttar.
Framboðið var undirbúið með því að dreifa Morgunblaðinu ókeypis í hvert hús á höfuðborgsvæðinu með fjögurra síðna lofrullu um ritstjóra blaðsins. Síðan kom framboðstilkynningin í kjölfarið. Blaðinu hefur ítrekað verið dreift ókeypis til þess eins að vekja athygli á forsetaframbjóðandanum.

Morgunblaðið í kosningabaráttu

Þessir atburðir eru algert einsdæmi á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Fjölmiðill er af fullkominni ósvífni misnotaður sem áróðurstæki fyrir forsetaframbjóðanda sem jafnframt er ritstjóri blaðsins. Blaðið hefur jafnframt verið notað til þess að kasta rýrð á þann forsetaframbjóðanda sem mest fylgi hefur. Auðvitað koma engar tekjur inn til þess að standa undir útgjöldunum sem leiðir af því að gefa tugþúsundir eintök af blaðinu í hvert sinn. Kostnaðurinn er að sjálfsögðu sóttur til eigenda blaðsins, útgerðarfyrirtækjanna.

Þeim munar ekki um að bæta við 1300 milljóna króna framlagið á síðustu árum sem reitt var fram til þess að borga tapið. Þótt kostnaðurinn kunni að hlaupa á hundruðum milljóna króna eru það smámunir í samanburði við þá gjöf þeir fá á hverju ári frá stjórnmálaflokkunum við völd. Auðlindaarðurinn af nýtingu fiskimiðanna er um 40 milljarða króna á hverju ári. Af þeim hagnaði má ætla að um 80% renni í vasa útgerðarfyrirtækjanna. Hlutur útgerðarfyrirtækjanna sem eiga Morgunblaðið verður um 10 milljarðar króna á hverju ári í hreinan gróða sé miðað við að þau fyrirtæki ráði 36,5% af heildarkvótanum.

Tíu milljarðar króna gjöf frá ríkinu á hverju ári eru miklir peningar og það er til þess að gera lítil fórn fyrir eigendur blaðsins að kosta til fáeinum hundruðum króna í einar forsetakosningar ef það gæti skilað sér í pólitískum völdum.

Það sem alvarlegast er í tilviki Morgunblaðinu er að fjársterkustu sérhagsmunaaðilar landsins eiga og reka fjölmiðil til þess eins að festa í sessi tangarhald sitt á helstu auðlind þjóðarinnar. Það er vegið að lýðræðinu með framgöngu útgerðarmannanna.

Svo virðist sem betur fer að almenningur sjái í gegnum þetta sjónarspil og muni kjósa óháðan og óspilltan frambjóðanda sem næsta forseta lýðveldisins. Það er fagnaðarefni.

leiðari í blaðinu Vestfirði.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir