gerspillt stjórnsýsla

Pistlar
Share

Í blaðinu Vestfirðir er á bls 2 gerð grein fyrir kæru útgerðar á Bíldudal á úthlutun
alls byggðakvóta staðarsins, alls 267 þorskígildistonn, til eins báts. Atvinnuvega-
og nýsköpunarráðuneytið hefur loksins eftir langa mæðu
úrskurðað í málinu. Er það niðurstaða ráðuneytisins að þær sérreglur sem
bæjarstjórn Vesturbyggðar ákvað og ráða því hverjir geta fengið byggðakvóta
séu “byggðar á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við
hagsmuni viðkomandi byggðarlags” eins og segir í úrskurðinum.

Öfugmæli

Þesi rökstuðningur eru einhver þau mestu öfugmæli sem um getur. Þvert
á móti eru reglurnar hvorki málefnalegar né byggðar á staðbundnum aðstæðum
og lýsa gerspilltri stjórnsýslu bæði heima í héraði og í ráðuneytinu.
Úthlutun ókeypis verðmæta eins og byggðakvóti er , til fyrirframvalins aðila
er ekkert annað en spilling. Það er afneitun á háu stigi hjá ráðuneytinu að
halda að almenningur sjái ekki í gegnum leikfléttuna. Þarna er náin samvinna
forystumanna í Sjálfstæðismanna heima í héraði og Framsóknarmanna í
ráðherrastól um enn einn gjafakvótann.

Borið er því við í málinu af hálfu bæjarstjórans í Vesturbyggð að útgerðin
sem byggðakvótann fær ætli að koma á fót fiskvinnslu á Bíldudal og að það
séu hagsmunir byggðarlagsins að svo verði. Undir það er tekið að það geti
vissulega verið lögmætir og málefnalegir hagsmunir.

Vandinn við þessa málsvörn er hins vegar sá að bæjarstjórnin setti ekki þessi skilyrði heldur
einungis að byggðakvótanum yrði landað til vinnslu innan sveitarfélagsins
Vesturbyggð, ekki sérstaklega á Bíldudal. Þar með koma allir umsækjendur
um byggðakvóta til greina sem uppfylla þetta skilyrði , líka þeir sem höfðu
gert samningu við fiskvinnslu á Patreksfirði. Það gengur ekki að afgreiða
erindi eftir öðrum reglum en settar hafa verið og útiloka suma þá sem
uppfylla skilyrðið. Það er einfaldlega ómálefnaleg stjórnsýsla. Hafi það
verið úrslitaatriði af hálfu bæjarstjórnar að koma á fót fiskvinnslu á Bíldudal
átti að láta það koma fram við auglýsingu eftir umsóknum og gefa þannig
væntanlegum umsækjendum kost á því að koma með sínar hugmyndir og
útfærslu um það atriði.

Það er í meira lagi ámælisvert að láta ekki þetta ekki koma fram fyrirfram
og bera því svo við og nota sem átillu til þess að dæma ákveðnar umsóknar
úr leik.

Skilyrðin ákveðin eftir á og sniðin fyrir einn aðila

Hitt er öllu alvarlegra að bæjarstjórnin Vesturbyggðar skuli komast upp
með það að fresta því að setja sérreglurnar um Bíldudal fram í desember og
afgreiða þær löngu seinna en reglurnar um byggðakvótann fyrir Patreksfjörð
og Brjánslæk. Þá eru skilyrðin ákveðin þannig að aðeins einn bátur uppfyllir
þær, Jón Hákon BA 61. Með þessu er brotið gegn grundvallareglunni
um úthlutun byggðakvóta.

Lögum samkvæmt á að setja almennar reglur tímanlega fyrirfram og gefa síðan aðilum kost á að sækja um. Þann 10. nóvember 2015 samþykkir bæjarráð Vesturbyggðar reglurnar um
byggðakvóta fyrir Patreksfjörð og Brjánslæk en frestar til 8. desember því að
ákveða reglurnar fyrir Bíldudal. Trúir því einhver virkilega að það hafi verið
tilviljun að Jón Hákon BA 61 skuli hafa farið á veiðar á sjóstöng fyrir utan
höfnuna á Akranesi þann 30. nóvember og síðan hafi bæjarstjórnin ákveðið
rúmlega viku seinna að setja það skilyrði að enginn fengi byggðakvóta nema
sá sem hefði veitt í nóvember?

Halda hinir spilltu stjórnmálamenn að almenningur trúi þessu leikriti eins
og nýju neti? Ef það var svo mikilvægt að veiða nokkra fiska á sjóstöng hefði
verið eðlilegt að láta vita af því fyrirfram svo væntanlegir umsækjendur gætu
brugðist við kröfum bæjarstjórnar og auðvitað hefði þá verið sjálfgefið sem
skilyrði að landað væri á Bíldudal, nema hvað? Akranes? Hvernig styrkir
það byggð á Bíldudal?

Það er dapurlegt í meira lagi að Atvinnumálaráðherrarnir Sigurður Ingi
Jóhannsson og nú Gunnar Bragi Sveinsson skuli láta embættismenn ráðuneytisins
bera í bætifláka fyrir gjafakvótagerðina. Þegar svona er staðið að
málum og ákveðnar reglur eftir á sem sniðnar eru utan um einn aðila er
það hvorki málefnalegt né eðlilegt. Yfir þessa stjórnsýslu ráðuneytisins og
sveitarfélagsins er að eins eitt orð: spilling.

Þetta eru stjórnmál gærdagsins og klækjabrögð sem almenningur hefur
andstyggð á. Þetta veikir Vestfirði. Því fyrr sem spillingunni er vísað á dyr
þeim mun betra.

leiðari í blaðinu Vestfirðir

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir