Valkvæð afstaða gagnvart staðreyndum

Pistlar
Share

Í Kjarnanum birtist 6. júlí síðastliðinn leiðari Þórðar Snæs Júlíussonar um eftirmála Brexit kosningarinnar í Bretlandi. Þar hefur verið rætt um hvort eigi að virða úrslit kosningarinnar eða efna til nýrrar. Þórður nefnir í leiðaranum undir millifyrirsögninni

– Flugvöllurinn sem kosinn var burt –

að á Íslandi sé dæmi þess að stjórnmálamenn efni til kosningar um málefni en fari svo ekki eftir niðurstöðunni. Þar á hann við almenna kosningu sem borgarstjórn Reykjavíkur árið 2001 um framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni.

Orðrétt stendur í leiðaranum:
„Alls vildu 50,6 prósent þeirra sem tóku afstöðu að hann myndi fara en 49.4 prósent að hann yrði áfram. Kjörsókn var 37,1 prósent og niðurstaða ráðgefandi atkvæðagreiðslunnar því ekki bindandi, en borgarstjórn hafði sett skilyrði um þátttöku að minnsta kosti helmings kosningabærra manna til að svo yrði. Það breytir því þó ekki að fyrir að skoðun þeirra sem tóku málið það alvarlega að þeir mættu á kjörstað var komið á framfæri. Lýðræðisleg niðurstaða lá fyrir. „ Það sem Þórður gerir athugasemd við er að flugvellinum hefur ekki verið lokað.

Við þetta verður að gera alvarlegar athugasemdir. Hin lýðræðislega niðurstaða sem liggur fyrir en er öndverð við það sem Þórður Snær Júlíusson heldur fram. Vilji Reykvíkinga var þá og er enn sá að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni.

Ákveðið var að kosning borgarbúa yrði bindandi ef þátttakan næði því að vera a.m.k. 75% atkvæðisbærra Reykvíkinga eða a.m.k. 50% atkvæðisbærra greiddi öðrum hvorum kostinum atkvæði sitt. Spurt var hvort flugvöllurinn ætti að vera áfram í Vatnsmýrinni eftir 2016 eða að fara.
Hvorugt skilyrðið var uppfyllt þar sem þátttakan var aðeins 37%. Því varð niðurstaðan ekki bindandi. Af þeim sökum var flugvöllurinn ekki kosinn burt. Aðeins 18,8% kjósenda studdu að flugvöllurinn færi. Þeir hefðu þurft að vera nærri þrefalt fleiri eða 50%.

Í kosningunum urðu þeir sem vildu breytingar á óbreyttu ástandi að mæta og kjósa í samræmi við það. Þeir sem vildu flugvöllinn áfram á sama stað gátu komið og kosið, en þeir gátu líka látið hug sinn í ljós með fjarveru sinni. Fjarveran stuðlaði að því að málið félli vegna ónógrar þátttöku. Bent var á þetta í aðdraganda kosningarinnar og borgarbúar hvattir til þess að sniðganga kosninguna. Margir þeirra gerðu það.

Það þarf ekki að velkjast í vafa um vilja borgarbúa. Það hafa verið gerðar allmargar skoðanakannanir síðan og þær sýna yfirgnæfandi stuðning við flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni.
Sem dæmi má nefna:

• Könnun Fréttablaðsins 2008 sem sýndi 60% stðning við framtíð innanlandsflugs í Vatnsmýrinni.
• Könnun Stöðvar2 og Fréttablaðsins frá 2011. Þar studdu 82% Reykvíkinga flugvöllinn í Vatnsmýrinni.
• Könnun Stöðvar2 og Fréttablaðsins frá 2012 með sömu niðurstöðu og árið áður.
• Könnun Gallup frá 2013 þar sem 73% Reykvíkinga styðja flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni.
• Könnun MMR frá 2014 sýndi stuðning 71% stuðning Reykvíkinga við flugvöllinn.

Til viðbótar skal nefnd undirskriftarsöfnun Hjartans í Vatnsmýrinni. Þar skrifuðu 69.816 undir texta þar sem lagst var gegn áformum um að flugvallarstarfsemi víki úr Vatnsmýrinni og skoruðu á Reykjavíkurborg og Alþingi að tryggja óskerta flugstarfsemi í Vatnsmýrinni til framtíðar. Þetta er næstfjölmennasta undirskriftasöfnunin til þessa.

Af öllu þessu samanlögðu er algerlega ótvírætt hver vilji Reykvíkinga er í málinu , að ekki sé talað um vilja landsmanna allra. Þeir vilja að flugvöllurinn verði áfram þar sem hann er.
Framhjá þessu lítur ritstjóri Kjarnans og sýnir vítaverða tilburði til þess að draga upp aðra mynd er sönn er.

Það hefði hins vegar verið fullt tilefni til þess af hálfu ritstjórans Þórðar Snæs Júlíussonar, fyrst hann er að gera úttekt á vanefndum stjórnmálamanna og vilja þeirra til þess að sniðganga skýran almannavilja, að gera grein fyrir undanbrögðum borgarfulltrúa og klækjastjórnmálum í þessu umdeilda máli. Af nógu er að taka fyrir gagnrýninn ritstjóra sem ber almannahag fyrir brjósti.

Það mætti til dæmis nefna að 2008 felldu borgarstjórn Reykjavíkur tillögu um að efna til nýrrar atkvæðagreiðslu um framtíð flugvallarins. Það hefði ekki verið ónýtt að fá vilja borgarbúa fram. Þá hefði ekki þurft að draga í efa hver hugur þeirra er. Þetta geta borgaryfirvöld auðvitað getað gert hvenær sem er – en gera ekki. Af því þau vita að vilji borgarbúa er annar en vilji borgarfulltrúanna. Þá er ekkert gert með almannavilja, það er hin bitra niðurstaða sem fyrir liggur í málinu.

pistillinn birtist fyrst á Kjarnanum.

“ onclick=“return fbs_click()“ target=“_blank“ class=“fb_share_link“>Deila á Facebook

Athugasemdir