Út úr fjötrum fortíðar

Pistlar
Share

Framundan er sjómannadagurinn og tilheyrandi hátíðahöld. Mikilvægi atvinnugreinarinnar fyrir íslenska þjóð verður seint ofmetið. Sjómenn og útgerðarmenn hafa lagt mikið af mörkum, líklega meira en flestir aðrir, til þess að færa þjóðfélagið á tiltölulega skömmum tíma úr hópi fátækustu þjóða í Evrópu yfir í hóp mestu velferðarríkja heimsins. Það er einstakt afrek sem ekki hefði verið unnið án dugnaðar, þrautsegju og framfarasinnaðra sjómanna. Það er einn af helstu kostum þjóðarinnar hversu opin og móttækileg hún er fyrir nýjungum og breytingum. Sjómönnum eru sendar góðar kveðjur í tilefni dagsins og óskum um gott árferði til sjávarins og slysalausa sjósókn á komandi ári.

Það ber að hafa í huga að auðlindir sjávarins eru sérstaklega auðugar við Ísland. Aðstæður til þess að stunda ábatasama útgerð eru óvíða betri þótt leitað sé um allan heim. Margir verðmætir fiskistofnar eru auðveldlega aðgengilegir og með skynsamlegri takmörkun á veiðum hverju sinni verða þeir að stöðugt endurnýjanlegri uppsprettu tekna og hagnaðar; því meir sem árin líða og verðmæti fiskafurðanna hækkar á erlendum mörkuðum í takt við vaxandi kaupmátt í viðskiptalöndunum.

verðmætið er í mörkuðunum

Íslendingar mega ekki loka augunum fyrir því að friðsamleg sambúð þjóða á markaðssvæðum okkar er forsenda þess að lífskjör hér á landi batni. Stríðsátök loka mörkuðum og kollvarpa kaupgetu viðskiptavina okkar svo sem átökin í Úkraínu hafa minnt okkur á. Þessi staðreynd á ekki síður við um aðrar þýðingarmiklar atvinnugreinar eins og þjónustu við erlenda ferðamenn. Samtök þjóða sem stuðla að friðsamlegum lausnum og bæta efnahag landanna eru Íslendingum í hag. Fáar þjóðir eru háðari alþjóðlegum viðskiptum en einmitt Íslendingar. Fáar þjóðir fá jafnstóran hlut af lífskjörum sínum út úr arðvænlegum viðskiptum við erlenda markaði. Langstærsti hluti sjávarafurða fer til sölu í Evrópu. Fáar þjóðir eiga meira undir því að hafa tryggan og hindrunarlausan aðgang að mörkuðum og að leikreglurnar sem gilda um viðskiptin séu samræmdar og sanngjarnar. Einangrun er ávísun á lakari lífskjör.

gróðafíknin

Leikreglurnar í íslenskum sjávarútveg hafa á síðusta aldarfjórðungi þróast á þann hátt að það minnir helst á fornt þjóðskipulag með húsbændum og vinnuhjúum. Kvótakerfið er orðið að fjötrum sem hlunnfara og stundum kúga sjómenn undir húsbóndavald útgerðarinnar. Með kvótakerfinu varð veiðirétturinn að forsendum útgerðar. Hann er eingöngu í höndum tiltölulega fárra útgerðarmanna eftir að hagræðingin sem fylgir framsalinu hefur orðið. Veiðirétturinn er orðinn að ótímabundnum einkarétti í höndum fárra sem bera engar skyldur við neinn nema sjálfan sig. Það er sérstakt rannsóknarefni hvernig það gat orðið að hömlulaus og takmarkalaus eiginhagsmunagæsla og á köflum gróðafíkn var talið vera besti þjóðarhagur og var í framhaldinu siðferðilega samþykkt.

Þúsundir og aftur þúsundir fjölskyldna hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna hagræðingarinnar í sjávarútvegi og útstreymis kvótagróðans í hendur hinna útvöldu. Hvers vegna hafa stjórnvöld ekki verið knúin til þess að dreifa hagnaðinum og bæta þeim sem hafa skaðast? Sá sem skemmir bíl náungans verður að bæta honum tjónið. En sá sem hirðir af honum vinnuna, atvinnutækifærin og verðfellir fasteignina ber engar skyldur til bóta. Á hvaða siðferðilegum grunni hvílir þessi hugmyndafræði einkavæðingar fiskimiðanna?

þrælaákvæði

Í þessum aðstæðum eru sjómenn bjargarlausir sem blaktandi strá. Laun þeirra ákvarðast af fiskverðinu. Í langflestum tilvikum semur útgerðarmaðurinn við sjálfan sig um verðið. Það er talið lækka fiskverðið um 15 – 25%. Lágt verð þýðir lægri laun sjómanna og hærri gróða eigandans. Frá aflaverðmætinu er dregið nærri þriðjungur og af því fá sjómenn ekkert. Steininn tekur úr með ákvæðinu sem lækkar hlut sjómanna um allt að 10% og færir ránsfenginn útgerðarmönnum til þess að greiða nýsmíði á skipum án þess að sjómenn eignist neitt á móti. Í hvaða öðrum atvinnugreinum fyrirfinnst sambærilegt þrælaákvæði?

Þessar aðstæður um kaup og kjör sjómanna endurspegla fjötra fornaldar. Í markaðsþjóðfélagi samtímans er sjávarútvegurinn undanþeginn ákvæðum samkeppnislaga og starfsemin einkennist af markaðsyfirráðum, markaðsmisnotkun og einokun. Það þykir sérstök fyrirmynd að fyrirtæki sé í veiðum, vinnslu, dreifingu og sölu og ráði öllum þáttum ferilsins. Það sem viðgengst í sjávarútvegi er lögbrot í öðrum atvinnugreinum. Það sem er skaðlegt einni atvinnugrein er líka skaðlegt í sjávarútvegi. Fornöldin í skipulaginu um sjávarútveginum er sjómönnum skaðleg og hún er þjóðinni skaðleg. Það er þjóðarnauðsyn að slíta fjötra fornaldar af sjávarútveginum.

Leiðari í blaðinu Vestfirðir 2. júní 2016

“ onclick=“return fbs_click()“ target=“_blank“ class=“fb_share_link“>Deila á Facebook

Athugasemdir