Brestir í samkenndinni

Pistlar
Share

Það mátti glöggt heyra í ræðum forystumanna verkalýðshreyfingarinnar á baráttudegi verkalýðsins 1. maí að það eru komnir alvarlegir brestir samfélagsgerðina. Í ræðu Finnboga Sveinbjörnssonar, formanns Verkalýðsfélags Vestfirðinga kom þetta skýrt fram. Hann hafði miklar áhyggjur af ýmsum mikilvægum réttindum. Benti Finnbogi á gróf félagsleg undirboð á vinnumarkaði sem upplýst hafa verið. Bæði gætir sterkrar viðleitni til þess að lækka launin með öllum ráðum og ekki síður að hafa af launþegum umsamdan og lögbundinn veikinda- og bótarétt. Þá vakti formaður verkalýðsfélagsins athygli á stöðu velferðar- og menntakerfisins og að full ástæða væri til þess að hafa alvarlegar áhyggjur af þróun mála.

Við skulum ekki gleyma framkomu í garð erlendra verkamanna. Það eru íslenskir atvinnurekendur sem hafa leyft sér að misnota sér umkomuleysi þess fólks og neyð í heimalandi sínu. Hvers konar framkoma er það í garð pólsks verkafólks á Vestfjörðum að láta það viðgangast að það sé féflett af óvönduðum einstaklingum og gert að greiða sjálfskipuðum umboðsmanni 1000 evrur fyrir það að fá vinnu? Það breytir engu þótt lögreglan húki sér til álitshnekkis yfir kærum árum saman og láti þær svo falla út af borðbrúninni. Skömm þeirra sem eiga og reka þessi fyrirtæki er ævarandi. Það heitir að bera í bakkafullan lækinn að fyrst þrýsta laununum niður undir öll möguleg lágmörk kjarasamninga og síðan í kjölfarið að afhenda föntum nokkurs konar húsbóndavald yfir fólki og þola þeim að féfletta það. Pólskt verkafólk er fyrst og fremst verkafólk. Það er fyrst og fremst fólk rétt eins og Íslendingar. Það leggur sitt af mörkum til samfélagsins og á sama rétt til virðingar og aðrir þegnar landsins.

En þeir sem sitja í leðurklæddum hægindum sínum á 19. hæð í helsta gróðaturni kapitalistanna láta sér fátt um finnast. Þeir hafa tileinkað sér stjórnun með hótunum og gert undirmönnum sínum ljóst að það hefur afleiðingar að sitja ekki og standa eins og til er ætlast. Jafnvel færslur á facebook eru undir eftirliti valdsins.

Það er einmitt þessi fyrring silfurskeiðarþjóðarinnar, eins Finnbogi Sveinbjörnsson kallar hana, sem hefur framkallað brestina í samkenndina í þjóðfélaginu. Ísland er ekki lengur hið samfélagslega meðvitaða samfélag sem það löngum hefur verið þar sem enginn steig út fyrir þjóðfélagið og leit á sig sem yfir það hafinn og án ábyrgðar. Þannig var það og þessi sterka samkennd hefur kynslóðum saman verið helsti styrkleiki þjóðarinnar.

Fyrir þremur áratugum fór að ryðja sér rúms stjórnmálastefnu sem kölluð er nýfrjálshyggja. Margrét Thatcher er helsti holdgervingur hennar á heimsvísu. Henni eru eignuð þau ummæli að það væri ekkert til sem hétu samfélag, aðeins einstaklingar. Það má rekja til hugarfarsins sem ummælin lýsa þverbrestina sem eru að verða æ sýnilegri í íslensku þjóðfélagi.

Silfurskeiðarþjóðin er einmitt trú þeirri hugsun. Hún er bara einstaklingar sem bera bara eigin hag fyrir brjósti og bera enga ábyrgð á samfélaginu. Þetta er fólkið sem flytur peningana sína í skattaskjól. Þetta er fólkið sem hrifsar til sín bestu bitana og arðvænlegustu tækifærin. Þetta er fólkið sem lætur færa sér helstu auðlind þjóðarinnar á silfurfati á hverju ári fyrir smánarverð. Það greiðir aðeins 14 kr fyrir hver kg af þorskveiðiheimild og þykir of mikið en leigir hana fyrir 223 kr. Mismunurinn er ágóði upp á tæpa 40 milljarða króna. Þessir peningar fara ekki í heilbrigðiskerfið og hjúkrunarheimilin.

Birtir hafa verið útreikningar sem sýna að það vantar að minnsta kosti 9 milljarða króna á hverju ári til þess að hjúkrunarheimilin geti veitt þá þjónustu sem ríkið krefur um. Silfurskeiðungarnir sem eru við völd vilja ekki sækja þessa peninga. Þess vegna fær gamla fólkið skerta þjónustu.
Krabbameinsveik kona lýsti því nýlega að mikið hafi breyst á hálfum öðrum áratug. Fyrst þegar hún veiktist og þá þurfti hún að borga lítið meira en komugjöld. Svo veiktist hún aftur tveimur árum síðar og þá þurfti hún að greiða 200 þúsund krónur. Enn veiktist hún 2014 og síðan hefur hún þurft að greiða hálfa aðra milljón kr. Kostnaðarvitund konunnar er örugglega alveg í lagi , en það hefur engu breytt um veikindin. Hún er enn veik. Þessi kona er enn hluti af okkar samfélagi, því má aldrei gleyma.

En 19. hæðar þjóðin í Tortólaskjólinu er ekki með enda telur hún að það sé ekkert til sem heitir samfélag, bara einstaklingar. Þessir brestir í íslensku samfélagi eru ekki traustabrestir, þeir eru siðrof. Verkalýðshreyfingin þarf afl og stuðning til þess að yfirbuga hina afsiðandi og eyðandi hugmyndafræði íslenskra aðdáenda Thatchers. Viljinn er allt sem til þarf.

leiðari í blaðinu Vestfirðir 4. maí 2016

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir