Þjóðin sýndi ríkisstjórninni rauða spjaldið

Pistlar
Share

Frá því að blaðið Vestfirðir komu síðast út hafa orðið straumhvörf í íslenskum stjórnmálum. Sjálfur forsætisráðherra landsins neyddist til þess að segja af sér embætti og hvarf tímabundið úr landi. Ríkisstjórnin hélt naumlega velli eftir endurskipulagningu – um tíma.

Eftir þáttinn um Pamamaskjölin og aflandseyjaviðskiptin hjá Wintris braust út þegar í stað gífurleg reiði í þjóðfélaginu og 25 þúsund manns mættu daginn eftir á mótmælafund á Austurvelli. Reiðin beindist auðvitað mest að forsætisráðherranum Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, en einnig að tveimur öðrum ráðherrum Bjarna Benediktssyni og Ólöfu Nordal.

Að kvöldi mánudagsins 5. apríl sýndi könnun Gallup að 81% landsmanna vildi að Sigmundur Davíð segði af sér. Daginn eftir sýndi önnur könnun á vegum Stöðvar 2 og Fréttablaðsins að 69% aðspurðra vildu að Bjarni Benediktsson segði af sér og 63% vildu að Ólöf Nordal færi sömu leið. Svörin í könnunum eru afgerandi og vilji þjóðarinnar er ótvíræður. Það er ekkert um að villast hvert álit almennings er.

Valdamönnum hafnað

Það er sérstaklega athyglisvert að um er að ræða formann Framsóknarflokksins og formann og varaformann Sjálfstæðisflokksins. Sú staðreynd að um er að ræða valdamestu stjórnmálamenn landsins virðist ekki verða til þess að kjósendur verji gerðir þeirra. Þvert á móti þá má ætla að skilaboðin frá kjósendum séu þau að valdamenn eigi ekki að skapa sér sérleiðir og önnur kjör en almenningi er gert að sætta sig við.

Öll þrjú höfðu leynt upplýsingum um aflandseignir sínar. Það er líklega skýringin á því að öll þrjú fá sömu skilaboðin um afsögn. Sigmundur Davíð fær hörðustu viðbrögðin enda voru hagsmunaárekstrar hans augljósir sem kröfuhafi í þrotabú föllnu bankanna. Fólki var eðlilega brugðið þegar í ljós kom að forætisráðherrann sat báðum megin borðsins. Trúverðugleiki hans var þar með fokinn út í veður og vind. Reynslan sýnir að varasamt er að treysta þeim til þess að setja almenna hagsmuni ofar eigin. Við það bættist að forsætisráðherrann sagði ósatt um Wintris fyrirtækið og hann leyndi upplýsingunum um árabil.

Það skiptir miklu máli í þessu samhengi að upplýsingunum var leynt í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Þar með fannst mörgum kjósendum að þeir hefðu verið blekktir til stuðnings við Framsóknarflokkinn. Steininn tók svo úr að Sigmundur Davíð neitaði að svara spurningum og framvísa óyggjandi gögnum um skattskil sín.

Þó svo þetta sem upp hefur verið talið væri eitt og sér alveg nóg til þess að forsætisráðherrann tæki pokann sinn þá bættist við hroki og yfirgangur hans gagnvart forseta Íslands, samstarfsflokknum og eigin þingflokki, sem best kom fram í frægri sneypuför til Bessastaða. Eftir það varð forsætisráðherrann fyrrverandi eins og baneitrað peð sem báðir stjórnarflokkarnir flýttu sér sem mest þeir máttu að fórna til þess að friðþægja almenningi í uppreisnarhug.

Í biðsal höfnunar

Eftir afsögn Sigmundar Davíðs ,smáhrókeringum innan ráðherraliðsins og loforði um kosningar í haust hefur dregið úr þunga mótmælanna við Austurvöll. Því er freistandi að álykta sem svo að andstaðan við ríkisstjórnina sé í rénum og að aðalatriðið hafi verið persóna formanns Framsóknarflokksins. Þótt það sé vissulega rétt að hann hafi persónulega verið mikill pólitískur vandi þá fer því samt fjarri að reiðin og gagnrýnin hverfi við brotthvarf Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Öðru nær, rót óánægjunnar liggur í atriðum sem enn eru til staðar og krafan um breytingar er jafnþung og áður.

Hins vegar er ekki skynsamlegt að efna til kosninga í skyndingu. Það var gert 2009 með slæmum árangri. Tíminn var þá of naumur fyrir þá flokka sem fyrirsjáanlegt var að myndu bæta við sig fylgi. Afleiðingin var að samsetning þingmannahópsins , sérstaklega innan Vinstri grænna varð þannig að saman voru komnir einstaklingar með ólíkar hugmyndir í grunnatriðum. Fyrir vikið varð ríkisstjórnin sem mynduð var lömuð í mörgum stórum málum og sundurlyndið setti mark sitt á stjórnarsamstarfið. Þá eru forsetakosningar í vor og alþingiskosningar geta ekki verið á sama tíma. Ríkisstjórnarflokkarnir núverandi voru bara settir í biðsal um stund og fá svo vöndinn í haust.

leiðari í blaðinu Vestfirðir.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir