Siðaskipti framundan

Pistlar
Share

Panamaskjölin hafa hrundið af stað óvæntri atburðarrás á Íslandi.
Almenningur hefur sett fram kröfu um siðaskipti í íslenskum stjórnmálum.
Eftir fjölmennasta mótmælafund sögunnar á mánudaginn
blandast engum hugur um að stjórnmálaflokkarnir eiga enga undankomuleið
frá því verkefni að endurbæta stjórnmálinætli þeir sér að eiga einhvert traust
kjósenda.

Það er athyglisvert að það eru ekki upplýsingar um bein lögbrot ráðamanna
sem kveikja eldana heldur snýst reiðin meira að sérhygli og sérmeðferð
auðmanna og valdamanna. Krafan er að þessir þjóðfélagshópar deili kjörum
með almenningi, taki þátt í samfélaginu og leggi sinn skerf af mörkum til
þess að standa undir velferðarkerfinu. Það er óásættanlegt að auðugt fólk fái
lækkun á sköttum og skyldum en sjúklingar og aldraðir búi við skerðingu á
sínum kjörum vegna þess.

Það er óásættanlegt að sumir geti geymt fé sitt í öðru efnahagskerfi og annarri
mynt en almenningi er gert að búa við, sérstaklega meðan gjaldeyrishöftin
binda landsmenn við íslensku krónuna og háu vextina sem einkenna íslenskt
þjóðfélag. Þeir sem nýta sér fjárhagsleg hagkvæm lagaleg úrræði fengin fram
vegna áhrifa og tengsla við stjórnmálaflokkana hafa gengið algerlega fram
af almenningi.

Gamla hugarfarið

Reiðin er svo mikil að engu máli skiptir sú málsvörn valdaflokkanna að margt
gangi vel í þjóðfélaginu, kaupmáttur fari vaxandi, samningar komnir við kröfuhafa
í íslensku gjaldþrotabankabúin og fyrirsjáanlegt er að gjaldeyrishöftum
verði aflétt. Ríkisstjórnin hefur svo merkilegt sem það er af mörgu að státa
sem til framfara horfir. En eitt verður henni að falli. Það er gamla hugarfarið.

Það er það sem þjóðin hefur áttað sig á nú eftir Wintrismálið, aflandsfyrirtækjaflækjur
forystu Sjálfstæðisflokksins, Kastljósþáttinn á sunnudaginn og
hrokafulla framgöngu oddvita yfirstéttarinnar, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar
formanns Framsóknarflokksins og forsætisráðherra. Öll þessi atburðarrás hefur dregið fram í dagsljósið úr skúmaskotum karabíska eyjahafsins að gamla spillta hugarfarið frá 2007 sem fór með þjóðina fram af bjargbrúninni er þarna ennþá.

Stjórnarflokkarnir frá 1995-2007 um 12 ára skeið , Sjálfstæðisflokkur og
Framsóknarflokkur, fóstruðu með margvíslegum pólitískum áherslum um
þjóðfélagsbreytingar í anda nýfrjálshyggjunnar hugarfar sérhyggjunnar,
einkum innan fjármálakerfisins og sjávarútvegsins. Þetta er alþjóðleg þróun
sem verið hefur í gangi meira og minna um 30 ára skeið. Enda má sjá að
hneykslismálin vegna Panama skjalanna teygja sig um allan heim, frá Íslandi
til Úkraníu og frá Rússlandi til Bretlands.

Sjúkdómseinkenni þessa hugarfars er skefjalaus egóismi. Hann birtist í því
að sem minnstar hömlur eigi að leggja á gróðafíkn manna og að það sé
þjóðfélaginu fyrir bestu að fáir verði ríkir og valdamiklir. Auði og völdum
fylgir spilling og kúgun. Það höfum við mátt sjá á Íslandi. Það höfum við líka
fengið að sjá á Vestfjörðum.

Blekking aldarinnar

Íslenskur almenningur hélt að stjórnarflokkarnir gömlu hefði séð að sér
eftir eitt kjörtímabili í stjórnarandstöðu eftir hrun og treystu þeim fyrir
stjórnartaumunum á nýjan leik. Fólkið hélt að egóisminn hefði þokað fyrir
samfélagslegri ábyrgð. Það hélt að forystumenn þessara flokka hefðu lært af
hruninu og endurbætt sín siðferðilegu viðmið. Fólkið hélt að þessi hópur
þjóðfélagins væri búinn að læra af hruninu og hefði úthýst spillingunni sem
var orsökin af þessum óförum.

En svo kemur Wintris og almenningur sér inn í hugarheim yfirstéttarinnar
og sér að ekkert hefur breyst. Það er enn sami egósminn. Yfirstéttin telur
enn að eðlilegt og sjálfsagt sé að hún búi í öðrum heimi en almenningur.
Henni finnst enn eðlilegt að koma sér undan því að leggja til samfélagsins.
Henni finnst enn eðlilegt að geyma eignir sínar erlendis í leyniskjólum. Að
vísu hefur það þó breyst að hin spillta yfirstétt veit að almenningi líkar þetta
ekki og fer þess vegna með löndum í skjóli nætur.

Það hefur líka breyst að yfirstéttin veit að almenningur mun ekki eftir búsáhaldabyltinguna
taka því þegjandi að hugarfarið er enn það sama. Þess
vegna var mikilvægt að leyna því að hugarfarsbreytingin var gabb aldarinnar.

En Wintris opinberaði sannleikann. Og vonbrigði almennings eru sár og
enn sárari af því að hann var blekktur. Þess vegna falla hrokagikkir valds og
spillingar hver af öðrum með forsætisráðherrann fremstan í flokki. Það var
kominn tími til að siðaskiptin í íslenskum stjórnmálum hæfust fyrir alvöru.

Kristinn H. Gunnarsson

leiðari í blaðinu Vestfirðir 5.apríl 2016

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir