Allir útreikningar Vilhjálms hraktir

Pistlar
Share

Formaður Verkalýðsfélags Akraness, Vilhjálmur Birgisson, hefur haldið því fram að óverðtryggð lán séu mun hagstæðari en verðtryggð og að munurinn sé svo mikill að jafnvel Mafía á Sikiley myndi ekki bjóða viðskiptavinum sínum verðtryggð lánakjör. Fékk hann Ólaf Arnarson, hagfræðing sér til liðs. Nú er búið að fara yfir útreikninga Ólafs og inna hann eftir skýringum á þeim. Niðurstaðan er að þær tölur sem ég birti eru réttar en Vilhjálmur fer með fleipur. Ólafur þarf eitthvað að endurskoða sitt framlag.

Tekið var dæmi af 22 mkr láni til 40 ára annars vegar með óverðtryggt með 6.75% vöxtum og hins vegar verðtryggt með 3.75% vöxtum. Gert var ráð fyrir að verðbólgan yrði 5.81% á ári allan lánstímann. Vilhjálmur heldur því fram að munurinn á heildarkostnaði við sé 88 mkr. Ég benti á að það þyrfti að færa þessar greiðslur til sama verðlags og svo að núvirða þær til þess að fá raunhæfan samanburð á milli þessara kosta. Þá fengist að munurinn væri 5.4 mkr.

Þessu mótmælti Vilhjálmur og fékk Ólaf Arnarson sér til halds og trausts. Í grein á pressan.is viðurkennir Ólafur að núvirða þurfi lánin svo unnt sé að bera þau saman. Niðurstaða útreikninga Ólafs var að munurinn væri 71 mkr lægri en Vilhjálmur hélt fram eða 16.6 mkr. Hefur Ólafur Arnarson þar með staðfest í meginatriðum gagnrýni mína. Það er athyglisvert að maðurinn sem Vilhjálmur kallar til sér aðstoðar skuli lækka fjárhæð Vilhjálms um 80%. En engu að síður munar 11 mkr á mínum tölum og Ólafs.

Af þessum sökum leitaði ég til tveggja manna, þaulvanra í núvirðingu talnaruna, annar hagfræðingur og hinn verkfræðingur. Þeir núvirtu hvor í sínu lagi dæmi Vilhjáms Birgissonar og fengu sömu tölur og ég birti í grein minni. Þá fengu þeir báðir útreikninga Ólafs Arnarsonar til skoðunar. Allir gerðum við sömu athugasemd við þá. Til þess að núvirða þarf fyrst að færa tölurnar yfir á sama verðlags og svo að núvirða miðað við sömu ávöxtunarkröfu, en Ólafi skrikar fótur, gerir alvarlega villur og framkvæmir ekki útreikningana til fulls.

Væri það rétt sem Vilhjálmur Birgisson heldur fram að hægt sé að fá óverðtryggt 22 mkr lán sem núvirt miðað við 3.75% ávöxtunarkröfu skilar bankanum aðeins 16.6. mkr myndi að sjálfsögðu sérhver skuldari taka það og nota til þess að greiða niður verðtryggt lán í sama banka eða lána þriðja aðila sem verðtryggt með 3.75% vöxtum og græða 5.4 mkr á lántökunni. Bankinn myndi tapa að sama skapi. Lánastofnun sem svona starfaði myndi fljótlega verða lokað. Óverðtryggðu lánakjörin hans Vilhjálms eru skáldskapur einn, sem hann notar til þess að hallmæla verðtryggingunni sem lánaformi, enda hefur hann ekki orðið við áskorun minni um að fá staðfestingu frá Landsbankanum um að óverðtryggt lán með þessum kjörum sé í boði.

Vilhjálmur og Ólafur bregðast illa við ábendingum mínum um rangfærslur Vilhjálms og fara í manninn, eins og stundum er sagt í stað þess að halda sig við málefnið. Báðir vega þeir að mér persónulega. Ólafur bregður mér tvívegis um vanhæfni og vankunnáttu og segir að „hann virðist ekki ráð við einfalda núvirðingu fjárstreymis” og ennfremur “hann hefur einfaldlega rangt fyrir sér hvort sem það stafar af vankunnáttu eða einhverju öðru“. Ólafur segir hins vegar ekkert um kunnáttu Vilhjálms, sem hann er þó búinn að leiðrétta um 80%.

Vilhjálmur er enn fátæklegri í málsvörn sinni.Hann bendir aðeins á reiknvél Landsbankans. Hins vegar sakar hann mig um útúrsnúninga, rakalaust bull, að það standi ekki steinn yfir steini í athugasemdum mínum og að ég sé ekki svaraverður. Loks þetta: „En á einhvern óskiljanlegan hátt vill Kristinn H. Gunnarsson halda því fram að munurinn sé ekki rúmar 88 milljónir heldur einungis 5 milljónir! Ég spyr bara hvort hann sé ekki að grínast, svona málflutningur hjá þingmanni til 18 ára er alls ekki boðlegur“.

Það færi vel á því að þeir báðir dragi ummæli sín til baka og biðjist afsökunar á þeim. Sérstaklega finnst mér að Vilhjálmur Birgisson þurfi að hugsa sinn gang. Formaður verkalýðsfélags getur ekki leyft sér að fara með hrein ósannindi.

Það er mikið áhyggjuefni þegar opinber umræða um mikilsverð mál markast af því að aðeins megi flytja „réttar“ skoðanir og að þeir sem fylgja ekki skoðanakúguninni fái á sig óþverralegar persónulegar ávirðingar sem síðan eru endurteknar og magnaðar í netheimum. Fjölmiðlar verða gæta sín á þessu. Þeirra hlutverk er að gera grein fyrir sjónarmiðum og sérstaklega að stuðla að því að umræða verði byggð á staðreyndum en ekki upphrópunum og skrílslátum.

Umræðan um verðtryggingu skuldbindinga er skýrt dæmi um mál sem mikið vantar upp á að sé í jafnvægi. Skuldir verða ekki miklar vegna formsins á vaxtaákvæðum þeirra heldur vegna þess að skuldirnar sjálfar eru miklar. Þeir sem hafa hátt og lofa stórfelldri lækkun skulda eru, þegar á þá er gengið, á hálu svelli ósannindanna.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir