Herferð gegn verðtryggingunni

Pistlar
Share

Einkennileg herferð gegn verðtryggingunni hefur verið í gangi að undanförnu. Lögmæti hennar hefur verið dregið í efa, því haldið fram að hún sé mun dýrari en breytilegir óverðtryggðir vextir, að hækkun lána sé verðtryggingunni að kenna og að hún stuðli í sjálfu sér að aukinni verðbólgu, svo nokkuð það helsta sé rifjað upp úr umræðunni.

Ekkert af þessum staðhæfingum hefur byggst á ábyggilegum gögnum og sumar eru sannarlega rangar. Í þeim hópi eru fullyrðingar um gífurlegan kostnaðarmun á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum sem einn verkalýðsleiðtogi hefur látið plata sig til þess að halda fram. Til eru margar skýrslur sem leggja staðreyndirnar á borðið.

Í síðasta mánuði var því haldið fram að álit framkvæmdastjórnar ESB staðfesti að vafi væri á lögmæti verðtryggðra lána hér á landi. Þar sem sá, sem þessu hélt fram, er prófessor í Evrópurétti var eðlilega eftir þessu tekið. Nú hefur ESA, eftirlitsstofnun EFTA, tekið af skarið, skv frétt í Viðskiptablaðinu í dag, og telur að verðtrygging sé lögleg og ennfremur að húsnæðislán falli ekki undir þá löggjöf Evrópusambandsins sem stuðst var við, og að hvert aðildarland geti ákveðið reglur um þau lán.

Þegar lesin eru svörin frá framkvæmdastjórnin ESB til prófessorsins við Háskóla Íslands kemur nokkuð annað í ljós en oft var haldið fram í umræðunni. Framkvæmdastjórnin veitir engin efnisleg svör við frambornum spurningum og tekur það skýrt fram að það sé ekki á verksviði hennar að svara, heldur ESA. Eftir Icesavedóminn á öllum landsmönnum að vera ljóst að það er ekki Evrópusambandið sem úrskurðar um lögmæti íslenskra laga.

Það vekur athygli að prófessorinn , sem auðvitað veit þetta ,leggur sig fram um það í bréfi sínu að kasta rýrð á Eftirlitsstofnun EFTA og telur hana ekki faglega ráða við að fjalla um neytendavernd og þess vegna sé það nauðsynlegt að framkvæmdastjórn ESB svari spurningunum.

Embættismaður framkvæmdastjórnar ESB veitir aðeins svokölluð tæknileg svör og skýrt er tekið fram að þau séu ekki hluti af svari framkvæmdastjórnarinnar. Embættismaðurinn segir að verðtrygging sé almennt ekki bönnuð. Hvorki sé bannað að beita henni á einstakar afborganir né á höfuðstól lána. Ennfremur kemur fram í tæknilegu svari embættismannsins að verðtrygging sé sérstaklega heimiluð í tilskipun ESB um óréttmæta viðskiptahætti.

Þetta er efnislega það sama og kemur fram í svari ESA og þar er því bætt við að verðtrygging sé hluti af lánaskilmálum sem um er samið og falli ekki undir löggjöf um upplýsingaskyldu lánveitanda um annan kostnað, sem var þunginn í rökstuðningi prófessorsins.

Eftir stendur spurningin til hvers var verið að þessu. Ég held að tilgangurinn sé augljós. Ætlunin er að fá verðtryggð lán dæmd ólögleg, rétt eins og gengistryggðu lánin, og ná þannig fram hundruð milljarða króna lækkun útistandandi skulda, einkum vegna fasteignakaupa. Auðvitað eru margir í vanda staddir eftir verðbólguna, sem reið yfir á árinu 2008 og kaupmáttarskerðinguna sem fylgdi í kjölfarið og auðvitað verða lánaskilmálar að vera löglegir.

En hitt á ekki að fara á milli mála að verðtrygging hefur verið við lýði af illri nauðsyn frá 1979 og hefur allan tímann verið lögleg. Verðtryggingin hefur tryggt framboð af innlendu lánsfé og launamönnum bærilegan lífeyri við starfslok. En skellurinn af afnámi verðtryggingar og lækkun höfuðstóls skulda fellur meira og minna á eldri kynslóðina og gerir upptæka stóran hluta af lífeyriseign hennar. Getur það verið að fólkinu sem stendur í þessari herferð varði ekkert um það hverjir fyrir verða?

Athugasemdir