Fimm milljónir kr. en ekki 88 mkr.

Pistlar
Share

Fyrir rúmri viku birtist á pressan.is grein eftir Vilhjálm Birgisson, formann Verkalýðsfélags Akraness, þar sem hann fullyrðir að það sé 88 mkr. dýrara að taka 22 mkr. húsnæðislán til 40 ára með verðtryggðum kjörum en ef lánið væri óverðtryggt með breytilegum vöxtum. Miðað er við að verðbólga verði 5.81% á ári allan lánstímann. Heildarkostnaður verði samkvæmt reiknivél Landsbankans rúmar 60 mkr. í öðru tilvikinu en 149 mkr. í hinu.

Óhætt er að segja að Vilhjálmur fari frjálslega með sannleikann og geri eina fjöður að fimm hænum. Nær sanni er að munurinn er 5.4 mkr. en ekki 88 mkr. Sá munur skýrist af því að greiðslukjörin í óverðtryggða láninu eru þannig að allir vextir greiðast jafnóðum og því greiðist skuldin hraðar niður. Með öðrum orðum, óverðtryggt lán er að jafnaði lægra þótt það sé til sama tíma og lægri skuld þýðir vitaskuld lægri vaxtakostnað.

Nauðsynlegt er að núvirða greiðslurnar af báðum lánunum til þess að geta borið saman kostnaðinn af þessum ólíku lánaformum yfir svona langan tíma. Það er vegna þess að verðgildi krónanna sem greitt er hverju sinni er afar ólíkt í svona mikilli verðbólgu. Af óverðtryggðu láni er greitt hraðar og því verða krónurnar færri en verðmeiri og hið gagnstæða gildir um verðtryggt lán, að krónurnar verða mun fleiri vegna greiðsludreifingarinnar en hins vegar mun verðminni. Þegar báðar greiðsluraðirnar eru núvirtar miðað við 3.75% ávöxtunarkröfuna, sem er á verðtryggða láninu fæst út að greiðslurnar af verðtryggða láninu eru samtals 22 mkr. en 16.6 mkr.af því óverðtryggða.

Ekki er hægt að gera ráð fyrir að bankinn sem lánar geri minni ávöxtunarkröfu til óverðtryggða lánsins en þess verðtryggða. En það er stór hluti af rangfærslu Vilhjálms að hann gerir ráð fyrir því að ávöxtunin af óverðtryggða láninu sé aðeins ¼ af ávöxtuninni af því verðtryggða. Þegar að er gáð er það auðvitað alls ekki svo og þessi lánakjör á óverðtryggðu láni eru ekki í boði.

Vilhjálmur Birgisson er ber að því að fara með fleipur um verðtryggð lán og er vísvitandi að villa um fyrir umbjóðendum sínum og leiða þá á villigötur, þeim til skaða. Það má segja um þessi tvö lánaform sem um er rætt að þau hafa bæði sína kosti og ókosti. Eðlilegt er því að draga þá fram og vega og meta. Það er ekkert mannanna verk hafið yfir gagnrýni, né er það óumbreytanlegt. Verðtryggð lán hafa þann kost að raunvextir eru að jafnaði lægri og greiðslubyrðin jafnari, en þau óverðtryggðu lækka skuldina fyrr ef greiðandinn ræður við þunga greiðslubyrði framan af lánstímanum. Eðlilegt er að neytendur hafi val og þeir meti það sjálfir hvaða kjör þeir velja sér á lánum sínum.

En eitt grundvallaatriði þarf að vera ljóst í umræðunni um verðtryggð og óverðtryggð lán. Það er að vextirnir, hvernig svo sem þeir eru reiknaðir, munu vera hærri en verðbólgan á lánstímanum. Raunvextir verða alltaf einhverjir og þeir ávaxta lánsféð. Á hinn bóginn, sýnist mér augljóst með kröfunni um bann við verðtryggingu og lögbundið hámark á óverðtryggðum vöxum að ætlunin er að endurvekja gamla tíma þegar vextir voru lægri en verðbólgunni nam. Þá lækkaði verðbólgan sjálfkrafa skuldina og því meir sem verðbólgan varð meiri.

Það verður hagur skuldara, bæði einstaklinga og fyrirtækja, við þessar aðstæður að stuðla að því að verðbólgan verði yfir þessu vaxtahámarki. Þeir sem tapa verða fyrst og fremst eigendur lífeyrisréttinda í almennum lífeyrssjóðunum og þeir sem í dag fá greiddan lífeyri. Þessi réttindi eru verðtryggð í dag, en afnám verðtryggingar myndi auðvitað ná til þeirra. Það er þessi sparnaður sem er verið að sækjast í til þess að lækka skuldir annarra. Amma borgar að lokum, ef Vilhjámur Birgisson og aðrir slíkir fá sínu framgengt.

script>function fbs_click() {u=location.href;t=document.title;window.open(‘http://www.facebook.com/sharer.php?u=’+encodeURIComponent(u)+’&t=’+encodeURIComponent(t),’sharer’,’toolbar=0,status=0,width=626,height=436′);return false;}

“ onclick=“return fbs_click()“ target=“_blank“ class=“fb_share_link“>Deila á Facebook

Athugasemdir