Ósannindamaðurinn Vilhjálmur

Pistlar
Share

Á vef Pressunnar er grein eftir Vilhjálm Birgisson, formann Verkalýðsfélags Akraness, þar sem hann ber saman verðtryggt og óverðtryggt lán í Landsbankanum til húsnæðiskaupa.Það er eðlilegt að gera slíkan samanburð og draga fram staðreyndir um kostnaðinn við þessa mismunandi kosti þannig að lántakendur geti gert upp við sig hvor kosturinn hentar þeim betur.

Hitt er verra að Vilhjálmur fer rangt með í öllum aðalatriðum og setur fram hrein ósannindi í þeim tilgangi að sverta verðtryggð lán og gylla þau óverðtryggðu. Þetta er algerlega óásættanlegt, þar sem formaður verkalýðsfélagsins hefur alla möguleika til þess að afla sér réttra upplýsinga og hefur þar að auki efnt til málaferla fyrir dómstólum til höfuðs verðtryggingunni og hlýtur af þeim sökum að hafa kynnt sér rækilega kosti og galla þessara lánaforma. Það er ekki hægt að virða honum til vorkunnar að vita ekki betur, það verður að fullyrða að málflutningur hans er vísvitandi og af ásettu ráði.Fylgi umbjóðendur Vilhjálms niðurstöðu hans munu þeir fljótlega reyna á eigin skinni að þeir hafa verið afvegaleiddir og að ódýra lánið er alls ekki ódýrt. En þá verður líklega skaðinn þegar skeður og lítil hjálp í formanni Verkalýðsfélags Akraness.

Vilhjálmur Birgisson fullyrðir að heildargreiðslur af verðtryggðu 22 mkr láni til 40 ára séu 88 mkr hærri en af óverðtryggu láni. Heildargreiðslur af óverðtryggða láninu verði 60 mkr en 149 mkr af því verðtryggða. Önnur fullyrðing Vilhjálms er að verðtryggða lánið sé svo dýrt að það þurfi 18,3% vexti af óverðtryggða láninu til þess að jafnast á við það verðtryggða. Báðar fullyrðingarnar eru ósannar.

Rangar forsendur

Vilhjálmur gerir ráð fyrir 5.81% verðbólgu næstu 40 árin og að vextir af verðtryggðu láni séu 3.75% ofan á það. Hins vegar séu vextir af óverðtryggða láninu 6.75%. Þar gerir hann líka ráð fyrir 5.81% verðbólgu en engu að síður óbreyttum vöxtum 6.75%. Raunvextir af verðtryggða láninu eru þá 3.75% en aðeins 0.94% af því óverðtryggða. Þetta er ósönn forsenda varðandi óverðtryggða lánið. Hvorki Landsbankinn né aðrar lánastofnanir bjóða lán til 40 ára með svo lágum raunvöxtum. Óverðtryggða lánið í dæmi Vilhjáms er einfaldlega ekki kostur sem er í boði. Vextirnir eru breytilegir og verða endurskoðaðir á lánstímanum. Þeir munu skila bankanum mun hærri raunvöxtum þegar upp er staðið en 0.94%. Líklegasta niðurstaðan þegar lánið verður uppgreitt er að raunvextir bankans af lánveitingunni verði svipaður af þessum tveimur lánakostum.

Rangar útleggingar

Útreikningarnir sem reiknivél Landsbankans skilar eru meðhöndlaðir á rangan hátt. Vilhjálmur leggur krónu sem greidd er árið 2013 að jöfnu við krónu sem greidd er 40 árum síðar. Það er fölsun á staðreyndum, sérstaklega þegar hann gerir ráð fyrir 5.81% árlegri verðbólgu. Það mun þurfa nærri 39 krónur árið 2053 til þess að vera jafnvirði 1 krónu núna, árið 2013. Óverðtryggt lán er ekki með greiðsludreifingu og verður endurgreiðslan þyngst fyrstu árin, en hið gagnstæða með verðtryggt lán. Það skýrir hvers vegna krónurnar verða færri í óverðtryggðu láni og miklu fleiri í verðtryggðu láni.En það þýðir alls ekki að verðmætið á bak við krónurnar sé svo misjafnt sem ætla má af tölunum sem Vilhjálmur notar 60 mkr og 149 mkr.

Fyrsta árið verða greiðslurnar af óverðtryggða láninu 1.762.289 kr en 1.258.081 af því verðtryggða. Nærri 30% af greiðslunni, 504.208 kr. er frestað og dreift á árin 39, eftirstöðvar lánstímans. Það þýðir að 12.928 kr. greiðsluhækkun á hverju ári. Sú fjárhæð verður vegna verðbólgunnar 454.946 kr á síðasta ári lánsins, en er í raun og veru sama verðmætið. Ef við gefum okkur að lántakandinn hafi 5 mkr í árstekjur þá er greiðsludreifingin um 10% heildartekjum hans og það munar mikð um að geta jafnað greiðslunum á allan lánstímann. Það er rík ástæða fyrir greiðsludreifingunni.

Á síðasta ári verðtryggða lánsins verða greiðslurnar 8.834.595 samanborið við 1.420.000 kr af hinu óverðtryggða. Þarna verður munurinn mikill í krónum, en ekki í verðmætum þegar litið er til þess að löngu áður var hluti af óverðtryggðu vöxtunum greiddur. Þessar nærri 9 mkr eru nefnilega ekki nema 251.048 kr ef þær eru fluttar til baka yfir á 1. árið. Það er ekki nema helmingurinn af því sem greitt var af óverðtryggða láninu umfram það verðtryggða eins og rakið er að framan.

Rangir útreikningar

Þá er það fullyrðingin um að verðtryggða lánið jafngildir óverðtryggðu láni með 18.3% vöxtum. Þarna eru sömu ósannindin höfð uppi. Vilhjálmur heldur því fram að lán með 12.49% vöxtum umfram verðbólgu sé jafngilt öðru láni með 3.75% raunvöxtum. Varla verður meira logið í einni blaðagrein. Til þess að sýna fáránleika fullyrðingar Vilhjálms skal rakið að greiðslur á fyrsta ári af þessi óverðtryggða láni með 18.3% vöxtunum yrðu hvorki meira né minna en 4.177.964 kr. Væru þær færðar til síðasta árs lánsins í 5.81% verðbólgu jafngiltu þá 147.025.895 kr. Þetta ætti að nægja til þess að sýna að tíminn skiptir máli, króna á einum tíma er ekki það sama og króna á öðrum, einmitt vegna verðbólgunnar.

Framganga Vilhjálms Birgissonar er algerlega óásættanleg og ekki samboðin manni sem er í forystu fyrir stéttarfélagi. Það er eðlilegt að hafa mismunandi skoðanir á ýmsum kostum sem í boði eru varðandi lánsfjármagn og deila um gildi þeirra, en það er fyrir neðan allar hellur að kasta staðreyndum fyrir róða til þess eins að afvegaleiða og blekkja almenning.Vilhjálmur ætti að hafa í huga að það kemur alltaf að skuldadögum í þeim efnum eins og öðrum.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir