Græðgi frjálshyggjunnar áfram

Pistlar
Share

Meirihluti kjósenda veitti ríkisstjórnarflokkunum brautargengi í síðustu Alþingiskosningum til þess að breyta þjóðfélaginu. Vinstri flokkunum var ætlað að koma böndum á græðgina og siðleysið sem nýfrjálshyggjan leysti úr læðingi þar sem fámennur hópur manna sópaði til þín miklum auðævum í skjóli ranglátra laga og leiddi á fáum árum til bankahrunsins.

Flokkarnir sögðu kjósendum að eitt allra stærsta umbótamálið væri að umbylta löggjöfinni um sjávarútveginn og lögði fram skýra stefnu um áform sín. Nú þegar dregur að lokum kjörtímabilsins er orðið ljóst að þeir hafa gugnað. Félagshyggjuflokkarnir virðast á valdi hagsmunaaðila og hugmyndafræðilega gjaldþrota. Þeir boða opinskátt áfram sömu frjálshyggjuna og nærði græðgina fyrir hrun.

Samfylkingin og Vinstri grænir sögðust ætla að úthluta nýtingarréttinum á jafnræðisgrundvelli til hóflegs tíma gegn fullu gjaldi. Þeir sögðu báðir að kvótakerfið stæðist ekki jafnræðisreglu samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Þeir sögðu báðir að núverandi kvótaúthlutun samræmdist ekki kröfunni um sanngjarnar og réttlátar leikreglur.

En nú ætla vinstri flokkarnir að úthluta áfram sömu mönnum 94% af kvótanum. Þeir ætla áfram að úthluta ótímabundið og þeir ætla áfram að afhenda réttinn fyrir brot af því verði sem kvótagreifarnir hafa sjálfir búið til og láta borga sér. Þeir ætla áfram að leyfa þessum fáu kvótahöfum að selja kvótann og hirða allar tekjurnar. Græðgin fær áfram sitt.

Árið 2007 var allur kvóti á Flateyri seldur burt. Seljandinn er 9. ríkasti maður landsins skv. tekjublaði Frjálsrar verslunar. Það verður áfram þannig að sjómenn og landverkafólk ráða engu um það hvað verður um kvótann. Áfram verður allur kvótinn óbundinn sjávarbyggðunum. Áfram verður engin samkeppni um veiðiheimildir og enginn aðkoma fyrir nýja aðila á jafnræðisgrundvelli. Áfram verður fiskverð og ráðstöfun aflans einkamál kvótahafans. Áfram verður hægt að veðsetja kvótann og taka út framtíðartekjurnar. Áfram verður hugarfarið drekkum í dag og iðrumst á morgun.

Áfram munu fáir græða mikið og margir tapa. Til þess að svikamyllan geti örugglega haldið áfram ætla vinstri flokkarnir í góðri samvinnu við gömlu kvótaflokkana sjá til þess að þessu verði ekki breytt næstu 20 árin. Áfram verður ranglætið.

Athugasemdir