Tjáningarfrelsið og bleiki fíllinn á Íslandi

Pistlar
Share

Lífleg umræða fer nú fram um tjáningarfrelsið í framhaldi af dómnum í Rússlandi yfir þremur stúlkum í pönkhljómsveit. Þær gagnrýndu Pútín og voru dæmdar til fangelsisvistar fyrir óspektir á almannafæri. Í Rússlandi þykir skorta á að tjáningarfrelsi borgaranna sé nægilega virt og dómurinn styrkir þau sjónarmið.

Þar sem lýðræðið stendur sterkum fótum er tjáningarfrelsið virt og þar sem gengið er á réttinn til tjáningar eru brotalamir á framkvæmd lýðræðisins. Óttinn við tilteknar skoðanir veldur yfirleitt því að valdhafar banna þær eða refsa með einhverjum hætti þeim sem halda fram óæskilegum sjónarmiðum. Þess vegna eru óeðlilegar takmarkanir á tjáningarfrelsi einstaklinga ósigur lýðræðisins. Þær eru til marks um að valdhafar eða þeir sem standa fyrir ríkjandi skoðun í tilteknum málum þora ekki í umræðuna og rökræðuna sem alltaf verður þegar ólík sjónarmið eru sett fram. Að sama skapi er það sigur lýðræðisins þegar tjáningarfrelsið nær líka til þeirra sem aðhyllast skoðanir sem fáir styðja.

Í raun og veru er gildi tjáningarfrelsisins einmitt mest fyrir minnihlutahópa. Það segir sig sjálft að hver sem er getur hvar sem er óhindrað og átölulaust talað fjálglega fyrir skoðunum og gildum sem allur þorri aðhyllist. En það reynir á frelsið þegar stigið er út fyrir þennan ramma og valdhafar gagnrýndir eða skoðanir settar fram sem flestum þykir ógeðfelldar eða eru andsnúnir af einhverjum ástæðum. Ef þá er beitt refsingum og bönnum til þess að kveða niður málflutninginn hefur lýðræðið beðið ósigur. Tjáningarfrelsi hinna ögrandi málflytjenda er góður mælilkvarði á stöðuna í hverju þjóðfélagi eins og ágætlega er lýst í skoðun Steinunnar Stefánsdóttur í Fréttablaðinu í gær.

Það er einmitt þessi punktur sem opinberar mikinn veikleika í tjáningarfrelsinu á Íslandi. Það er bleikur fíll í stofunni hér á landi. Umræðan um tjáningarfrelsið í Rússlandi er tilefni til þess að vekja athygli á fílnum og leitast við að bæta úr.

Í sumar var manni vikið úr starfi fyrir skoðanir sínar á samkynhneigð. Hann er þeirrar skoðunar að samkynhneigð sé synd. Það eru fáir þeirrar skoðunar og eiginlega má segja þvert á móti. Í uppsagnarbréfi Akureyrarbæjar segir að Snorri Óskarsson hafi gerst sekur um brot utan starfs með því að setja fram opinberlega skoðun sína. Hefði þetta verið í Rússlandi og hefði Snorri þar varið samkynhneigð hefði honum líklega verið vikið úr starfi í ljósi almennra viðhorfa þar í landi til samkynhneigðra. Myndum við Íslendingar ekki þá mótmæla slíkri skoðanakúgun ?

Það er gróf aðför að einstaklingi af hálfu hins opinbera að svipta hann atvinnu vegna skoðana hans á almennu þjóðfélagsmáli. Það er kúgun og skerðing á tjáningarfrelsi sem á engan hátt er réttlætanleg. En brottreksturinn og sérstaklega þögnin og afskiptaleysið í kjölfarið lýsir skorti á umburðarlyndi, dómhörku og kannski ótta og er bleiki fíllinn í umræðunni núna um tjáningarfrelsið. Þetta má sjá stað víða. Í bloggumræðu er óhikað vegið gróflega að æru manna með svívirðingum og í stjórnmálaflokkum eins og Framsóknarflokknum eru óæskilegir félagsmenn flæmdir á brott og jafnvel sagt hreint út að þeir eigi að hypja sig. Umræðurnar og deilurnar á Alþingi eru litaðar slíkri hörku og ósveigjanleika að almenningi blæðir í froðu við að horfa á þær.

Viðhorf til samkynhneigðra hafa gerbreyst á síðustu áratugum. Það gerðist fyrir tilstilli tjáningarfrelsins. Með það að vopni tókst að vinna almennan stuðning við umburðarlyndi og skilning á stöðu samkynhneigðra. Það sýnir styrk lýðræðisins. Hins vegar er það dapurlegt þegar málið er unnið að þá sígur í sama farið og þeir sem skera sig úr fjöldanum eru á ný beittir órétti og yfirgangi valdsins. Tjáningarfrelsið og lýðræðið sigruðu og hvernig í ósköpunum má það vera að þeir sem höfðu betur óttist nú tjáningarfrelsi þeirra sem ekki eru sammála ? Sagði ekki utanríkisráðherrann að í lýðræðislandi ættu borgararnir að geta móðgað valdhafana ? Á það ekki við á Íslandi?

Kjarninn í umræðunni um tjáningarfrelsið er að gildi þess er mest þegar mótmælt er ríkjandi valdakerfi og ýtt við almennu gildismati. Því má ekki gleyma. Þegar ögrunin er ekki liðin þá er tjáningarfrelsið skert og lýðræðið hefur beðið hnekki. Þeir sem hafa mannúðina og kærleikann með sér þurfa ekkert að óttast. Þeir hafa alltaf betur í umræðunni í lýðræðisþjóðfélagi.

Athugasemdir