Minnst gert þar sem þörfin er mest

Pistlar
Share

Í Morgunblaðinu var í síðustu viku frétt um skort á fé til viðhalds á vegum landsins. Í myndatexta stóð að ekki væri mikið um nýframkvæmdir í vegagerð þessi misserin og ein stærsta framkvæmdin væri á Barðaströndinni, sem er á sunnanverðum Vestfjörðum. Það er þakkarvert þegar fjölmiðlar vekja athygli á slæmum vegum sem eru allt of víða á Vestfjörðum og Morgunblaðið hefur staðið sig vel að því leyti.

En það rétta er að á næstu þremur árum verða unnin nokkur mjög stór verkefni í vegagerð og því miður verður minnst gert á Vestfjörðum, þar sem þörfin er mest. Mestar framfarir verða þar sem samgöngur eru góðar fyrir. Það landssvæðið sem veikast stendur og þarf mest á úrbótum að halda víkur fyrir öðrum landssvæðum sem vel standa. Það er hinn bitri sannleikur.

Með nýjum vegi um Hófaskarð í Norður Þingeyjarsýslu var lokið uppbyggingu á stofnvegakerfi landsins nema á Vestfjörðum. Þar eru enn samtals 110 km gamlar og illfærir vegarkaflar á Vestfjarðavegi milli Þingeyrar og Bjarkalundar sem liggja um tvo háa fjallvegi og einnig eru á Strandavegi í Strandasýslu gamlir og niðurgrafnir vegaslóðar um tvo hálsa norður í Árneshrepp. Vestfirðingar efndu til hátíðahalda á Dynjandisheiði sumarið 2009 til þess að minnast þess að 50 ár voru þá síðan vegurinn var lagður. Þáverandi samgönguráðherra, Kristján Möller, flutti þar ræðu og bað Vestfirðinga afsökunar fyrir hönd stjórnvalda á því að þeir þyrftu enn að búa við þessa fornöld í samgöngumálum.

Framundan eru stórverkefni í vegagerð fyrir rúma 30 milljarða króna. Á árunum 2011-2014 verða Norðfjarðargöng og Vaðlaheiðargöng grafin. Þau munu kosta um 11 milljarða króna hvor og verða að öllu leyti fjármögnuð af ríkinu með beinum framlögum eða lántökum. Þá verður unnið fyrir 2.3 milljarða króna við breikkun á vegi um Hellisheiði og 3.2 milljarða króna á Vestfjarðavegi í Múlasveit. Þá má nefna smíði nýs Herjólfs, sem um líklega kosta um 4 milljarða króna. Það er hins vegar ekki eiginleg vegagerð, en hins vegar afar mikil samgöngubót fyrir Vestmannaeyinga.

Þessar framkvæmdir eru ákveðnar og fjármagnaðar og fyrir Alþingiskosningar að vori verður búið að skrifa undir skuldbindandi samninga. Líklega verða framkvæmdir einnig hafnar. Af þessu ætti að vera ljóst að það er ónákvæmni að draga fram þá mynd að helsta vegagerð um þessar mundir væri á Vestfjörðum. Því miður, öðru nær. Þrátt fyrir einlægan stuðning samgönguráðherra, Ögmundar Jónassonar, við málstað Vestfirðinga og Dýrafjarðargöng eru þau og flest önnur brýn verkefni á Vestfjörðum aðeins fyrirheit , sem ekki eru föst í hendi. Hægur vandi verður að fresta þeim enn eftir kosningar. Núverandi ríkisstjórn hefur seinkað Dýrafjarðargöngum um 6 ár. Þegar hún tók við átti að ljúka framkvæmdum 2012, en nú er áætluð verklok ekki fyrir en 2018.

Fólki hefur fækkað um 33% á Vestfjörðum frá 1981. Þóroddur Bjarnason, stjórnarformaður Byggðastofnunar og prófessor við Háskólann á Akureyri, segir að bregðast þurfi skjótt við ef bjarga eigi byggðinni. Hann nefnir sérstaklega þörfina fyrir samgöngubætur og segir í viðtali við Ríkisútvarpið 22. apríl síðastliðinn að tengja þurfi svæðin á Vestfjörðum saman með heilsársamgöngum. Þar vísar Þóroddur til þess að engar samgöngur eru milli norðanverðra og sunnanverðra Vestfjarða 3 -5 mánuði á hverju ári og slæm færð hina mánuðina.

Alþingi og ríkisstjórn samþykkti nýja samgönguáætlun í vor eftir þessa brýningu og bregst þar satt að segja mjög hægt við. Spurningar hljóta að vakna um viljann til þess að bjarga byggðinni.

Ríkisstjórn hefur á hinn bóginn vaðið eld og brennistein og fórnað sannleikanum ítrekað fyrir framgang Vaðlaheiðaganga. Þau eiga að leysa af hólmi lágan fjallveg sem er ófær 0 -4 daga eða dagsparta á ári og þá daga er örugg leið um láglendisveg. Eyjafjörðurinn er annað helsta vaxtasvæðið á landsbyggðinni og fólki fjölgaði um 5% á árunum 2001-2010. Norðfjarðargöng eiga koma í stað annarra jarðganga, Oddskarðsganga. Ófærð um þau er lítil, aðeins 0-4 daga á ári og Miðausturlandið er mesta vaxtasvæðið utan höfuðborgarsvæðisins. Þar fjölgaði fólki um 10% á fyrsta áratug aldarinnar.

Niðurstaðan er skýr; mest er gert þar sem samgöngur eru bestar og byggðin stendur best, en minnst er gert þar sem samgöngur eru verstar og mest þörf á skjótum aðgerðum. Enginn hefur ennþá beðist afsökunar á þessari lítilvirðingu við fólk á Vestfjörðum. Þótt eðlilegt sé og skiljanlegt vegna fámennis og landfræðilegra aðstæðna að bíða þurfi eftir framförum, þá er ekki hægt að una því að búa í marga áratugi við samgönguleysi og skerðingu á þjónustu. Það er runnin upp ögurstund eins og Alþingi var bent á.

Athugasemdir