Unnið gegn bættum lífskjörum

Pistlar
Share

Ferðaþjónusta er ein allra mikilvægasta atvinnugrein landsmanna. Framleiðsluvirðið var árið 2009 um 200 milljarðar króna, gjaldeyristekjurnar 158 milljarðar króna og útgöld erlendra ferðamanna voru talin vera rúmir 113 milljarðar króna 2010. Miklir vaxtarmöguleikar eru í ferðaþjónustunni og þar geta Íslendingar einna helst sótt fram og bætt lífskjör sín. Það er óskynsamlegt að vísa Kínverjum frá landinu sem ferðamönnum, þegar þar munu á næstu áratugum liggja mestu tækifærin til þess að auka tekjur og fjölga störfum.

Fyrir nærri tveimur áratugum var sendinefnd Alþingis á ferð í Kína. Þar kom margt fróðlegt fram, meðal annars var á það bent, að efnahagur almennings í Kína færi ört batnandi og innan skamms yrði hluti þjóðarinnar,sem væri samt nokkur hundruð milljóna Kínverja, svo efnum búnir að þeir færu að ferðast um heiminn. Fjöldi þeirra yrði á að giska svipaður og næmi öllum íbúum Evrópu.

Þetta er allt að koma fram. Vikublaðið Economist birtir nýlega athyglisverðar upplýsingar um vaxandi hlut Kínverja í ferðaþjónustunni um allan heim. Í mörgum löndum eru gríðarlegir hagsmunir fólgnir í ferðaþjónustu við Kínverja og vaxandi samkeppni milli þjóðanna um að fá sem flesta ferðamenn til viðkomandi lands. Kínverjar eru komnir í þriðja sæti þjóða heimsins á lista yfir eyðslu í ferðalögum erlendis á eftir Þjóðverjum og Bandaríkjamönnum. Samtals er talið að útgjöld kínverskra ferðamanna á ferðum sínum erlendis hafi numið 73 milljörðum bandarískra dollara á síðasta ári.

Í júlí síðastliðnum höfðu bandarísk yfirvöld veitt 1 milljón vegabréfsáritanir til kínverskra ferðamanna á aðeins 10 mánuðum og hafði þeim fjölgað um 43% frá fyrra ári. Talið er að tekjur af hverjum ferðamanni séu um 6000 $ og að það sé um þriðjungi meira en að jafnaði af öðrum ferðamönnum.

Bresk stjórnvöld hyggja nú á stórsókn inn á þennan markað og ætla sér að þrefalda á næstu árum fjölda kínverskra ferðamanna til Bretlands, meðal annars með því að auðvelda Kínverjum að fá vegabréfsáritun. Það kemur fram í úttekt Economist að ferðahættir Kínverjanna eru að breytast á þann veg að æ fleiri vilja ferðast á eigin vegum um landið sem þeir heimsækja.

Íslendingar hafa hagnýtt sér Kínverja sem ódýrt vinnuafl. Minna má á byggingu Kárahnjúkastíflunnar og tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu. En af einhverjum ástæðum virðist sem Kínverjar séu óvelkomnir sem fjáðir ferðamenn. Viðbrögðin við erindi Núbó um uppbyggingu ferðaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum hafa verið mjög neikvæð og fráhrindandi. Vissulega er sú skoðun góð og gild, þótt hún sé ekki óumdeild, að óæskilegt sé að land verði í eigu útlendinga en það mál er út af borðinu eftir að sveitarfélögin í Þingeyjarsýslu ákváðu að kaupa landið og leigja hluta þess undir ferðaþjónustuna.

Erlendar þjóðir keppast við að fá sem mestan ávinning af vaxandi kaupmætti milljóna Kínverja sem eru á faraldsfæti , en hér á landi er þyrlað upp tortryggni og sáð efasemdum. Það er engu líkara en að sjálfstæði landsins sé í hættu miðað við nýlega blaðaauglýsingu, ef útlendingar geta leigt skika af Grímsstöðum undir gistihúsnæði til 40 ára , en útlendingum stendur fúslega til boða að kaupa hús eða jafnvel hótel í Reykjavík með lóðarleigusamningi til 99 ára.

Þingeyingar berjast harðri baráttu fyrir því að efla byggð og atvinnulíf í sínu héraði. Þar hafa þeir upp á margar auðlindir til lands og sjávar að bjóða sem getur orðið þeim að gagni, og að sama skapi landsmönnum öllum. Stjórnvöld og stjórnmálamenn verða að axla þá ábyrgð að standa með framtaki heimamanna og leggja því lið. Þessir aðilar hafa þar öll tæki í sínum fórum, þar með talið löggjafar- og skattlagningarvaldið, til þess að stýra málum í farveg sem fellur að almennri stefnu stjórnvalda hverju sinni.

Skylda ráðherra og annarra ráðamanna er að hjálpa til við að nýta tækifærin, en ekki að spilla þeim, að vinna með þeim sem reyna en ekki á móti þeim. Greinin í Economist staðfestir að þannig horfa stjórnvöld erlendis á málin. Þau vilja bæta lífskjörin.

Athugasemdir