Evrópusambandið hafnar íslenska kvótakerfinu

Pistlar
Share

Þær athyglisverðu fréttir berast frá Evrópusambandinu að aðildarríkin hafi hafnað því að taka upp framseljanlega kvóta í sjávarútvegi. Endurskoðun fiskveiðistefnu sambandsins stendur nú yfir og var þetta lagt til í upphaflegu tillögunum. Flest ríki Evrópusambandsins tóku tillögunum afar illa. Bent var á að framseljanlegir kvótar væru söluvara og myndu ganga kaupum og sölum milli fyrirtækja án tillits til landamæra.

Augljóslega myndi eignarhald á kvótunum færast á milli landa og það gæti haft gríðarleg áhrif á útgerð og atvinnu í sjávarbyggðunum. Það er greinilega lítill vilji til þess meðal ríkja Evrópusambandsins að einkavæða auðlind í almannaeigu sem mun að öllum líkindum leiða til alvarlegra afleiðinga fyrir minni útgerðir og grafa þannig undan tilveru byggðarlaga við sjávarsíðuna, eins og segir í frétt um málið á Euobserver.com þann 20. ágúst síðastliðinn.

Það er grundvallaratriði í stofnsáttsála Evrópusambandsins að sambandið ákveður fiskveiðistefnuna og nýtingu fiskimiðanna, en ekki einstök ríki. Aðild Íslands að sambandinu fæst ekki nema opna fyrir fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi . Það þýðir að meðan við höfum framseljanlegt kvótakerfi hér innanlands að þá er ekki hægt að hafa uppi neinar varnir til þess að tryggja að veiðar á Íslandsmiðum efli atvinnulíf landsins og efnahag. Erlendir aðilir, þar með talin erlend ríki geta keypt kvótana og fengið yfirráð yfir þeim.

Þetta sáu aðildarríki Evrópusambandsins fyrir sér að myndi gerast líka innan þeirra lögsölu ef tekið yrði upp framseljanlegt kvótakerfi að íslenskri fyrirmynd og höfnuðu hugmyndinni með afgerandi hætti. Það er líka mjög sláandi hvernig synjunin er rökstudd. Litið er á framsalið sem raunverulega einkavæðingu auðlindarinnar sem gangi gegn almannahagsmunum, og sérstaklega hagsmunum sjávarbyggðanna í hverju landi.

Á sama tíma eru íslensku stjórnarflokkarnir að ljúka endurskoðun sínni á kvótakerfinu og þeir hafa fallið frá gagnrýni sinni á kerfið og boðuðum grundvallarbreytingum á úthlutun auðlindarinnar. Nú vilja vinstri flokkarnir hafa kerfið óbreytt í öllum meginatriðum. Þeir vilja einkavæðinguna sem hægri menn í Evrópu hafa hafnað með afgerandi hætti. Vinstri flokkarnir hafa líka sótt um aðild Íslands að ESB og ætla með óbreyttu kvótakerfi að bjóða allri Evrópu afnotaréttinn á Íslandsmiðum. Þeir láta sig litlu varða hag íbúa sjávarbyggðanna, en snúast eins og snælda umhverfis þessu fáu sem eiga langstærsta hluta kvótans á Íslandi. Með aðild myndu þeir fá nýjan auðugan kaupendahóp að kvótanum og væntanlega myndi verðið hækka umtalsvert.

Það er ótrúleg niðurstaða að einkavæðing auðlindarinnar sé rekin áfram miskunnarlaust af vinstri mönnum en hafnað af hægri mönnum í Evrópu.

Athugasemdir