Besti Samherjinn

Pistlar
Share

Eftir þriggja ára bið hefur ríkisstjórn jafnaðarmanna loksins lagt fram á Alþingi tvö frumvörp um skipan mála í sjávarútvegi. Annað er um greiðslur til ríkisins fyrir afnot af sjávarauðlindinni með svonefndu veiðigjaldi og hitt er um stjórn fiskveiða og vinnslu. Frumvörpin eru um aðskilið efni og það er hægt að samþykkja annað án hins. Það þarf ekki að breyta leikreglunum í fiskveiðum til þess að hækka veiðigjaldið. Það er hægt að gera hvort tveggja og svo er hægt að breyta kvótakerfinu en hætta við hækkun á gjaldinu.

Hagsmunaaðilarnir og flokkar þeirra, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn kvarta undan áformum um hækkaða gjaldtöku sem eru í fyrra frumvarpinu og leggjast hart gegn því. Það er líklega ekki meirihluti fyrir því á Alþingi vegna andstöðu nokkurra stjórnarþingmanna, sem kjósa frekar styðja LÍÚ og þar með að ganga gegn eigin flokksstefnu. Það sem stjórnin vill þó gera til þess að efna eigin fyrirheit stendur völtum fótum og fullkomin óvissa ríkir um afdrif málsins.

En seinna málið er sérhagsmunaaðilunum sannkallað gleðiefni. Stjórnarflokkarnir hafa kastað fyrir borð stefnu sinni, sem þeir kynntu fyrir síðustu Alþingiskosningar, og tekið upp stefnu stjórnarandstöðuflokkanna, en herða þó frekar á en hitt á einokun og langtímaforræði valinna útgerðarmanna á nær öllum veiðirétti á Íslandsmiðum. Unnið verður áfram gegn jafnræði, gegn samkeppni, gegn verðmyndun á markaði, gegn samkeppni og gegn virkum eftirlitsstofnunum.

Áfram verður hringamyndun, markaðsyfirráð og markaðsmisnotkun á einstökum mörkuðum. Áfram verður hægt að færa hagnaðinn milli útgerðar og vinnslu og þaðan til sölufyrirtækja í útlöndum og fela hann þar. Áfram geta handhafar kvótans leigt hann, veðsett og selt og áfram geta þeir flutt veiðiheimildirnar hvert á land sem er. Áfram verður 95% kvótans er afhentur völdum útgerðarmönnum á verði sem er langt undir markaðsverði. Áfram verða sjómenn og landverkafólk réttlausir og sem lús milli tveggja nagla í höndum útvegsmanna. Áfram eiga útgerðarmennirnir einir kvótann. Það verður sem sé áfram framsóknarstefnan og íhaldsstefnan.

Það er hins vegar enginn vafi á því að mikill meirihluti er á Alþingi fyrir kvótafrumvarpinu sem „róttæki vinstri flokkurinn“ hefur samið fyrir ríkisstjórnina í nánu samráði við valinkunna útgerðarmenn. Líklegast er að niðurstaðan verði sú að seinna frumvarpið , um stjórn fiskveiða, verði samþykkt, og kvótinn afhentur varanlega til 20 ára ef ekki lengur, til fyrirframvalinna útgerðarmanna að þjóðinni forspurðri. Einhver hækkun á veiðigjaldinu gæti orðið, en hvenær sem er verður hægt að lækka það aftur án þess að það hafi nokkur áhrif til styttingar á einkanýtingartímanum.

Það þarf enginn að velkjast í vafa um það að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn munu við fyrsta tækifæri lækka veiðigjaldið og greinilegt er á forystu Vinstri grænna, sérstaklega formanni flokksins, að þeirra hugur stendur til þess líka. Hreinn hagnaður, eftir allan kostnað, afskriftir og árgreiðsluvexti, mun skipta háum fjárhæðum á næstu 20 árum, líklega ekki undir 1000 milljörðum króna. Til þessa hefur innan við 3% runnið til þjóðarinnar af hagnaðnum þann stutta tíma sem veiðigjald hefur verið við líði. Rúm 97% hagnaðarins hefur komið í hlut handhafa kvótans. Það finnst LÍÚ of lítið og ósanngjarnt og það finnst forystu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins líka.

Ef áform ríkisstjórnarinnar ganga eftir munu kjósendur ekki fá tækifæri til þess að segja sitt álit fyrr en við Alþingiskosningarnar á næsta ári og þá verður allt ráðabruggið um garð gengið. Þjóðin mun ekki geta breytt neinu fyrr en 2033, eftir 6. Alþingiskosningarnar héðan í frá. Ætlunin er að leysa deilurnar um skipan mála í sjávarútvegi með því að taka lýðræðið úr sambandi og svipta kjósendur rétti sínum til þess að ráða mikilsverðum málum til lykta.

Það er rétt að slík aðferð er árangursrík leið til þess að ljúka deilum. Hún er þekkt sums staðar erlendis. Það sem Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson þorðu aldrei og sennilega datt aldrei í hug gerir Steingrímur J. Sigfússon. En Steingrímur er róttækur vinstri maður og besti samherjinn.

Athugasemdir