Það er lýginni líkast…

Pistlar
Share

Það er lýginni líkast, að báðir stjórnarflokkarnir sögðu fyrir kosningar að kvótakerfið væri svo ranglát að það yrði að leggja það niður og taka upp nýtt kerfi, en núna vilja þeir framlengja sama kerfi til a.m.k. næstu 20 ára.

Það er lýginni líkast, að báðir stjórnarflokkarnir sögðu fyrir kosningar að tryggja yrði jafnræði milli aðila í aðgengi að auðlindinni með nýjum almennum reglum, núna leggja þeir til að 95% kvótans fari til sömu aðila og hafa hann nú.

Það er lýginni líkast, að báðir stjórnarflokkarnir sögðu fyrir kosningar að leiga á uppboðsmarkaði yrði meginreglan við endurúthlutun kvótans til þess að ná fram jafnræði, núna leggja þeir til að einungis 3% kvótans verði leigt á kvótamarkaði.

Það er lýginni líkast ,að stjórnarflokkarnir vilja gefa kvótahöfunum almenna tryggingu með 15 ára uppsagnarákvæði , sem má þó fyrst beita eftir 5 ár, en í núverandi kerfi er hvenær sem er hægt að breyta kvótaúthlutuninni.

Það er lýginni líkast, að stjórnarflokkarnir sögðu að tryggja yrði eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni, en núna ætla þeir sér að afnema rétt Alþingis næstu 20 árin til þess að breyta kvótalögunum bótalaust.

Það er lýginni líkast, að fyrir kosningar sögðu stjórnarflokkarnir að fara yrði að áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá desember 2007 um alvarlegan skort á jafnræði aðila til veiðiheimilda, núna segja stjórnarflokkarnir að jafnræðið sé uppfyllt í sama kerfi, vegna þess að strandveiðarnar eru opnar öllum, um 1,3% heildarkvótans.

Það er lýginni líkast, að stjórnarflokkarnir sem sögðu að einn versti galli kvótakerfisins væri sá, að handhafar kvótans geti selt kvótann burt úr sjávarbyggðunum hvenær sem er og hvert sem er , vilja vilja núna að þetta verði áfram hægt.

Það er lýginni líkast, að þeir sem sáu fyrir kosningar að ólíðandi er fyrir alþýðu manna að vera háða og undirokaða fáeinum handhöfum kvótans á Íslandi um atvinnu sína og afkomu skuli í nafni jafnaðarmanna ætla sér að kalla fram að nýju 19. aldar þjóðskipulag , þeirra sem eiga og ráða og hinna sem þegja, vinna og hlýða.

Það er lýginni líkast, þegar meirihluti kjósenda leiddi deiluna um kvótakerfið til lykta í síðustu alþingiskosningum og veitti stjórnarflokkunum umboð sitt á þeim grundvelli sem þeir lögðu fram, þá ákveða flokkarnir að framfylgja í forherti mynd stefnuninni sem var hafnað.

Það er lýginni líkast stjórnarflokkarnir sem vilja að þjóðin ákveði úrslit í stórum málum með almennri þjóðaratkvæðagreiðslu ætli sér núna að sniðganga þjóðina í einu stærsta deilumáli þjóðarinnar og binda hendur hennar til næstu 20 ára.

Það er lýginni líkast, að flokkarnir bera fram skýra stefnu fyrir kosningar, en snúa henni á rönguna eftir kosningar og finnst ekki einu sinni að það þurfi gefa kjósendum sínum skýringar hvað þá að biðjast afsökunar á vanefndunum.

Já, þetta er svo sannarlega lýginni líkast, en því miður allt satt.

Athugasemdir