Framsalið var 42% af öllum veiðiheimildum fiskveiðiárið 2008/9

Pistlar
Share

Pétur Pálsson, útgerðarmaður í Grindavík, heldur því fram í Fiskifréttum að ég hafi farið með rangfærslur um framsalið í kvótakerfinu. Segir hann að ég hafi vísað rangt í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá maí 2010. Skýrslan heitir skilvirkni markaða fyrir aflaheimildir og getur hver sem það vill leitað hana uppi á netinu.

Í skýrslunni er á bls 35 mynd 3-11 yfir leigt aflamark í kvótabundnum tegundum í aflamarkskerfinu árin 2002/2003 til 2008/2009. Þar sést glögglega að síðasta árið sem myndin nær til var 40% af öllum kvóta leigður og hefur hlutfallið aldrei verið hærra.
Á bls 36 er önnur yfir það sama fyrir krókaaflamarkskerfið. Viðskipti með krókaaflamark var tæplega 55% af heildarúthlutun fiskveiðiársins 2008/2009. Þegar saman eru lögð viðskiptin í báðum kerfum verður niðurstaðan að um 42% af heildarkvótanum var leigður út.

Um er að ræða samkvæmt myndunum svonefnd brúttóviðskipti. Á bls 31 í skýrslunni segir að brúttótalan „gefi til kynna heildarmagn viðskipta á hverju ári“. Það eru líka upplýsingar um svonefnd nettóviðskipti sem „tekur tillit til þess ef viðskipti eiga sér síðar stað með „sömu“ aflaheimildina“. Þetta þýðir að ef skýrsluhöfundur heldur að sama heimilid hafi verið framseld oftar en einu sinni að þá er hún aðeins talin framseld einu sinni. Nettótalan er því tilraun til þess að afskræma veruleikann. Engu að síður þá varð nettótalan um 27% af öllum aflaheimildum. Það er merkileg staðreynd að ætla má að sem svarar um 15% af öllum útgefnum veiðiheimildum í kvótakerfinu hafi verið framseld oftar en einu sinni áður en hún var að lokum veidd, ef hún var þá nokkuð veidd.

Þá stendur í skýrslunni á bls 36 „Í aflamarkskerfinu eiga kvótalausar útgerðir hlutfallslega mest viðskipti með aflamark í þorski en fiskveiðiárin 2002/2003 – 2008/2009 eru þessi viðskipti að jafnaði um ríflega 20% af heildarviðskiptum hvers árs. Síðasta árið voru þau þó mun meiri eða tæpur þriðjungur af heild“. Síðustu setningunni sleppti Pétur alveg og gat ekkert um. Þriðjungur af 42% heildarkvótans er um 14%. Það er hlutur kvótalausra útgerða í heildarveiðinni. Það er býsna mikið eða sjöundi hluti af öllu kvótakerfinu. Það sem kvótalausir geta borgað ættu hinir að geta borgað.

Pétur Pálsson gerir sig að rangfærslumanni og það er aum vörn, en er þó ekki verri en málstaður hans.

Athugasemdir