Pólitískar skopparakringlur

Pistlar
Share

Nýleg skýrsla svonefndar Verðtryggingarnefndar opinberar, óvænt kannski, djúpstæða kreppu í íslenskum stjórnmálum. Þeir sem eiga að leiða þjóðina út úr efnahagslegum erfiðleikum virðast margir hverjir álíka stefnufastir og skopparakringlur.

Nú er þörf er á því sem aldrei fyrr að leggja spilin á borðið af raunsæi og að væntingar taki mið af efnahagslegri stöðu þjóðarbúsins. Varast ber að láta eins og þeim vanda sem fjölmargir standa frammi fyrir eftir langvarandi góðæri og á köflum aðgátslitla einkaneyslu sé hægt að þeyta eitthvert út í buskann og þar með sé hann horfinn.

Fjórir nefndarmanna í Verðtryggingarnefndinni undir forystu tveggja alþingismanna tóku sér því miður þessa stöðu á pólitíska leiksviðinu með tillögum sem þeir hafa kynnt í tveimur greinum í Fréttablaðinu.

Fjórmenningarnir boða það sem skuldugir vilja sjálfsagt helst heyra, að þeir muni ekki þurfa að borga skuldir sínar að fullu. Lagt er til að raunvextir verði lækkaðir á gildandi lánum með handafli og beinlínis nefnt að tiltekin vaxtaprósenta sé á við 20% lækkun höfuðstóls skuldarinnar.

Eflaust er það einlægur vilji tillögumannanna að bæta efnahag skuldugs fólks, en þeim er það vel ljóst og það kemur fram í skýrslunni að aðrir muni greiða reikninginn. Skuldir hverfa ekki heldur aðeins færast til. Það sem einn sleppur við verður annar að borga. Það er kjarni málsins.

Hinir góðhjörtuðu nefndarmenn ætla með tillögu sinni lífeyrisþegunum að borga. Ellilífeyrir,sem lífeyrissjóðirnir greiða, verður lækkaður gangi tillögurnar eftir, bæði þeirra sem nú þegar taka út sinn lífeyri og eins hinna sem á næstu árum munu fara á eftirlaun. Þetta eru líklega milljarðatugir á hverju ári sem velta á frá þeim sem skulda yfir á herðar hinna sem hafa lagt fyrir til elliáranna. Gamla fólkið á að borga. Bæta á gamla fólkinu upp tekjuskerðinguna að einhverju leyti með því að hækka bætur almannatrygginga úr ríkissjóði.

Það fylgir ekki tillögunum hverjir eigi að borga þessi auknu ríkisútgjöld. Það gleymdist. Svona málflutningur er vandamál en ekki lausn og lýsir alvarlegri pólitískri kreppu.

Athugasemdir