Landsbankinn kann ekki að skammast sín

Pistlar
Share

Nýi bankinn sem ríkið setti á fót til þess að bjarga því sem bjargað varð úr Landsbankanum er nú kominn með nafn gamla bankans. Með því er eigandinn, ríkið, sérstaklega að skírskota til gamla gjaldþrota bankans og 100 ára sögu hans. Í heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu í dag áréttar Landsbankinn þetta og þar stendur „við skiptum ekki um nafn heldur hugarfar“.

Einmitt, já, en skipti bankinn nokkuð um hugarfar? Er þetta ekki bara gamalt úldið vín á gömlum belg? Fyrst áherslan er á að bankinn hafi haldið nafninu og hafi þannig séð ekki skipt um nafn og númer hvers vegna bætir þá bankinn ekki þeim viðskiptavinum gamla bankans og ríkissjóði tjón sem þeir urðu fyrir vegna sviksamlegs hugarfars bankans, nú þegar Landsbankinn segist vera hvítþveginn af gömlum syndum og telur sig þess umkominn að gefa milljarðatugi króna?

Rétt er að rifja aðeins upp söguna um peningamarkaðssjóðina í Landsbankanum. Þúsundir landsmanna áttu sparifé sitt í peningamarkaðssjóðum bankans. Þegar bankinn féll í október 2008 setti ríkissjóður 63 milljarða króna inn í þessa sjóði. Eftir því sem næst verður komist hefur um 40 milljörðum króna af þessu fé verið afskrifað sem tapað fé. Skattgreiðendur fá reikninginn og verða að borga hann. Ef Landsbankinn hefur virkilega skipt um hugarfar væri þá ekki eðlilegt að endurgreiða skattgreiðendum 40 milljarðana?

Einstaklingarnir sem áttu fé í peningamarkaðssjóðum Landsbankans töpuðu liðlega 30% af fé sínu þrátt fyrir inngrip ríkissjóðs. Það tap sýnist geta verið um 60 milljarðar króna. Væri það ekki til marks um nýtt hugarfar að bæta fólki eftir því sem unnt er tap sitt?
Það er ótrúlega óskammfeilið af bankanum að hefja auglýsingaherferð og ætla að bæta ímynd sína með því að leika Hróa hött svona í ljósi þess að „þeir var sem stolið var frá“ voru ekki beinlínis Fógetinn í Nottingham.

Sjálfur Egill Helgason segir á vef sínum 10. september 2010 að peningamarkaðssjóðirnir hafi verið ein stærsta svikamilla Íslandssögunnar. Í DV er 23. apríl 2010 viðtal við Helga Kr. Hjálmsson formann Landssambands eldri borgara. Helgi er ómyrkur í máli og segir að bankarnir hafi hagað sér eins og skepnur. Han bendir á að auk þess fjár sem eldri borgararnir töpuðu í peningamarkaðssjóðunum hafi þeir tapað um 30 milljörðum króna sem bundnir voru í hlutafé í bönkunum. Hann rekur dæmi þess að menn hafi verið gerðir út frá bönkunum til þess að hringja í gamla fólkið og fá það til þess að fá peningana sína út af sparireikningum inn á peningamarkaðssjóðina. Helgi segir orðrétt í viðtalinu: „Bankarnir höguðu sér alveg eins og skepnur. Ef starfsmenn vissu af einhverjum peningum inni á bók, þá hringdu þeir og kynntu sig sem ráðgjafa og fengu bónusa fyrir. Þetta var algjörlega siðlaust “

Í október 2008 er viðtal í Morgunblaðinu við eldri hjón Ómar Sigurðsson og Sigurbjörgu Eiríksdóttur. Fyrirsögnin er : „Segir starfsmenn hafa sagt ósatt um peningamarkaðsbréf”. Í viðtalinu er svo rakið hvernig bankinn beitti þjónustufulltrúa hjónanna fyrir sig til þess að fá þau til þess að færa sparifé sitt úr öruggum reikningi í peningamarkaðsbréfin. Viðtalið er ljót saga um bankamenn sem leyfðu sér að hnýsast í reikninga viðskiptavina bankans og hringja í þá og og blekkja og fá prósentur fyrir. Bankinn greiddu starfsmönnum bónus fyrir óknyttina. Það má segja að vissulega er þörf fyrir annað hugarfar í Landsbankanum.

Það væri til merkis um annað og betra hugarfar ef bankinn endurgreiddi þeim fyrst sem trúðu honum fyrir sparifé sínu og hann tældi og vélaði áður en farið er af stað í siðferðilega frekar vafasama ímyndarherferð á kostnað skattgreiðenda og gamals fólks. Í hverju liggur hið endurbætta hugarfar sem bankinn státar sig af? Enn sem komið er verður því miður ekki séð að Landsbankinn kunni að skammast sín.

Athugasemdir