Framsókn gengur í LÍÚ

Pistlar
Share

Á flokksþingi Framsóknarflokksins, sem falið var í skugga þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave, skýrðist nokkuð hvaða endurnýjun fólst í því að kjósa nýja forystu fyrir tveimur árum. Því miður er flokkurinn fjær því en fyrir hrun að hafa almannahagsmuni í fyrirrúmi. Hin nýja forysta hefur gengið lengra í því en þeir sem ýtt var til hliðar gerðu að gera flokkinn að verkfæri fyrir fáeina eignamenn og sérhagsmunaaðila.

Stærsta innlenda tekjuskiptingarmálið er hvernig tekjunum af fiskimiðunum er skipt milli landsmanna. Þau eru ein gjöfulustu fiskimið í heimi þar matvælaverð fer sífellt hækkandi með hverju ári. Enda fer hagnaðurinn af veiðum og vinnslu vaxandi og nemur mörgum tugum milljörðum króna á hverju ári. Handhafar kvótans hafa á undanförnum 15 árum tekið til sín ríflega 400 milljarða króna út úr greininni og gert sjávarútvegsfyrirtækjunum að greiða úttektina. Um 30-40 milljarðar króna munu árlega áfram verða færðir til handhafanna. Það eru aðeins 166 aðilar sem ráða yfir kvóta í þorski í aflamarkskerfinu, en í því er stærstu hluti þorskkvótans.

Á þeim tímum þegar almenningur er skattlagður sem aldrei fyrr til þess að borga fyrir hrunið og óreiðumennina þá svarar Framsóknarflokkurinn kalli skattgreiðenda með yfirlýsingu um algera einkavæðingu arðsins af sjávarauðlindinni. Flokkurinn endurtekur syndir fyrri forystumanna hans. Þeir einkavæddu viðskiptabankanna í hendur útvalinna góðvina forystumanna Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins og nú vilja nýju forystumennirnir einkavæða sjávarauðlindina í hendur útvalinna góðvina.

Flokkurinn er enn notaður sem verkfæri til þess að gefa stórfelld verðmæti. Enn eru í forystu flokksins menn sem eru fyrst og fremst að vinna fyrir fáa á kosnað margra. Nýja forystan hefur ekkert lært af mistökum þeirrar gömlu. Það er greinilegt að eitt hrun er ekki nóg.

Fyrir tæpum þremur árum seldi útgerðarmaður einn á Flateyri kvótann og hagnaðist um 1,5 – 2 milljarða króna. Hann flutti suður, en fólkið missti vinnuna og fékk ekkert að hagnaðinum. Sveitarfélagið fékk ekkert. Fólki hefur fækkað verulega eins og öðrum þorpum sem verða fyrir svona áfalli. Eignir þess falla í verði. Það hefur ekkert fengið bætt. Ekkert af kvótahagnaðinum var ráðstafað til almannaþarfa. Ekkert af hagnaðinum rann til þess að bæta búsetuskilyrði á Vestfjörðum. Þetta er ekki eina dæmið. Þau hafa verið mörg undanfarin ár og þau verða fleiri að óbreyttu.

Þessu svarar Framsóknarflokkurinn með því að segjast þá einu breytingu vilja gera að útvegsmennirnir fái samning um að hafa kvótann um aldur og ævi. Það á að gera samning við þá sem eru með kvóta í dag til 20 ára og framlengja hann vafningalaust á 5 ára fresti. Handhafar kvótans eiga áfram ekkert að greiða fyrir afnotin annað en málamyndagjald. Þeir eiga áfram að geta leigt öðrum kvótann á markaðsverði og innheimt hagnaðinn. Þeir eiga áfram að geta selt kvótann án nokkurrar greiðslu í ríkissjóð. Þeir eiga áfram að geta ráðið því hverjir eru þeim þóknanlegir og fái að veiða eða starfa í útgerð. Til þess að friða almenning er boðið upp á friðþægingu í formi potta. Það er eins og að henda nöguðum beinum fyrir hungraða úlfa. Þetta leggur flokkurinn til án þess að skammast sín.

Einokunin í sjávarútveginum hefur leitt af sér kostnað fyrir almenning, spillingu og haldið nýjum og betri athafnamönnum frá eins og einkunarkerfi hafa alltaf gert. Atvinnufrelsi og jafnræði þegnanna hefur líka alltaf verið svarið þegar einokuninni hefur verið umbylt. Það er úthlutunarkerfið sjálft sem er krabbameinið og það hefur dreifst um þjóðfélagið eftir því sem tíminn hefur liðið án þess að tekið væri á því.

Framsóknarflokkurinn vill gera illt verra. Hann vill koma í veg fyrir almannahag með því að ekki verði hægt að breyta löggjöfinni án þess að borga kvótagreifunum út arðinn næstu 20 ár hið minnsta. Flokkurinn gerir ýtrustu kröfur LÍÚ að opinberri stefnu sinni. Hann er sama sem genginn í LÍÚ.

Fyrir hvern var siðbótin í Framsóknarflokknum? Þegar svona hörð hagsmunagæsla er viðhöfð eru alltaf peningar í spilinu. Spurningarnar sem blasa við eru þessar: Hvers vegna er stjórnmálaflokkur að reisa borgarvirki utanum peningalega hagsmuni fárra? Hvað fær flokkurinn fyrir? Hvað fá forystumennirnir fyrir?

Ég veit ekki svarið við þessum spurningum en forystumenn stjórnmálaflokks sem svona vilja fara með arðinn af auðlind þjóðarinnar verða að gefa trúverðugar skýringar á framferði sínu.

Athugasemdir