Löggjafarvaldið til LÍÚ

Pistlar
Share

Samtök atvinnulífsins og Landssamband íslenskra útvegsmanna hafa gengið fram af þjóðinni. Mánuðum saman hafa þessi samtök haft upp stöðugar hótanir í garð stjórnvalda , launþega og reyndar þjóðarinnar allrar. Það er næsta víst að hrokinn og yfirlætið átti stóran þátt í því að þjóðin snerist síðustu vikuna gegn Icesave samningunum í almennri atkvæðagreiðslu og felldi þá með afgerandi mun. Fólki líkar ekki stórbokkaskapurinn og býsna margir sögðust ætla að sýna Vilhjálmi Egilssyni og félögum hans það í Icesaveatkvæðagreiðslunni þeir stjórnuðu ekki þjóðfélaginu og að það væri ekki þeirra hlutverk að setja lögin í landinu.

Hótanir gagnvart almenningi komu fram í kröfum SA og LÍÚ um samþykkt Icesave, að öðrum kosti yrði ekki gerður langtímakjarasamningur og launþegar fengju ekki langþráðar kjarabætur. Launahækkun var þannig tengd við úrslit í pólitísku deilumáli og refsing fylgdi ef ákvörðun kjósenda yrði SA og LÍÚ ekki að skapi.

Hótunum var beitt gagnvart stjórnvöldum sem sambærilegum hætti. Því var stöðugt hótað því aðeins yrðu gerðir þriggja ára kjarasamningar að ríkistjórnarflokkarnir hefðu kvótakerfið eins og LíÚ væri þóknarlegt. Aftur eru kjarabætur launþega notaðar sem svipa og refsing. Forsætisráðherra hefur staðið sig vel og tekið á móti þessu ofbeldi atvinnurekendavaldsins ein sog vera ber, með því að neita með öllu að láta löggjafarvaldið í hendurnar á LÍÚ og SA.

Þessir starfshættir manna sem hefur verið treyst fyrir auðlind þjóðarinnar undanfarin 20 ár eru mikið umhugsunarefni. Því má ekki gleyma að LÍú og SA átti fulltrúa í sérstakri stjórnskipaðri nefnd um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Þeir fengu að koma sínu sjónarmiði að. En þessir menn höguðu sér þar eins og þeir þeir hafa sýnt að undanförnu. Gengu út af fundum nefndarinnar og höfðu í hótunum við aðra fulltrúa sem og ríkisstjórnina og gerðu allt sem þeir gátu til þess að vinna gegn opinberri stefnu stjórnarflokkanna. Stefnu sem flokkarnir hafa meirihluta kjósenda á bak við sig til þess að hrinda í framkvæmd.

Auðvitað eiga stjórnvöld ekki að taka það í mál að afhenda LÍÚ og SA löggjafarvaldið, hvorki í þessi máli né öðrum. Þessir hagsmunaaðilar eru ekki með neitt umboð kjósenda og það stríðir gegn stjórnarskrá landsins að fámennur hópur manna staðfastlega ætli sér að taka sér löggjafarvaldið í hönd. Það er eiginlega tilraun til valdaráns sem LÍÚ og SA standa fyrir. Svo einbeittir eru þeir að framkvæmdastjóri SA svaraði forsætisráðherra með því að lýsa því yfir að þeir tækju ekki nei fyrir svar. Kjarabætur fáist aðeins fyrir kvótakerfið til næstu 50 ára.

Stærsta áhyggjuefni þjóðarinnar hlýtur að vera firringin og fráhvarfið frá lýðræðislegri þátttöku í þjóðfélaginu sem birtist í hegðun þessara ófyrirleitnu sérshagsmunahópa. Grunnskipulag þjóðfélagsins byggist á því að skipta valdinu og afmarka hvern þátt. Þegar ber á því fyrir opnum tjöldum að það skipulag er ekki virt af fleiri en einum aðila og þeir virða engin valdmörk er greinilega alvarleg staða uppi.

Athugasemdir