Sátt um atvinnufrelsi er sátt um byggðir

Pistlar
Share

Undirritaðir einstaklingar fagna þeirri ákvörðun stjórnarflokkanna að taka löggjöf um stjórn fiskveiða til heildstæðrar endurskoðunar og vilja leggja sitt af mörkum til þess að tekið verði tillit til hagsmuna samfélaga í sjávarbyggðum og til þess að loksins takist að færa löggjöfina og starfsumhverfi atvinnugreinarinnar að almennum og viðurkenndum leikreglum í atvinnulífi. Atvinnufrelsið, sem tryggt er í stjórnarskránni, verður að vera sá grundvöllur sem á er byggt. Atvinnfrelsi í sjávarútvegi er lífakkeri sjávarþorpanna allt í kringum landið og þegar fyrir það er tekið verða afleiðingarnar eins og sjá má í hnignandi byggð í öllum landsfjórðungum, fjötruð í böndum einokunar, ánauðar og arðráns.

Tekið er undir einlægar vonir stjórnvalda um sátt innan atvinnugreinarinnar og sátt í þjóðfélaginu um sjávarútveg landsmanna og allar þær tillögur sem við gerum miða að því að svo geti orðið og við bendum á að þær eru í fullu samræmi við boðaða samningaleið ríkisstjórnarinnar.

Fyrri tilraunir til þess að betrumbæta ranglæti kvótakerfisins hafa allar mistekist af þeirri einföldu ástæðu að ekki var hreyft við aðalmeinsemdinni, sjálfu úthlutunarkerfi veiðiheimildanna. Ekki verður lengur vikist undan því að færa almannahagsmuni framar sérhagsmunum. Tvær skýrslur, sem unnar voru á síðasta ári vegna endurskoðunar laganna um stjórn fiskveiða draga fram með skýrum hætti að í meginatriðum hefur mistekist að ná þeim markmiðum sem sett voru.

Sýnt er fram á í skýrslum Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri að gildandi löggjöf stuðlar að óhagkvæmri sókn, gífurlegri skuldasöfnun og útflæði fjármagns til fárra eigenda, samþjöppun veiðiheimilda, kemur í veg fyrir hagræðingu og framfarir í útgerð og að stunduð er umfangsmikil viðskipti með veiðiheimildir með gífurlegum hagnaði þar sem nýir menn í útgerð eru þolendur skipulegs og kerfisbundins arðráðs í þágu þeirra sem árlega fá veiðiheimildir nánast endurgjaldslaust en nýta einokunaraðstöðu sína til hins ýtrasta.

Engin framleiðniauking varð í útgerð frá 1991 til 2007 þrátt fyrir verulega samþjöppun veiðiheimilda en hún á sama tíma varð 74% á sama tíma í fiskvinnslunni, atvinnugrein sem er utan kvótakerfisins og býr við atvinnufrelsi og samkeppni.
Staðreyndin er sú að framsalið gerir mönnum kleift að halda árum saman einkaleyfi til veiða án þess að nýta það sjálfir en láta þess í stað aðra veiða fiskinn gegn himinháum skatti. Þetta fyrirkomulag með framsalinu hefur undir yfirvarpi hagræðingar endurvakið útdauða stéttaskiptingu í íslensku þjóðfélagi.

Stærsta áhyggjuefnið hlýtur þó að vera að algerlega hefur mistekist að byggja upp þorskstofninn og ástand stofnsins hefur á undanförnum árum fremur versnað en hitt. Ástæða er til þess að draga úr stjórn með aflamarki og auka þess í stað fjölbreytni í stjórnun t.d. með veiðarfærastýringu, friðun svæða og dreifinu álags á miðunum. Að lokum þarf að draga úr mengun og orkusóun við veiðarnar.

Fiskveiðar og fiskvinnsla – framtíðarsýn

Löggjöf um atvinnugreinina grundvallist á ákvæðum stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi og verði útfærð samkvæmt reglum um samkeppni sem almennt gilda í atvinnurekstri. Reglur verði almennar og gilda um sérhvern útgerðarflokk og allar vinnsluaðferðir. Jafnræði verði milli aðila í sjávarútvegi varðandi aðgang að fiski og veiðiheimildum.
Þjóðareign auðlindarinnar verði bundið í stjórnarskrá og staðfest með almennum aðgangi að miðunum sem verði ákvarðaður með lögum.

Hópurinn leggur til að þjóðareignin verði staðfest með almennum aðgangi að fiskimiðunum á þann hátt að hverjum manni verði heimilt að róa 5 daga í viku hverri allt árið ( 8 mánuði ársins) með handfæri án þess að afla sér sérstakra veiðiheimilda. Eigi verði fleiri en tveir menn á bát með allt að fjórum rúllum og hver róður má ekki standa lengur en xx klst.
Greitt verði auðlindagjald af hverjum veiddum fiski til hins opinbera sem skiptist að jöfnu milli landssvæða/sveitarfélaga og ríkisins. Auðlindagjald verði ákveðið hlutfall af markaðsverði fisksins og greiðist við sölu hans.

Greitt verði mengunargjald sambærilegt við það sem þegar er komið á í stóriðju og flugsamgöngum, sem endurspegli kostnað vegna mengunarinnar sem af veiðunum hlýst. Gjaldinu verði ætlað að stuðla að veiðum með sem minnstri mengun og hafa áhrif á val veiðarfæra og skipa til þess að svo verði. Mengunargjaldið reiknast einkum út frá olíunotkun og útblástursmengun tekur mið af heimsmarkaðsverði á CO2.

Fiskimiðunum umhverfis landið verði skipt í fjögur veiðisvæði. Hlutur hvers
svæðis í hverri fiskitegund af leyfðum heildarafla verði skv. veiði síðustu 20 ára. Hafrannsóknarstofnun getur lagt til að breyta veiðiálagi á tilgreindum miðum. Sérstakur markaður starfar á hverju svæði sem ráðstafar veiðiheimildum skv. þeim reglum sem ákveðnar verða. Auðlindagjald hvers svæðis skiptist að jöfnu milli þess og ríkisins.

Veiðiheimildir utan 200 mílna falla ekki undir ofangreind fjögur svæði og verði sérstakt svæði, svo og veiðiheimildir í djúpsjávar- og uppsjávartegundum, innan sem utan 200 mílna, sem samanlagt mynda fimmta veiðisvæðið. Vinnslu- og frystiskip hafa aðeins rétt til veiða á fimmta veiðisvæði.

Útgefnar veiðiheimildir veita aðeins rétt til veiða á tilgreindu veiðisvæði. Sérstakur markaður starfar á hverju svæði sem ráðstafar veiðiheimildum skv. reglum sem ákveðnar verða. Nauðsynlegt er að veiðiheimildir verði í boði sem oftast, t.d. vikulega og leigutíminn verði breytilegur en þó aldrei lengri en 10 ár. Auðlindagjald hvers svæðis skiptist að jöfnu milli þess og ríkisins.

Ríkið annast útleigu veiðiheimilda á markaði. Á hverju ári verði ákveðið hlutfall veiðiheimilda í boði á hverju veiðisvæði. Viðhaft verði uppboðsmarkaðsfyrirkomulag og gjaldið fyrir veiðiheimildirnar nefnist veiðiheimildagjald. Sérhver getur keppt um veiðiheimildir hvar sem er, en áfram gilda takmörk gegn samþjöppun svo sem um hámark heimilda í höndum skyldra aðila. Tekjur af veiðiheimildagjaldi skiptast jafnt milli svæðis og ríkis.

Beint framsal veiðiheimilda verði óheimilt.

Skilgreind verði strandhelgi umhverfis landið ( 12 – 25 mílur) og skylt verður að landa fiski veiddum innan hennar á viðkomandi veiðisvæði. Þær veiðar verði undanþegnar mengunargjaldi.

Jafnræði verði milli aðila í atvinnugreininni varðandi aðgang að veiðiheimildum og fiski.
Veiðar og vinnsla verði algerlega aðskilin og óheimilt að niðurgreiða kostnað eða með öðrum hætti að skekkja samkeppnisstöðu vinnslufyrirtækja með millfærslu frá útgerð til fiskvinnslu. Óheimilt verði einnig að selja fisk til vinnslu í beinni sölu á lægra verði en er á fiskmarkaði. Sérreglur vinnsluskipa verði felldar niður. Vinnsluskip komi með allan afla að landi.

Skylt verður að selja fisk innanlands. Erlendir aðilar hafi einungis heimild til þess að kaupa fisk á markaði.

Auðlindagjaldi verði m.a. ráðstafað til þess að greiða skuldir sem ríkið hefur yfirtekið vegna kerfisbreytingarinnar. Íbúar á hverju svæði taka ákvörðun um ráðstöfun á sínum hluta auðlindagjaldsins.

Aðlögun núverandi kerfis að nýju fyrirkomulagi

Nú þegar verði fjórðungur veiðiheimilda til reiðu eftir nýju kerfi og allar eftir 10 ár.
Handhafi kvóta eigi tvo kosti:

a. Semji um að halda kvótanum allt að 10 árum, en sæti þó skerðingum sem eru nauðsynlegar til þess að ná fram markmiðinu að ofan. Sannanleg fjárfesting í aflaheimildum síðastliðin 15 ár milli óskyldra aðila verði metin út frá kaupverði og forsendum hennar um nýtingartíma. Litið verði til þess að kaupverð sé í eðlilegu samhengi við fiskverð og að ekki haft þurft lengri tíma en 15 ár til þess að greiða fjárfestinguna. Útgerðarmanni verði bætt það sem vantar upp á að forsendur kaupanna standist vegna kerfisbreytingarinnar nú með lengri umsömdum nýtingartíma eða umsamdri fjárhæð.

b. Semji um að ríkið yfirtaki allar veiðiheimildarnar strax með sömu skilmálum og í a.

Kristinn H. Gunnarsson, Bolungavík
Ólafur Halldórsson, Ísafirði
Elín Björg Ragnarsdóttir, Reykjavík
Gísli Halldórsson, Ísafirði
Lýður Árnason, Hafnarfirði
Sigurður J. Hreinsson, Ísafirði
Magnús Reynir Guðmundsson, Ísafirði

Athugasemdir