Piris blæs á atkvæðamisvægi

Pistlar
Share

Þær bábiljur þrífast hér á landi að svonefnt misvægi atkvæða í Alþingiskosningum séu mannréttindabrot og stjórnmálafræðingar eru sagðir halda því fram að hvergi í heiminum hafi fundist jafnkerfisbundin mismunun og hér á landi.

Í stjórnarskránni er fjöldi þingsæta í hverju kjördæmi ákvarðaður þannig að misvægið er lítið og hreyfist í samræmi við breytingar á íbúafjölda. Þingsætum í Norðvesturkjördæmi hefur fækkað á aðeins 10 árum úr 10 í 8 og í Suðvesturkjördæmi hefur þeim á sama tíma fjölgað úr 11 í 13. Í heildina tekið hefur landsbyggðin örfá þingsæti umfram það sem íbúafjölda nemur.

Þessi ávinningur hefur engin áhrif landsbyggðinni í hag þegar litið er til þess að löggjafarþingið, ríkisstjórnin öll, ráðuneytin og nærfellt allar ríkisstofnanir eru í Reykjavík. Völdin eru um allt kerfið en kjósendur fá ekki að komast þeim, það er einfaldlega ekki kosið.

Í kosningu til Stjórnlagaþings er dreifbýlinu úthýst með einu kjördæmi í nafni mannréttinda en þeir sem það ákveða gera hins vegar harða kröfu um atkvæðamisvægi sér til handa þegar þeim hentar. Stjórnvöld hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu og Íslendingar krefjast 15 sinnum meira atkvæðavægi en Þjóðverjar hafa í kosningum til Evrópuþingisins. Það er nú öll virðingin fyrir mannréttindinum.

Þetta má lesa í viðtali í Fréttablaðinu um þarsíðustu helgi við Jean-Claude Piris, sem er sagður innmúraður Evrópusambandsmaður, sem hafi verið ráðgjafi ráðherraráðs sambandsins og yfirmaður lögfræðideildar þess. Piris segir um áhrif Íslands: „Á Evrópuþinginu yrðu auðvitað fáir íslenskir þingmenn, sex talsins, en það er hlutfallslega mikið ef miðað er til dæmis við Þýskaland. Evrópuþingmaður frá Þýskalandi er fulltrúi tólf sinnum fleiri íbúa en þingmaður frá Möltu [413.000 íbúar]. Þeir eru samt hvor með sitt atkvæði. Í Evrópudómstólnum hefðuð þið svo einn dómara rétt eins og Þýskaland, Frakkland og Bretland“.

Evrópusambandið gætir þess að fámenn ríki hafi völd og áhrif umfram íbúafjölda. Hvað segja þeir Ólafur Harðarson og Þorvaldur Gylfason nú um kerfisbundnu mannréttindabrotin? Hver yrðu áhrif Íslendinga ef Evrópusambandið væri eitt kjördæmi? Svar: Engin.

Athugasemdir