Gamlar hugmyndir endurvaktar – byggðakvóti fénýttur á uppboði

Pistlar
Share

Í Ríkisútvarpinu voru fréttir í gær um hugmyndir Vopnfirðinga um ráðstöfun byggðakvótans. Þeir vilja að þeir sem fái byggðakvóta greiði sveitarsjóði fyrir sem svarar helmingi markaðsverðs leigu kvóta. Þetta eru ekki nýjar hugmyndir. Fyrir fáum árum varð það niðurstaða bæjarstjórnar Vesturbyggðar eftir miklar umræður og vangaveltur að útgerðarmenn greiddu sveitarsjóði fyrir byggðakvótann. Eina færa leiðin væri að bjóða byggðakvótann upp og að allir hefðu möguleika á að bjóða í hann. Tekjurnar rynnu svo í sveitarsjóð og myndu þannig efla og styrkja sveitarfélagið.

Þessi formlega niðurstaða bæjarstjórnarinnar fékk ekki brautargengi í sjávarútvegsráðuneytinu og áfram var því að boði ráðuneytisins fetuð bitlingaleiðin, þar sem ókeypis kvóta er úthlutað í sveitarstjórn til handvalinna útgerðarmanna. Auðvitað vilja allir fá ókeypis peninga og LÍÚ hefur róið undir eftir mætti og heimtað til sinna félagsmanna skerf af gjafafénu. Endalausar deilur hafa geisað árum saman um úthlutun byggðakvótans og verður að óbreyttu ekkert lát á þeim. Egill Skallagrímsson vissi svo sem hvernig mannlegt eðli er og hvernig best væri að efna til illinda og deilna og sýndi það með áformum sínum um að dreifa gulli á Alþingi.

Byggðakvóti er ekkert annað en ópíum sem ætlað er að lina þjáningar vegna afleiðinga framsalsins og er gefið fólkinu í sjávarþorpunum svo það haldi að stjórnvöld vilji gera eitthvað því til góða. Ópíumið deyfir sársaukann um sinn og kvótakerfið fær frið til þess að halda áfram skemmdarverki sínu á eigum og ævistarfi almennings í þorpunum.

En það að gefa einum ókeypis það sem annar verður að kaupa dýrum dómum á leigumarkaði LÍÚ skapar mismun milli aðila í útgerð og vinnslu. Einn getur greitt hærra verð fyrir næsta lausa leigukvóta í krafti þess að hann fær frá ríkinu ókeypis byggðakvóta og yfirbýður annan sem verður að greiða fullt verð fyrir allar símar aflaheimildir.

Í byggðakvótanum kristallast glæpur kvótakerfisins. Ríkið lætur suma fá verðmæti án endurgjalds og heimilar þeim að fénýta verðmætin með sölu til annarra og stinga þeim í eigin vasa. Í atvinnugreininni eru aðilar að vinna og keppa á ólíkum forsendum og ríkið mismunar þeim fjárhagslega. Heilbrigð aðhaæd samkeppninnar eru ekki fyrir hendi heldur aðeins arðráð selstöðukaupmanna sem ríkið hefur komið á fót.

Eina leiðin er að allir sitji við sama borð varðandi greiðslur og aðgang að veiðiheimildum. Þess vegna varð það niðurstaða bæjarstjórnar Vesturbyggðar að bjóða upp byggðakvótann og styrkja byggðina með andvirðinu. Það sama gildir um ríkið sjálft. Það getur ekki komist að annarri niðurstöðu.

Athugasemdir