Val án veggjalds – jafnræði

Pistlar
Share

Fyrirhugaðar vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu munu bæta lífsskilyrði þar og styrkja sérstaklega byggðarlögin á Suðurnesjum og í Árnessýslu. Á tímum mikils atvinnuleysis koma þessar framkvæmdir sér vel. Vegfarendur njóta ávinningsins strax, en þó ekki að fullu þann tíma sem sérstakt veggjald verður innheimt. Efnahagslegur ávinningur verður vegna minni slysakostnaðar og styttri ferðatíma. Það leiðir af sér hærra fasteignaverð, lægra vöruverð, aukið atvinnuúrval og atvinnuöryggi í byggðarlögunum utan Reykjavíkur svo það helsta sé nefnt.

Áhrifin verða líka gagnkvæm og munu styrkja höfuðborgarsvæðið. Ítarlegar rannsóknir sem Vífill Karlsson, hagfræðingur hefur gert á áhrifum Hvalfjarðarganga staðfesta þetta. Hann vann sérstaka skýrslu , sem kom út í október 2004, fyrir samtök sveitarfélaga á Vesturlandi um áhrif Hvalfjarðarganga á búsetuskilyrði og búsetuþróun á Vesturlandi.

Niðurstaða skýrslunnar er að árlegur ávinningur sé um 500 milljónir króna (m.v. verðlag 2004) einkum vegna lægri ferðakostnaðar og lægra vöruverðs. Að auki hafði verð fasteigna hækkað um 10 – 20%. Til viðbótar þarf svo að meta ávinning íbúa utan Vesturlands, sem er líka umtalsverður. Þrátt fyrir að vegfarendur um Hvalfjarðargöng greiði veggjald þá hafa þeir og íbúar á áhrifasvæði vegabótanna nú þegar haft mikill fjárhagslegan ávinning af göngunum eins og að framan má sjá.

Á sínum tíma voru valkostirnir tveir, annars vegar að gera Hvalfjarðargöngin og greiða veggjald eða bíða í óvissu um hvort eða hvenær framfarirnar yrðu. Allir,sem í hlut eiga, hafa haft ávinning af því að veggjaldaleiðin var farin, íbúar á höfuðborgarsvæðinu, á Vesturlandi, Vestfjörðum , Norðurlandi og víðar.

Veggjaldið hefur dregið úr mesta mögulega ávinning eins og gefur að skilja og hann mun ekki koma fram að fullu fyrr en göngin hafa verið greidd upp og gjaldið afnumið í kjölfarið. Vífill Karlsson hefur líka lagt mat á kostnað við veggjaldið. Að minni beiðni reiknaði hann út þennan kostnað í desember 2004 og komst að því að ef veggjaldið yrði fellt niður myndi ávinningur Vestlendinga verða um 4,5 – 5,0 milljarðar króna að núvirði á þeim tíma. Það jafngilti um 270-300 milljónir króna á ári.

Þessar upplýsingar koma fram í lagafrumvarpi sem ég flutti ásmt þremur öðurm þingmönnum á haustdögum 2007. Samandregin niðurstaða er sú að um 60% af ávinningnum af Hvalfjarðargöngunum hefur þegar skilað sér til vegfarenda þrátt fyrir veggjaldið og að 40% af heildarávinningnum muni skila sér þegar gjaldið verður fellt niður.

Sama mun verða upp á teningnum með framkvæmdirnar austur fyrir Fjall og til Suðurnesja, ef á annað borð bættir vegir skila framförum. Séu vegirnir nú þegar svo góðir að tvöföldun þeirra og aðrar endurbætur skila engu þá á ekki að ráðast í framkvæmdirnar, hvorki með gjaldi né án þess og hvorki nú né síðar. Þá er staðan einfaldlega þannig að endimörkum framfara er náð og frekari framkvæmdir einungis sóun á opinberu fé. Hins vegar er enginn þeirrar skoðunar að svo sé raunin og þess vegna er kallað eftir vegabótum.

Vegfarendur til Suðurnesja og austur í Árnessýslu eru jafnsettir vegfarendum norður á bóginn frá Reykjavík þótt veggjald verði tekið. Þeir geta í öllum tilvikum með nýjum Suðurstrandarvegi komist leiðar sinnar án veggjalds og án þess að leiðin lengist að ráði umfram það sem Skagamenn og Borgfirðingar búa við.

Íbúar á Selfossi, Hveragerði og Þorlákshöfn geta allir ekið til Reykjavíkur eftir Suðurstrandarvegi, sem verður væntanlega fullbúinn á þessu ári, án nokkurs veggjalds. Fyrir Selfyssingana verður vegalengin 100 km í stað 52 km um Hringveginn. Lengingin verður mest 48 km en til samanburðar þá er leiðin um Hvalfjörð 42 km lengri um fjörðinn en í gegnum göngin. Fyrir Keflvíkinga verður leiðin til Reykjavíkur um Suðurstrandarveg 80 km í stað 42 km eftir Reykjanesbrautinni. Þeir eiga alltaf val án veggjalds, og þar með er jafnræðis gætt milli umferðar í allar áttir frá Reykjavík. Núverandi ástand mismunar vegfarendum eftir búsetu og ívilnar Suðurnesjum og Suðurlandi á kostnað byggðarinnar norðar Hvalfjarðar. Slíkt stríðir gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um jafnræði þegnanna.

Það sem skiptir máli er hver er kostnaðurinn við framkvæmdirnar sem greiða á með veggjaldinu og hver verður ávinningur umferðarinnar af þeim framkvæmdum. Hafa verður í huga að þegar er búið að leggja fullbúinn tveggja akreina malbikaðan veg sem ber samkvæmt evrópskum stöðlum meiri umferð en nú er hvort heldur er um Hellisheiði og til Selfoss eða til Keflavíkur. Eðlilegt er að umferðin sjálf kosti að mestu kostnað af umframkröfunum þar sem svo háttar til.

Því aðeins er skynsamlegt að ráðast í framkvæmdirnar að umtalsverður arður sé af þeim. Sé arðurinn óverulegur þá eru framkvæmdirnar ekki réttlætanlegar yfirhöfuð óháð bollaleggingum um veggjald. Séu hins vegar framkvæmdirnar ábatasamar er eðlilegt að flýta því með veggjaldi að vegfarendur geti notið hans.

Athugasemdir