Húsbændur og hjú Þorvaldar

Pistlar
Share

Stjórnlagaþingskosningarnar skiluðu því sem að var stefnt, stjórnlagaþingi þar sem fólki af landsbyggðinni er úthýst. Helsti sigurvegarinn Þorvaldur Gylfason var ánægður með niðurstöðuna og hafði engar áhyggjur af stöðu landsbyggðarinnar. Hann sagði í sjónvarpsviðtali fyrir fjórum vikum að borg og sveit væru systur og að þeim myndi sem góðum systrum semja vel á stjórnlagaþinginu.

Þorvaldur telur hins vegar að þeim systrum semji illa í kjördæmafyrirkomulaginu sem notað er við Alþingiskosningar, þar sem of margar systur sveitarinnar sitja til borðs með borginni. Það skipulag segir Þorvaldur að sé bæði ranglátt og orsaki spillingu í stjórnmálunum. Yfirlýsing Þorvaldar er þá sú að sveitasystir geti ekki gætt hlutar borgarsystur og því þurfi borgarsystirirn að gera það sjálf og þar að auki verði borgarsystirnin að taka að sér hlutverk sveitadömunnar enda sé sveitasystirin síður fær um það. Að öðrum kosti muni þeim systrum ekki semja.

Þá verður niðurstaðan eins og á stjórnlagaþinginu, sem er framundan, að sveitasysturinni er vísað frá borði og er ætlað það eitt að þjóna hinum útvöldu og óspilltu til borðs, þegjandi og hljóðalaust. Krafan um jafnt vægi atkvæða er ekki þegar allt er á botninn hvolft, krafa um jafnræði í afmörkuðum skilningi, heldur yfirlýsing um að hinir hæfari búi í borginni og hinir vanhæfari og spilltari þar fyrir utan.

Þorvaldur Gylfason fellst fúslega á þær leikreglur að konur á höfuðborgarsvæðinu eigi að fá sínar kynsystur sem sína fulltrúa á stjórnlagaþinginu og að hann geti ekki verið kosinn fulltrúi þeirra. En hann er fullkomlega sannfærður um það að hann eigi að vera fulltrúi kjósenda sveitarinnar, karla sem kvenna. Þeir kjósendur eru að hans mati af einhverjum ástæðum ekki þess verðugir að velja úr sínum hópi fulltrúa á fulltrúasamkomu þjóðarinnar. Ef svo yrði áfram þá mun þeim systrum borg og sveit ekki semja vel.

Eina fyrirkomulagið sem Þorvaldur og skoðanabræður hans boða að friður geti verið um er 19. aldar stéttaskipting þjóðarinnar í húsbændur og hjú með jafnaðarstefnu þar sem sumir eru jafnari en aðrir.

Athugasemdir