Menningin blómstrar á Vestfjörðum

Pistlar
Share

Þrátt fyrir að Vestfirðingar haft mátt búa við langvarandi andstreymi á fjölmörgum sviðum með tilsvarandi misrétti eru þeir í sókn í menningarmálum. Leiklistin eflist og dafnar og þar hefur Elfar Logi Hannesson unnið þrekvirki á fáum árum. Því hefðu fáir trúað þegar betur áraði í vestfirskum byggðum að grundvöllur væri fyrir atvinnuleikara, en engu að síður hefur Elfari Loga tekist ætlunarverk sitt í almennum efnahagsþrengungum víðs fjarri styrkjaumhverfi ríkisins á Höfuðborgarsvæðinu og er að auki kominn með góðan liðsauka. Nýlega var borinn í hús veglegur bæklingur þar sem kynnt var vestfirska leikárið 2010-2011. Hvorki meira né minna en 10 verk eru á vegum Kómedíuleikhússins, Act alone, leikdeild Höfrungs og Litla leikklúbbsins, velflest runnin upp úr vestfirskum jarðvegi að efni til. Geri aðrir betur.

Ísfirðingar hafa áratugum saman leitt blómlegt tónlistarstarf og síst verið eftirbátar annarra landsmanna í þeim efnum. Svo virðist sem söngkórar á Vestfjörðum eflist eftir því sem kreppan verður verri. Kvennakór Ísafjarðar er aðeins þriggja ára og er þegar að verða einn af bestu kórum landsins undir stjórn Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttur. Kórinn er skipaður 18 söngkonum og hélt afbragðs tónleika í Ísafjarðarkirkju seint í nóvember og sýndi þar styrk sinn og samhæfingu. Það er athyglisvert hversu ungar margar konurnar eru og það er góðs viti fyrir kórinn. En það er líka góð tíðindi fyrir byggðirnar, því að áhuginn og ánægjan sem fylgir tónlistinni lýsir því að fólkinu líður vel þar sem það er. Á bak við þessa einu tónleika eru margar stundir við æfingar og kórinn þyrfti eiginlega að halda fleiri tónleika og leyfa fleirum tónleikagestum að njóta söngsins.

Karlakórinn Ernir er afsprengi batnandi samganga á norðanverðum Vestfjörðum. Karlakórarnir á Ísafirði og í Bolungarvík voru sameinaðir árið 1988 og eftir opnum Vestfjarðaganga 1995 gátu Súgfirðingar, Önfirðingar og Dýrfirðingar með góðu móti slegist í hópinn. Síðustu ár hefur kórinn starfað af miklum krafti og haldið tónleika fyrir jól og aftur að vori ár hvert. Síðastliðinn sunnudag hélt kórinn veglega tónleika fyrir fullu húsi í Ísafjarðarkirkju. Sungin voru 19 lög af nýútkomnum diski karlakórsins og tókust tónleikarnir í alla staði vel. Karlakórinn Ernir hefur tekið miklum framförum eins og diskurinn ber með sér og þrotlausar æfingar síðan í haust undir stjórn Beáta Joo hafa skapað sterkan kór sem Vestfirðingar geta verið stoltir af.

Fyllsta ástæða er til þess að óska báðum kórunum til hamingju með tónleikana og jafnframt að þakka þeim fyrir það að leggja á sig mikla vinnu og æfingar til þess að gleðja Vestfirðinga með söng sínum. Lífið er ekki bara saltfiskur og menningarlíf er hverjum manni þörf og hverju byggðarlagi nauðsynlegt. Tónleikar kóranna fyrir þessi jól hafa styrkt og eflt mannlífið norður við ysta haf.

Er samt fjarri því að allt sé upptalið á þessu sviði menningarinnar á Vestfjörðum. Aðrir góðir kórar starfa, svo sem Sunnukórinn á Ísafirði, kvennakórinn Norðurljós á Hólmavík og nýstofnaður karlakór Vestri á Patreksfirði svo fáeinir séu nefndir. Væri hægt að halda mikla menningarhátíð á Ísafirði á vordögum ef þangað væri stefnt söng- og öðru listafólki Vestfirðinga. Kannski að það verði gert, hver veit.

En nú er rétt að halda jól og geyma fram yfir nýárið að huga að baráttuaðferðum og vopnum sem munu breyta vörn í sókn, færa Vestfirðinga úr gervi þolanda í hlutverk geranda.

Athugasemdir