Lýðveldið Reykjavík

Pistlar
Share

Þá vita landsmenn hvað „landið eitt kjördæmi“ þýðir. Það þýðir lýðveldiðReykjavík. Tuttugu og tveir af 25 fulltrúum á stjórnlagaþing eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu, en aðeins þrír utan þess. Í Reykjavík sjálfri búa 14 eða 56% þingfulltrúa og í nágrannabæjunum Kópavogi, Garðabæ, Álftanesi og Hafnarfirði koma 8 fulltrúar. Samtals eru 88% þingfulltrúa af þessu svæði.

Tveir Akureyringar voru kosnir,en Akureyri er eina sveitarfélagið utan höfuðborgarsvæðisins, sem er það fjölmennt að kjósendur þar geta gert sér góðar vonir um að ráða kosningu einhverra fulltrúa. Segja má að Ari Teitsson sé eini fulltrúi landsbyggðarinnar utan Akureyrar sem náði kjöri. Hann hefur vafalaust notið stuðnings bænda og Eyfirðinga umfram aðra, svo það er óvíst hvort hann hefði náð kjöri án þess að eiga Akureyringana að.

Niðurstaðan er skýr. Þegar landið er eitt kjördæmi komast aðeins að fulltrúar af höfuðborgarsvæðinu og frá Akureyri. Enginn frambjóðandi af Vestfjörðum náði kjöri, enginn frá Vesturlandi, enginn frá Norðurlandi vestra, enginn frá Austurlandi, enginn frá Suðurlandi og enginn frá Suðurnesjum. Lýðveldið Ísland smækkaði í lýðveldið Reykjavík.

Þetta er engin tilviljun og ekki heldur neitt slys. Þetta er það sem mjög margir stefna að og vilja að verði komið á í alþingiskosningum. Fjölmargir frambjóðendur lýstu því skýrt og skorinort yfir að hlutverk stjórnlagaþings væri að afnema landsbyggðarkjördæmin og koma á enu kjördæmi fyrir allt landið. Þessi söngur endurómaði í Reykjavíkurfjölmiðlunum dagana fyrir kosningarnar á laugardaginn.

Misvægi atkvæða í núverandi kjördæmafyrirkomulagi er talið vera mannréttindabrot gagnvart íbúum höfuðborgarsvæðisins og ávísun á kjördæmapot, sem er víst það versta sem hægt er að ástunda í stjórnmálum. Misvægið er þó innan marka sem stjórnarskráin setur og á sér víða fordæmi erlendis. Í þessu „óskabarni réttlætisins“ á landsbyggðin víðast hvar enga fulltrúa og atkvæði kjósanda þar hefur ekkert vægi, nema ef til vill til þess að hafa einhver áhrif á það hvaða fulltrúar höfuðborgarsvæðisins ná kjöri.

Nú verður fróðlegt að fylgjast með því hvort atkvæðamisvægið sé bara mannréttindabrot á annan veginn, en fjölmiðlarnir í Reykjavík eru því miður ekki líklegir til þess að gefa því gaum.

Athugasemdir