Berufsverbot í landbúnaði

Pistlar
Share

Framleiðslustyrkjakerfið í mjólkurframleiðslu er komið í slíkt öngstræti að nú á að afnema atvinnufrelsið og koma á lokuðu kerfi einokunar. Ríkið hefur lengi kosið að styrkja mjólkurframleiðslu með háum árlegum fjárfjármlögum til þess að bæta kjör bænda og tryggja landsmönnum innlendar mjólkurvörur.

Rauði þráðurinn í styrktarkerfinu hefur verið sá að hver maður getur kosið að standa utan kerfisins og ákveðið að stunda atvinnu sína eins og stjórnarskrá Íslands heimilar honum. Hinir sem starfa innan kerfisins taka á sig kvaðir um takmörkun framleiðslu, verðlagningu og fleira sem ákveðið er í sérstökum lögum. Þetta er sérstaklega dregið fram í ágætu áliti lögfræðinga Landbúnaðarráðuneytisins frá 4. apríl 2005 og rakið hvernig þess hefur verið gætt að virða rétt manna til atvinnunnar og vera á eigin vegum utan hins opinbera styrkjakerfis.

Ríkisstjórnin stefnir nú að því með víðtækum stuðningi stjórnarandstöðunnar að setja lög síðar á árinu og banna sérstaklega að framleiða og selja mjólk utan styrktarkerfisins og gera atvinnuna refsiverða að lögum, berufsverbot. Atvinnufrelsinu er ætlað að víkja fyrir þörfum styrkjakerfisins. Landbúnaðarnefnd Alþingis leitaði ekki eftir umsögnum við ráðagerðina og leggur í áliti sínu stjórnarskrárvernduðu frelsi manna til atvinnu að jöfnu við sérhagsmuni án tillits til samfélagslegra hagsmuna. Hér hefur marga rekið langt af leið og frekar er þörf á því að virða gildandi stjórnarskrá en að setja nýja, þegar grundvallarhugtök eru svo mjög á reiki sem þetta mál ber vitni um.

Það fer ekki á milli mála að framsal ríkisstuðningsins milli framleiðenda er orsökin. Kaup á kvóta hefur gert mjólkurframleiðsluna að skuldsettri atvinnugrein, líkt og í sjávarútveginum. Bændur verða viðkvæmir fyrir samkeppni frá utankerfisframleiðendum. Viðbrögðin verða þau að útiloka þá áhættu, loka framleiðendahópnum og koma á einokun. Viðskiptabankarnir knýja á þetta enda þeirra hagur sem lánveitenda. Þetta eru röng viðbrögð eins og alltaf þegar einokun er valin og atvinnufrelsinu hafnað. Það er kerfið sem vandinn en ekki frelsið.

Framsalið hefur leitt til þess að fjármagnið sem ríkið leggur fram sem styrk rennur að miklu leyti til þess að standa undir auknum skuldum og sem vaxtagreiðslur til lánadrottna, en bætir ekki kjör bændanna. Kvótakerfið er hér komið í sama skuldaöngstrætið og í sjávarútveginum. Lausnin felst í því að endurskoða ríkisstuðningskerfið og láta það bæta lífskjör starfandi bænda, t.d. með því að auka frelsi þeirra fremur en að takmarka það. Berufsverbot er aldrei lausn.

Atvinnufrelsi manna hefur verið tryggt í stjórnarskrá frá upphafi og veitir öllum frelsi til þess að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Því frelsi má setja skorður með lögum enda krefjist almannahagsmunir þess. Þetta var áréttað 1995 þegar Alþingi endurskoðaði mannréttindakafla stjórnarskrárinnar undir forystu Geirs H. Haarde og Ragnars Arnalds . Ákvæðið var styrkt og ríkari áhersla lögð á meginregluna um atvinnufrelsið og að sama skapi þrengd heimildin til þess að takmarka það með lögum.

Fyrirhuguð lagasetning rúmast engan veginn innan heimilda stjórnarskrárinnar. Það eru engir almannahagsmunir í því að fá fáeinum mönnum öll ráð í mjólkurframleiðslu og úrvinnslu afurða, gera þeim kleift að draga fé út úr greininni og senda skuldirnar sem reikning til skattgreiðenda. Það þarf ekki að takmarka framleiðslu til verndar á landi. Það er hægt að flytja inn búvörur ef á þarf að halda. Það eru engir almannahagsmunir fólgnir í því að gera frjálsa menn að glæpamönnum, leggja á þá fésektir og jafnvel setja á þá handjárn. Það eru varla almannahagsmunir í óbreyttu ríkisstyrkjakerfinu sjálfu sem er ætlunin að vernda.

Það er skynsamlegt að styðja landbúnað og stuðla að framboði af innlendum búvörum. Íslensk þjóð er betur sett með dugmikla bændastétt en án hennar. En hún er verr sett með styrkjakerfi sem lifir í sjálfu sér, fyrir sjálft sig og endar með því að svíða allt í kringum sig. Ákvæði stjórnarskrárinnar voru sett að yfirveguðu ráði, eiga fullan rétt á sér og vernda almannahag, ólíkt fyrirhugaðri lagasetningu.

Athugasemdir