ESA gerði athugasemdir við löggjöf um innstæðutryggingar

Pistlar
Share

Í Morgunblaðinu í dag er leitað eftir svörum við því hvort ESA hafi gert athugasemdir á símum tíma við innleiðingu tilskipana ESB um innstæðutryggingar í íslensk lög. Tilefnið er að skrifstofa Evrópusambandskommisarsins Barnier svarar því til við norska netmiðilinn ABC Nyheter að Íslendingar hafi ekki innleitt tilskipunina á réttan hátt og það sé því ein ástæða þess að íslenska ríkið beri ábyrgð á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda. Tveir fyrrverandi viðskiptaráðherrar fullyrða það í blaðinu að ESA hafi engar athugasemdir gert við innleiðinguna.

Vissulega skiptir þetta máli, sérstaklega fyrst ein skrifstofa framkvæmdastjórnar ESB ber þessu við. Við athugun kemur reyndar í ljós að ESA gerði athugasemd við íslensku löggjöfina og henni var breytt í framhaldi af því til samræmis við ábendingar ESA. Íslenska útgáfan veitti innstæðueigendum lakari tryggingarvernd en evrópska tilskipunin og ESA gerði athugasemd við það. Í samræmi við EES samninginn og EES lögin íslensku þar sem íslensk stjórnvöld skuldbinda sig til þess að fylgja samræmdri túlkun og framkvæmd og þar sem kveðið er á um forgang EES löggjafar fram yfir innlendrar lagaákvæða ef þau stangast á, þá varð að breyta íslensku innleiðingunni og það var gert.

Í tilskipuninni 97/9/EB um tryggingarkerfi fyrir fjárfesta er mælt svo fyrir að skuldbindingar skuli njóta tryggingarverndar þar til starfsleyfi fjármálafyrirtækis er afturkallað, en í innleiðingunni frá 1996 voru aðeins þær skuldbindingar sem stofnað er til áður en frestur fjármálafyrirtækis rennur út til þess að uppfylla skyldur sínar, sem nutu tryggingarverndarinnar. Þarna var munur sem gat skipt máli og hefði svo sannarlega gert það ef ekki hefði verið brugðist við. T.d. þeir sem lögðu inn á Icesave reikningana eftir að athugasemdir höfðu verið gerðar við innstæðusöfnun Landsbankann en áður en hann fór í þrot hefðu að óbreyttu ekki notið verndar Tryggingarsjóðsins.

Viðskiptaráðherra brást við athugasemdum ESA og lagði fram í byrjun október 2002 frumvarp til laga á 128. löggjafarþingi á þingskjali 184, sem varð að lögum í desember sama ár. Ráðherrann upplýsti að frumvarpið væri lagt fram vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA við innleiðingu tiskipunar 97/9/EB um tryggingarkerfi fyrir fjárfesta, en gat þess ekki hvenær athugasemdirnar hefðu verið gerðar. Lögin sem ESA gerði athugasemdir við voru sett haustið 1999 á 125. löggjafarþingi. Þá var steypt saman í ein lög tveimur ESB tilskipunum. 94/19 um innstæðutryggingar og 97/9 um tryggingarkerfi fyrir fjárfesta. Áður hafði fyrri tilskipunin verið lögfest í maí 1996 á 120. löggjafarþingi.

Athugasemd ESA var við 8. grein laganna frá 1999, en sú grein var samhljóða tiltekinni lagagrein í upphaflegu lagasetningunni frá 1996, um innstæðutryggingarnar og sagði fyrir um hvað gerðist þegar fjármálafyrirtæki uppfylltu ekki lengur skyldur sínar gagnvart Tryggingarsjóði innlánsstofnana. Niðurstaðan í stuttu máli er sú að ESA gerði athugasemdir við innleiðingu tilskipunar um innstæðutryggingar. Tilskipunin var innleidd í lög á Alþingi 1996 og 1999 og lögunum breytt 2002. Það var Valgerður Sverrisdóttir sem var viðskiptaráðherra þá og lagði frumvarpið fram á Alþingi og mælti fyrir breytingunni.

Það er svo næsta spurning hvort athugasemd ESA og svörin frá skrifstofu Barniers rími saman. Það sýnist mér ekki vera. Svörin nú eru þau að gallarnir við innleiðinguna á sínum tíma hafi verið þeir að geta Tryggingarkerfisins hafi ekki tekið mið af stærð íslenska bankakerfisins og áhættunnar í því. Þessar athugasemdir komu ekki fram á sínum tíma, enda varla ástæða til þess. Við fyrstu lagasetninguna, árið 1996, var staðan þannig að í Tryggingarsjóðnum voru við stofnun hans 1800 – 1900 milljónir króna, sem var vel yfir þeim 1% mörkum sem tilskipunin setti. Þetta var nánast óbreytt þremur árum síðar, á haustdögum 1999. Þá voru tryggingarskyldar innstæður í árslok 1998 um 208 milljarðar króna og í sjóðnum voru eignir sem námu 1,27% af innstæðunum. Það voru engin efni til þess 1996 og 1999 að gera athugasemdir við stærð Tryggingarsjóðsins og styrk hans.

En það sem greinilega aflaga fór gerðist síðar, þegar bankakerfið óx af miklum hraða landi og þjóð langt yfir höfuð. Áhættusæknin varð óstöðvandi og við það jókst að sama skapi áhætta innstæðueigenda og ábyrgð tryggingarkerfisins. Við fall bankanna eru innstæðurnar orðnar um 2700 milljarðar króna og höfðu þrettánfaldast frá áramótum 1998. Það var á ábyrgð íslenskra stjórnvalda og eftirlitsaðila, undan því verður ekki vikist, sama hversu súrt í brotið það er.

Samkvæmt tilskipuninni er það á ábyrgð stjórnvalda í hverju ríki að setja á fót tryggingarkerfi sem ræður við að tryggja innstæðurnar og bregðast við í tíma ef í óefni stefnir. Það var ekki brugðist við fyrr en um seinan. Þess vegna er það rétt sem fjármálaráðherra segir í Morgunblaðinu í dag að þessi svör frá ESB breyta ekki neinu í grundvallaratriðum.

Athugasemdir