ESB: Til hvers aðild ef sérstaðan er aðalatriðið?

Pistlar
Share

Í Fréttablaði dagsins er greint frá innihaldi sérstakrar greinargerðar um afstöðu ríkisstjórnarinnar til komandi viðræðna við Evrópusambandið um aðild Íslands að sambandinu. Fyrirsögn fréttarinnar segir kannski allt sem segja þarf: Áhersla á sérstöðu Íslands. Af þessu tilefni vaknar sú eðlilega spurning: til hvers er verið að sækja um aðild að ESB ef Íslendingar draga fram fjölmarga þætti í lögum og reglum ESB sem eru óaðgengilegir fyrir þá? Hvers konar viðræður eru það um aðild lands að reglum ríkjasambands, sem snúast fyrst og fremst um það að landið verði undanþegið reglunum? Hvers konar aðild felst í sérstökum frávikssamningi? Hið augljósa svar er að Íslendingar eru ekki tilbúnir að lúta sömu reglum og önnur ríki Evrópusambandsins og þá eiga þeir ekkert erindi inn í sambandið.

Lítum aðeins á það sem fram kemur í greinargerðinni. „Ísland yrði minnsta, strjálbýlasta og vestasta aðildarríki ESB. Það er langt frá hinum ríkjunum og glímir við óblíða náttúru. Þessar staðreyndir eru til merkis um sérstöðu Íslands og munu móta viðræðurnar.“ Stærstur hluti greinargerðarinnar fjallar um sérstöðu Íslendinga hvað varðar sjávarútveg, landbúnað og byggðaþróun. Íslandingar vilja halda öllum sérlausnum sem viðurkenndar eru í EES samningnum. Þar má nefna reglur um fjárfestingu og um orku- og umhverfismál. Einnig sérreglur um eignarrétt og yfirráð yfir orkuauðlindum og vatni og ekki hvað síst um sjávarútveg og hvalveiðar.

„Sameiginleg sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins var ekki hönnuð með íslenskar aðstæður í huga“ segir í greinargerðinni og „sameiginlega landbúnaðarstefnan var ekki hönnuð með norðlægar aðstæður í huga“. Þá stendur þetta líka: „Tryggja þarf stjórn Íslendinga á nýtingu okkar fiskistofna. Þessu má ná fram með því að skilgreina Ísland sem sérstakt stjórnunarsvæði undir yfirráðum Íslendinga.“ Allt þetta er í dag eins og við viljum hafa það. Hvers konar aðild er það að þurfa gefa það frá sér sem mikilvægast er talið og berjast svo í viðræðum fyrir því að endurheimta það?

Íslensk ábyrgð á Icesave innstæðum Landsbankans er eitt af því sem fylgdi því að fjármálafyrirtæki störfuðu eftir sömu reglum í öllum löndum EES. Allir stjórnmálaflokkar hér á landi halda því hins vegar blákalt fram að þau samevrópsku lög EES samningsins gildi öðru vísi á Íslandi en í hinum löndunum. Íslendingar geti ef þeim sýnist svo tryggt allar innstæður íslendinga en beri engar skyldur við útlendinga og innstæður þeirra. Það er ekkert minnst á þetta í frásögn Fréttablaðsins af greinargerðinni, en væntanlega munu Íslensk stjórnvöld halda til haga skýlausum rétti sínum til áframhaldandi sérstöðu á framkvæmd samevrópskrar löggjafar.

Þetta er einkennileg greinargerð til stuðnings því að sækja um aðild að ESB. Í stað þess að gera grein fyrir kostunum og leitast við að sannfæra lesendur um ágæti aðildar fyrir land og þjóð virðist greinargerðin vera ein samfelld varnarræða fyrir undanþágur, sérstöðu og sérskoðanir. Aðild er varla tímabær þegar svo slælega fyrir henni talað.

Athugasemdir