Stöð 2 í áróðri fyrir kvótakerfið

Pistlar
Share

Undanfarna daga hefur fréttastofa Stöðvar 2 haldið uppi hörðum vörum fyrir kvótakerfið með umfjöllun sinni um úthafrækjuveiðar sem verða öllum frjálsar á næsta fiskveiðiári. Kannski er það ekki ætlun fréttamannanna sem í hlut eiga, en slíkur er málflutningurinn að önnur skýring er ekki nærtækari. Þau Þorbjörn Þórðarson og Guðrún Helga Sigurðardóttir skulda áhorfendum stöðvarinnar skýringar á efnistökum sínum og misnoktun á fjölmiðli.

Sunnudaginn 8. ágúst er því haldið fram að útlit sé fyrir að 1300 milljóna króna útlán Byggðastofnunar muni tapast þar sem úthafsrækjuveiðar hafi verið gefnar frjálsar næsta fiskveiðiár. Kosnaðurinn muni falla á ríkissjóð sem þurfi að leggja stofnuninni til fé til þess að bæta henni tapið. Rökstuðningurinn er sá að með frjálsum veiðum sé kvótinn orðinn sé orðinn verðlaus. Í gær er svo bætt um betur og því haldið fram i að afnám kvótasetningarinnar hafi kippt fótunum undan rekstrargrundvelli nokkurra viðskiptavina Byggðastonunar sem eru í þessari atvinnugrein.

En fréttaflutningurinn hefur þann skýra boðskap að þegar hróflað er við kvótakerfinu þá fái ríkið fjárhagslegan skell. Þetta er í stuttu máli fréttaflutningurinn á Stöð 2. Áhorfendum er sagt berum orðum að best sé að láta kvótakefið í friði vilji skattgreiðendur ekki fá reikninginn sem kvótafyrirtækin eiga að greiða. Fréttamennirnir gera sér auðvitað grein fyrir þessu, þeir vita hvað þeir eru að gera. Þess vegna skulda þeir áhorfendum skýringar á framgöngu sinni.

Við hann er margt að athuga. Í fyrsta lagi það augljósa að þótt rýrni veð til tryggingar láni þá ber skuldaranum áfram að standa skil á láninu. Stöð 2 er þarna að ala á því viðhorfi að lántakandinn geti með þægilegu móti losnað við skuldirnar og kastað þeim í fang skattgreiðenda. Það er ekki svo, en því miður hefur það gert of oft að fyrirtæki eins og til dæmis eigandi Stöðvar 2 hafi með kennitölutilfærslum skilið milljarða króna skuld eftir og látið aðra um að borga þær. Það ábyrgðarlausa háttarlag er ekki fordæmi sem fréttastöð Stöðvar 2 á að vera notuð til þess að mæla bót, heldur þvert á móti er þetta víti til varnaðar. Það á að halda á lofti ábyrgð skuldara á eigin skuldum hvað sem líði breytilegu verðmati veða til sem settar eru til tryggingar skilvísri greiðslu á skuldinni. Byggðastofnun hefur ekki tapað umræddum útistandandi lánum heldur ber fyrirtækjunum eftir sem áður að greiða sínar skuldir.

Í öðru lagi þá er fyrst og fremst rekstur fyrirtækjanna sem skapar verðmætin eða peningana sem greiða niður lánin. Í fréttaflutningunum er látið eins og lánin séu eingöngu greidd með verðmæti kvótans og að reksturinn skipti engu máli. Aðstæður í greininni hafa á þessu ári, að sögn LÍÚ breyst til batnaðar og afkoma fyrirtækjanna að sama skapi. Með öðrum orðum getan til þess að standa undir afborgunum skulda hefur vaxið. Veðið kann að hafa rýrnað í verði en getan til þess að borga skuldirnar hefur vaxið. Það eru því líklega meiri líkur á því að lán Byggðastofnunar verði greidd en áður var.

Í þriðja lagi er algerlega litið framhjá athyglisverðri staðreynd sem þó kom fram í einni fréttinni. Undanfarin ár hefur verðmæti rækjukvótans verið fært í bækur fyrirtækjanna á miklu hærra en leiguverð kvótans þessi ár gaf tilefni til. Með öðrum orðum þá hafi verðmæti kvótans verið verulega ofmetið til þess að búa til eign, sem svo var í raun og veru ekki til staðar þegar á reyndi. Þetta hefur komið skýrt fram í kvótakerfinu almennt á undanförnum árum. Verð á þorskkvóta var spennt upp ár frá ári en hrundi eins og spilaborg þegar í ljós kom blekkingin á fjármálamarkaðnum og er nú innan við helmingur af því sem hæst var. Spilaborgin var skjól til þess að skuldsetja mörg sjávarútvegsfyrirtæki langt umfram getu til þess að borga.

Vandaðir fréttamenn hefðu vakið athygli á þessu og bent almenningi á að sjálfur grundvöllur kvótakerfisins sé vandamálið og hafi kostað almenning gríðarlegar fjárhæðir í afskrifuðum skuldum fyrirtækja í sjávarútvegi. Þeir hefði líka bent á, ef þeir væru óháðir útrásarvíkingunum og slíkum pörupiltum, að sérstaklega væri nauðsynlegt að breyta kerfinu til þess að koma í veg fyrir að leikurinn, eignabóla í kvóta, verði síðar endurtekinn með sömu fyrirsjáanlegum afleiðingum, að skattgreiðendur verða látnir borga. Þeir hefðu bent á að skynsamlegra kvótakerfi hefði komið í veg fyrir fjárdrátt úr sjávarútvegi upp á hundruð milljarða króna og að fyrirtækin gætu borgað skuldirnar sínar.

Þeir dagar koma vonandi síðar á Stöð 2.

Athugasemdir