Að skaða þjóðfélagið en verja flokkinn

Pistlar
Share

Það hefur eðlilega vakið athygli að þingmenn í vandræðum hafa lagt áherslu á að skaða ekki flokkinn sinn. Forgangsröðunin sker í augu þar sem gjörðir þeirra eru taldar hafa skaða þjóðfélagið. Gagnrýnislaus flokkshollustan var það ópíum sem bar forystumenn þjóðarinnar í annarlegu ástandi að feigðarósi. Þeir sem áttu að stjórna var stjórnað. Almannahagur vék fyrir gróðahag. Heilbrigð skynsemi og dómgreind komst ekki að þar sem of margir voru með þessa röngu forgangsröðun. Svo fór sem fór vegna þess að þetta gekk of lengi.

Hollustan við flokkinn og forystuna vék til hliðar almennum skilningi á muninum á réttu og röngu. Forystuna bar af leið og lofaði svik og pretti. Það þótti eðlilegt að finna smugu á lögum og hagnýta hana sér til fjárhagslega ávinnings en öðrum til stórfellds skaða. Hvergi í lögum er bein heimild til þess að selja kvóta en samt hefur það viðgengist án nokkurra reglna um þau viðskipti. Vald fáeinna ráðherra gerði þessari meinvarpi kleift að verða til. Hollusta við þá og flokkinn færði þeim valdið. Ráðherravald fáeinna forystumanna færði „athafnamönnum“ á öðrum sviðum sams konar svigrúm til þess að skara eld að eigin köku.

Það var innrætt hugarfar skilyrðislausrar hollustu við flokkinn og forystumenn hans og það var skylda hvers manns sem vildi komast eitthvað áfram í stjórnmálum að spila með liðinu. Með þessu hugarfari komu þægir og meðfærilegir þingmenn. Hagsmunaðilar eða öllu heldur sérhagsmunaaðilar voru hinir eiginlegu ráðamenn flokkanna. Þeir dældu milljónum og jafnvel milljónatugum í flokkssjóði eða kosningasjóði einstakra þingmanna á höfuðborgarsvæðinu. Æ sér gjöf til gjalda. Á landsbyggðinni hafa kvótaeigendur ráðið framgangi frambjóðenda og þingmanna í gömlu ríkisstjórnarflokkunum. Í þeim flokkum eru fáir þingmenn landsbyggðarinnar sem þora að styðja breytingar á kvótakerfinu.

Glögg dæmi blasa við. Borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, sem kjörinn var 2006, sagði af sér skyndilega og hefur nú látið af starfi ritstjóra fjölmiðils um tíma. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt af sér embætti varaformanns flokksins og vikið af Alþingi um sinn. Báðir seldu þeir sig undir hagsmunaaðila til þess að komast áfram og nýttu sér aðstöðuna sem þeir komust í sér til fjárhagslega ávinnings. Þeir spiluðu í fjárhættuhættuspili fjármálamarkaðarins eftir sérreglum sem voru búnar til fyrir útvalda. Samkvæmt þeim reglum var bara hægt að græða. Ef tap varð á spilinu þá lenti það á öðrum.

Í þessu ljósi er það dómgreindarbrestur að verja beri flokkinn fyrir áfalli. Flokkarnir eru sjúkir og þeir verða ekki læknaðir með því verja þá. Framsóknarflokkurinn gekk kannski flokka lengst þegar hann rak þingmann sinn fyrir það að spila ekki með liðinu. Nú er hverjum manni ljóst að á þeim árum var flokkurinn að ganga fram af bjargbrúninni og það bjargaði honum ekki þótt allir „fórnuðu“ sér fyrir flokkinn.

Það sem ber að gera er að gera stjórnmálaflokka að samtökum þar sem heilbrigð skynsemi og dómgreind ráða för. Í slíkum endurbættum flokkum munu ekki þrífast spilltir eiginhagsmunastjórnmálamenn. Kannski þess vegna vilja þeir verja flokkinn sinn.

Athugasemdir