Sjálfskaparvítið frá 2006

Pistlar
Share

Það var á árinu 2006 sem fjárfreku prófkjörin fóru fram. Þá tók út yfir allan þjófabálk fjáraustur fyrirtækja á útvalda og valinkunna frambjóðendur í Framsóknarflokknum, Samfylkingu og Sjálfstæðisflokknum í kjördæmunum á höfuðborgarsvæðinu. Frambjóðendur í áhrifastöðum eða á uppleið með velvild flokksforystunnar voru stórtækastur eða kannski á að segja að þangað hafi féð leitað ótilkvatt og af eigin hvötum.

Nú engjast þeir hinir sömu og flokkar þeirra undan kröfum almennings um skýringar. Spurt er hvað var verið að kaupa. Ekki neitt er svarið. Jú, kannski stuðning við frelsi einstaklingsins, jafnaðarstefnuna eða lága verðbólgu. Bankarnir voru örugglega bara að styðja stjórnmálamenn sem væru á tánum vakandi yfir hagsmunum lands og þjóðar og legðu sig fram um vandaða löggjöf og þróttmikið eftirlit. Meira um það síðar.

En þetta er algerlega sjálfskaparvíti stjórnmálaflokkanna. Þeir komu sér saman um það að seinka því að setja reglur um fjármál stjórnmálaflokkanna og frambjóðendur. Lögin voru ekki sett fyrr en í desember 2006, þegar öll stóru prófkjörin voru afstaðin. Til þess að ekkert færi milli mála þá var sett sérstakt ákvæði sem gerði það að verkum að ákvæði laganna um prófkjör tæku ekki gildi fyrr en 1. júní 2007. Það var meðvituð ákvörðun að leyfa fjáraustursprófkjörin.

Það var í þágu þeirra frambjóðenda sem lengst gengu að hafa lögin svona. Þeir vissu líka á þessum tíma í hvað stefndi og sá allra stórtækasti í hópi frambjóðenda sat í nefnd stjórnmálaflokkanna sem samdi reglurnar. Hann vissi þá í öllum meginatriðum hvernig reglurnar myndu verða, var þá líklega búinn að fallast á forsendurnar og samþykkja að miklar hættur fælust í takmarkalausum fjárgjöfum til stjórnmálamanna, en fór í prófkjör og gekk gegn öllum reglunum sem hann vildi setja.

Nefndin var skipuð í júlí 2005 og skilaði af sér 22. nóvember 2006. Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík var í endaðan október 2006 og Samfylkingin hélt sitt 11. nóvember. Auðvitað var það leikur einn að ljúka starfinu og jafnvel líka að setja lögin fyrir prófkjörin ef vilji var fyrir hendi. En það var einmitt mergur málsins, flokkarnir vildu halda óheftu prófkjörin fyrst. Þegar einmitt hvað mestar líkur voru á því að annmarkar og spilling fjáraustursins myndi hellast yfir stjórnmálin sem aldrei fyrr.

Það var fyrir þrýsting erlendis frá sem löggjöfin var sett. Evrópuráðið samþykkti árið 2003 að beina því til aðildarríkjanna að setja reglur gegn spillingu í tengslum við fjármögnun stjórnmálaflokkanna og kosningabaráttu. Það er lýsandi dæmi fyrir íslensku stjórnmálaflokkanna að það þarf erlenda aðila til þess að knýja fram umbætur og loksins þegar undan er látið eru settar undanþágur fyrst í stað.

Frammistaða stjórnmálaflokkanna í þessari lagasetningu er ekki mikið til þess hæla sér af. Málið var lokað inni í nefnd sem formenn stjórnmálaflokkanna skipuðu. Það var kynnt fyrir þingmönnum í lokin og keyrt með hraði í gegnum Alþingi á tveimur dögum. Frumvarpið var ekki sent til umsagnar til neins aðila. Það var forysta flokkanna sem samdi frumvarpið, lagði það fram, ræddu það sín í milli, kölluðu sjálfa sig til umsagnar og afgreiddu það sjálfir. Þjóðfélaginu kom greinilega þetta ekkert við. SUS segi ég það til hróss að hafa mótmælt opinberlega.

Þingmönnum var uppálagt að þegja og taka ekki til máls í þingsalnum. Þögn og skyndiafgreiðsla voru fyrirmælin frá flokksformönnunum Geir Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Jóni Sigurðssyni, Steingrími J. Sigfússyni og Guðjóni A. Kristjánssyni til þingmannanna. Það þótti ekki gott fyrir flokkana að umræður færu fram á Alþingi.

Það voru líklega ekki nema tveir þingmenn sem neituðu að hlýða og tóku til máls. Ég leyfi mér að halda því fram að ræða mín frá 9. desember 2006 hafi enst vel og eigi enn fullt erindi í þjóðmálarumræðuna.

Það var samtrygging stjórnmálaflokkanna um framlengingu á varasömu fyrirkomulagi sem leiddi til „bankaprófkjaranna“. Sjálfskaparvítin eru verst.

Athugasemdir