Frá spuna að staðreyndum

Pistlar
Share

Fréttaflutningur af Icesave málinu hefur æði mikið borið keim af spuna til þess að villa um fyrir almenningi. Það er málflutningur undir fölsku flaggi. Því miður hafa of margir fjölmiðlar verðir misnotaðir af of mörgum fréttamönnum og stjórnmálamönnum til þess að villa um fyrir fólki. Tilgangurinn er sá að færa ábyrgðina frá sér til annarra. Gamalkunnugt ráð við svona aðstæður er að sameina þjóðina í órofa andstöðu við ósanngjarnan og ófyrirleitinn andstæðing sem vill fara illa með þjóðina í krafti aflsmunar. Gegn þessum óvini standa svo hinir góðu og fórnfúsu. Bretar og Hollendingar voru gerðir að þessum óvini íslenskrar þjóðar, stundum líka Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn, Evrópusambandið eða Norðurlandaþjóðirnar. Þetta hefur verið langvarandi og víðtækur spuni innanlands til heimabrúks.

Ritstjóri Morgunblaðsins, Davíð Oddsson, hefur verið í forystu þeirra sem svona láta og blaðið hefur óspart verið notað til þessara verka. Tekist hefur undanfarið ár að láta allt snúast um Icesave innstæðurnar erlendis, þótt það má sé aðeins hluti af heildarvandanum. Fyrir vikið hefur kastljósið færst af ábyrgð og þætti þeirra sem voru í ríkisstjórn eða stýrðu mikilvægri stofnun eins og Seðlabankanum. Þess í stað eru erlendir aðilar gerðir að blórabögglum. Svo langt gengur múgsefjunin að ótrúlega margir láta eins og það sé aðeins ein skoðun rétt og þeir sem ekki eru sammála henni mega sitja undir ásökunum um að vera í „hinu liðinu“ og eru jafnvel sakaðir um landráð.

Út úr þessum áróðurspuna verður að koma umræðunni og færa hana að efnisatriðum málsins. Draga fram staðreyndir og álitamál. Nú þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er að koma út gefst tækifæri til þess að losna undan spunanum. Fjölmiðlar leika stærsta hlutverkið í úrvinnslu skýrslunnar og þeir mega ekki bregðast þjóðinni. Hagsmunir einstaklinga, viðskiptajöfra eða stjórnmálaflokka mega ekki stýra framhaldinu. Það eru almannahagsmunir sem eiga að vera í fyrirrúmi. Vissulega verður það ekki þægilegt að horfast í augu við staðreyndir og viðurkenna að ýmislegt í erlendri sem innlendri gagnrýni á við gild rök að styðjast.

Nýlegt dæmi um spunann var laugardaginn fyrir páska. Þá birti Morgunblaðið á forsíðu blaðsins uppsláttarfrétt um Icesave málið. Sagt var að Bretar og Hollendingar væru fallnir frá einhliða skilmálum fyrir frekari viðræðum, sem þeir settu eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Ennfremur kom fram í fréttinni að líklegt væri að samningaviðræður myndu hefjast á ný í vikunni eftir páska.

Nú er vikan liðin og ekkert hefur frést af viðræðunum fyrirhuguðu. Hins vegar flutti t.d. Fréttablaðið þriðjudaginn 6. apríl þá frétt að engir fundir væru á dagskrá. Einn samninganefndarmanna Íslendinga, Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri, upplýsti að engar ákvarðanir hafi verið teknar um viðræður en bjóst við að á „allra næstu dögum réðist hvort og hvenær af samningum verður“. Fjármálaráðherra sagði í sama viðtali það vera oftúlkun á stöðunni að Bretar og Hollendingar hefðu fallið frá fyrirvörum sínum fyrir frekari viðræðum. Hann sagði engar nýjar fréttir af málinu en „vonast sé til að enn sé svigrúm til samninga“.

Það var sem sé ekkert hæft í frétt Morgunblaðsins. Agnes Bragadóttir var einfaldlega að búa til frétt en ekki að segja frétt. Ég tel að markmiðið hafi verið að beina athyglinni frá umræðu um neikvæð áhrif þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Morgunblaðið og margir fleiri héldu því fram að þjóðaratkvæðagreiðslan væri tæki til þess að ná betri samningum. Það hefur ekki gerst og það sem verra er viðræðurnar sigldu í strand.

Í Morgunblaðsfréttinni komu reyndar fram þær nýju upplýsingar að Bretar og Hollendingar hefðu brugðist við þjóðaratkvæðagreiðslunni með því að setja frekari skilyrði en áður voru. Með öðrum orðum áhrifin voru þveröfug við það sem ætlað var. Af einhverjum ástæðum fór eitthvað lítið fyrir fréttaflutningi um þetta. Upplýsingarnar um þessi viðbrögð Breta og Hollendinga komu eiginlega óvart fram, enda nauðsynlegt að segja frá þeim þegar á að flytja frétt um að fallið hefði verið frá viðbótarskilyrðunum. Það hefur líka farið mjög lítið fyrir leiðréttingu í Morgunblaðinu á laugardagsfréttinni. Svona gerist þegar tilgangurinn hættir að vera sá að flytja fréttir og verður að verja fyrri málflutning.

Það er spuninn. Honum fylgir sá vandi að menn festast í eigin neti og eiga erfitt með að losna úr því hversu ónákvæmur, villandi eða rangur sem spuninn er. Þá vill það verða þrautaráðið að hanga eins og hundur á roði á vitleysunni jafnvel löngu eftir að gögn og staðreyndir hafa gert málflutninginn marklausann. Rannsóknarskýrslan er tækifæri til þess að leiðrétta og vinna á þeim grunni sem skýrslan vonandi gefur til þess að marka stefnuna fram á veginn.

Athugasemdir