Eldurinn brennur á Íslendingum.

Pistlar
Share

Nú eru liðnar röskar þrjár vikur síðan þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave fór fram og rykið farið að setjast sem þyrlað var upp í aðdraganda hennar. Myndin sem við blasir er allt önnur en þjóðinni var talin trú um. Atkvæðagreiðslan varð engin lausn, Bretar og Hollendingar láta sér fátt um finnast, almenningur í Evrópu veit varla af málinu og það eru Íslendingar sem sitja með vandann í fanginu, á þeim brennur eldurinn.

Þetta er ekki það þjóðinni var sagt. Henni var talin trú um að með því að fella Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslunni með afgerandi hætti myndi Bretum og Hollendingum verða send slík skilaboð að þeir þyrðu ekki annað en að semja hið bráðasta og fallast á kröfur Íslendinga áður en þjóðin hætti við að borga yfirhöfuð nokkuð. Þjóðin sendi sín skilaboð en það gerðist ekkert annað en hið gagnstæða. Engar viðræður urðu og Bretar og Hollendingar setja skilyrði fyrir frekari viðræðum sem Íslensk stjórnvöld geta ekki sætt sig við.

Nú er talið ólíklegt að nokkrar viðræður verði fyrr en um mitt ár. Báðar þjóðirnar eru jafnstaðfastar og áður, ef ekki enn ákveðnari, að víkja ekki frá því að lágmarkstrygginguna verði Íslendingar að greiða og að um ekkert sé að semja nema skilmála endurgreiðslunnar, vexti og lánstíma. Sömu skilaboð koma frá öðrum þjóðum sem láta sig málið varða, Íslendingar verða að viðurkenna skuldina og semja um greiðslu á henni.

Vandinn brennur á meðan á Íslendingum. Icesave hefur engin áhrif í Bretlandi og Hollandi. Almenningur styður stjórnvöld í því að greiða sparifjáreigendum fé sitt á Icesave reikningunum og ríkissjóðum landanna munar lítið um að bera kostnaðinn þann tíma sem tefst að semja við Íslendinga. Töfin á því að ljúka málinu kostar hins vegar Íslendinga stórfé. Það gengur erfiðlega að fá lánaða peninga erlendis. Svo verður áfram meðan ekki ríkir traust á Íslendingum sem lántakendum. Fyrir vikið seinkar uppbyggingu efnahagslífsins, minni hagvöxtur verður, meira atvinnuleysi, meiri verðbólga, meiri útgjöld og minni tekjur.

Afleiðingar þjóðaratkvæðagreiðslunnar eru á kostnað almennings á Íslandi. Það kom ekki fram í spunanum sem fram fór í fjölmiðlum. Þar voru margir sem lögðust á eitt til þess að villa fólki sýn. Innlendir aðilar kepptust við að draga upp þá mynd að útlendingar, Bretar og Hollendingar væru vondir við smáþjóðina. Það hentar vel þeim sem bera mesta pólitíska ábyrgð á hruninu að búa til óvin í útlöndum, kenna honum um ófarirnar og þjappa þjóðinni á bak við hina raunverulega skálka. Þetta er spuni til innanlandsbrúks. Eiginhagsmunir hafa verið settir ofar þjóðarhag og á það jafnt við flokkshagsmuni sem persónulegan hag einstaklinga í fyrirtækjum eða stofnunum. Spuninn undanfarna mánuði hefur verið samfelldur hvítþvottur innlendra aðila sem vita upp á sig skömmina.

Ýmsir erlendir aðilar blönduðu sér inn í umræðuna innanlands og hjálpuðu til við þennan hvítþvott. Þeir reyndust meira og minna vera að hugsa um eigin hag en ekki Íslendinga og notfærðu sér Icesave málið sér til framdráttar í pólitískri umræðu í sinum heimalöndum. Það má segja að þeir hafi spilað með landsmenn. Franskir græningjar eru í baráttu við heimskapitalismann, breskir íhaldsmenn vilja koma höggi á ríkisstjórn Verkamannaflokksins og kanadískur „sérfræðingur“ vildi fá að græða á óförum Íslendinga. Þrátt fyrir allan spunann þá er staðreyndin sú að varla finnst nokkur maður í Bretlandi og Hollandi sem telur að Icesave innstæðurnar hafi ekki verið tryggðar og þeir eru fáir sem vilja að Bretar og Hollendingar greiði trygginguna fyrir Íslendinga.

Þegar erfiðleikar steðja að þjóð er mikilvægast að kjörnir forystumenn hennar geti greint vandann, hafi kjark og heiðarleika til þess að segja henni satt og rétt frá. Forystumennirnir eiga að leiða þjóðina til lausnar sem er henni fyrir bestu þótt því fylgi óþægindi. Sjálfsblekkingin leysir engan vanda, hún aðeins frestar honum og gerir stærri.

Um stund hefur verið hægt að beina reiðinni að „vondum útlendingum“ en það stundaglas er að tæmast. Að því kemur að almenningur áttar sig á blekkingunum og þá verður ný reiðialda. Til lengri tíma ræðst virðing stjórnmálamanna af staðfestu og réttsýni og því hversu vel þeir hafa hag almennings í fyrirrúmi.

Athugasemdir