Sameiginleg ábyrgð

Pistlar
Share

Pettifor og Smith skrifa í Morgunblaðið í gær og gefa landsmönnum góð ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Þau véfengja ekki réttmæti þess að innstæðueigendurnir í Bretlandi og Hollandi fengju fé sitt greitt að því lágmarki sem lög mæla fyrir um. Þau segja líka að Íslendingar beri ábyrgð ásamt Bretum og Hollendingum og verði að axla hana. Niðurstaða þeirra er sú sama og íslenskra stjórnvalda og Alþingis, að semja um málið og deila kostnaðinum.

Þau Pettifor og Smith segja hins vegar að Íslendingar eigi að borga minna og hinir meira. Þau stinga upp á því að setja málið í gerðardóm og til vara að það fari fyrir dómstóla.

Það er búið að fara gerðardómsleiðina. Það var gert í nóvember 2008 og niðurstaða dómsins liggur fyrir. Hún var sú að Íslendingar eigi að borga. Þá neituðu Íslendingar að viðurkenna gerðardóminn.

Þá er eftir það ráð þeirra að setja deiluna fyrir dómstóla. Dómstólar dæma eftir lögum en ekki eftir úrslitum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er hægt að vinna mál fyrir dómi en ekki síður geta þau tapast. Lagaleg staða er ekki Íslendingum í vil. Samkvæmt fyrirliggjandi samningum munu Íslendingar líklega greiða um 7% af Icesave innstæðunum. Fyrir dómi gæti fjárhæðin fjórtánfaldast ef allt málið tapast.

Pettifor og Smith munu ekki bera þann skell með landsmönnum. Þá verður ekki sameiginlegt skipbrot.

Athugasemdir