Skoðanakúgun

Pistlar
Share

Það eru einkennilegir tímar um þessar mundir. Kannski ekki að furða þegar heilt bankakerfi hefur hrunið og þá kom í ljós að bæði fjármála- og hlutabréfaheimurinn voru undirlagðir af fólki sem ástundaði svik og pretti í auðgunarskyni. Það voru ekki bara bankarnir sem hrundu heldur hvert fyrirtækið á fætur öðru. Þar á meðal fyrirtæki sem höfðu starfað í áratugi og jafnvel heila öld og staðið af sér öll áföll. Gömul og gróin fyrirtæki höfðu verið yfirtekin af nýjum eigendum, sem hreinsuðu allt fémætt úr þeim og skildu þau eftir með skuldir einar. Þvílíkir ræningjar. Eins og hendi væri veifað féll skuldaspilaborgin þegar tók fyrir aðgang að lánsfé og atvinnuleysið skall framan í þjóðina.

Einhvern veginn svona er sagan öll. Þjóðinn fær vandann í hausinn og á engann annan kost en að vinna sig út úr honum. Leita uppi peningana, þá sem hægt er að finna og rannsaka og dæma í þeim málum sem varða við lög. Setja skýrar leikreglur til þess að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig hvorki í smáu né stóru. Þeir sem taka peninga að láni eiga að borga þá til baka. Annars lendir það á öðrum og það er líklegast að almenningur sitji upp í með skuldina og þurfi að borga hana með hærri sköttum , lakari þjónustu eða atvinnuleysi. Það var of auðvelt að eyða annarra manna fé. Þess vegna fór sem fór. Athafnir án ábyrgðar er ekki vænleg regla í mannlegu samfélagi.

En þetta var bara formáli að því sem ég vildi skrifa um og til þess að skýra einkennilega hegðun sem ber mjög á þessa dagana. Því er mjög haldið að fólki að þjóðaratkvæðagreiðslan á laugardaginn snúist fyrst og fremst um stöðu í samningaviðræðum milli íslenskra stjórnvalda og þeirra bresku og hollensku. Með því að greiða atkvæði gegn málinu sem borið er undir þjóðina sé samningsstaða okkar styrkt. Þetta er einkennilegt lýðræði. Því er blákalt haldið fram af forystumönnum stjórnarandstöðunnar á Alþingi að þeir sem hugsa sér að greiða atkvæði með niðurstöðu Alþingis, en lögin voru samþykkt með meirihluta atkvæða, séu að vinna gegn hagsmunum þjóðarinnar.

Þetta get ég ekki fallist á. Ef mál hafa þróast þannig frá því að lögin voru sett að samningaviðræður eru hafnar að nýju þá er málinu augljóslega ekki lokið og þá er of snemmt að leggja ófengna niðurstöðu í dóm kjósenda. Þá er rétt að bíða með atkvæðagreiðsluna þar til niðurstaða er fengin. Hinn kosturinn þýðir að kjósendur eru beittir skoðanakúgun. Þeim er aðeins gefinn einn kostur og ef hann er ekki valinn þá er beinlínis sagt að kjósandinn sé að vinna gegn þjóðarhagsmunum.

Þetta eru hinir einkennilegu tímar sem ég gat um í upphafi. Það þykir sjálfsagt mál að hafa uppi grímulausa skoðanakúgun og fjölmiðlar endurvarpa þessum málflutningi meira og minna gagnrýnislaust og án sjálfstæðrar athugunar. Helsta framlag formanns Framsóknarflokksins til íslenskra stjórnmála er að krefjast þess að menn sem vinna fyrir hið opinbera verði ýmist reknir eða áminntir fyrir skoðanir sínar um Icesave málið.

Það er óþekkt frá lokum kalda stríðsins að formaður stjórnmálaflokks fari opinberlega fram með skoðanakúgun og líti greinilega á það sem sjálfsagðan hlut. Ætlar forysta flokksins að öðru leyti að sitja og þegja þunnu hljóði og skrifa upp óhæfuverkið sem verið er að vinna á lýðræðinu? Hafa menn ekki brennt sig nóg hingað til á þjónkun við misvitra forystu flokksins?

Málfrelsið og skoðanafrelsið er algerlega virt að vettugi, þrátt fyrir að vera réttindi bundin í stjórnarskrá. Nú er farið að beita skoðanakúguninni gegn öllum þeim sem kunna vera þeirrar skoðunar að best sé fyrir landsmenn að ljúka Icesave málinu á þann hátt sem Alþingi hefur gert. Þetta getur ekki gengið og það er skylda hvers manns að berjast gegn skoðanakúguninni sem ríður röftum um þessar mundir. Fjölmiðar verða að rísa undir ábyrgð sinni og standa vörð um grundvallarmannréttindin. Það er rík ástæða fyrir því að litið er á fjölmiðla sem sjálfstætt vald í hverju þjóðfélagi.

Það eru einkennilegir tímar þegar viðbrögðin við erfiðleikunum eru þau að ganga á grundvallarmannréttindi einstaklinga í þjóðfélaginu. Þeir sem stika um þjóðmálavöllinn og taka sér það vald í hendur að ákvarða hvaða skoðanir hverju sinni eru þóknarlegir þjóðarhag mættu muna að þeir hafa ekki þegið ofanfrá óskeikult mat. Reynsla þjóðanna um langan tíma hefur leitt til einstaklingsbundinna mannréttinda. Það er engin tilviljun.

Athugasemdir