Áfram vestur

Pistlar
Share

Aðgerðahópurinn Áfram vestur, sem er skipaður einstaklingum búsettum á Vestfjörðum, hefur staðið fyrir tveimur borgarafundum til stuðnings því að ljúka samtengingu byggða á Vestfjörðum. Til þess að svo verði þarf að tengja saman Ísafjarðarsýslur og Barðastrandarsýslur með Dýrafjarðargöngum og miklum endurbótum á veginum yfir Dynjandisheiði. Þegar þessu takmarki verður náð verður komin á hringtenging um Vestfirði og öll byggðarlög þar, nema Árneshreppur, tengd saman með góðum uppbyggðum heilsársvegi. Þá fyrst fær fjórðungurinn viðspyrnu sem munar um og sóknarfæri skapast til þess að styrkja og efla byggðina.

Fyrri borgarafundurinn var haldinn á Ísafirði í lok nóvember á síðasta ári. Fundurinn var geysifjölmennur, vel á annað hundrað manns sóttu hann og mikil eindrægni og samstaða var um leiðina vestur eins og fram kkom í ályktun fundarins. Síðari fundirnn var síðastliðinn laugardag á Patreksfirði og var einnig mjög fjölmennur. Hann sóttu um eitt hundrað manns og sams konar ályktun var samþykkt með öllum þorra atkvæða gegn fjórum. Niðurstaðan af þessum tveimur fundum er ótvíræð. Vestfirðingar vilja ljúka samtengingu byggðanna með því að ljúka uppbygginu Vestfjarðavegar, þjóðvegar nr 60, frá Bjarkalundi til Þingeyrar. Það eru sameiginlegir hagsmunir íbúanna, hvort sem þeir búa við Ísafjarðardjúp eða við Breiðafjörð að svo verði.

Með jarðgöngum milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar opnast stysta leiðin suður á bóginn frá Ísafjarðardjúpi. Leiðin til Reykjavíkur mun styttast um 50 km. Fyrirsjáanlegt er að umferðin færist að mestu yfir á hina nýju leið. Það sparar peninga fyrir vegfarandann og þjóðarbúið. En það gerir einnig framkvæmdirnar við nýjan veg um Barðastrandarsýslu mun arðbærari en ella væri og knýr á um að þeim verði lokið hið fyrsta. Það verður þjóðhagslega hagkvæmt að ljúka framkvæmdunum frá Bjarkalundi til Þingeyrar.

Þetta er mikilvægt atriði. Dýrafjarðargöngin styrkja framkvæmdirnar austa Flókalundar en veikja þær ekki. Fjármagn til jarðganga er sérstakur liður á vegaáætlun og fjármagni sem þar er ráðstafað færist á milli ganga, ef hætt verður við ein göngin eða þeim frestað. Í vegaáætlun er þegar 1000 milljónir króna til Dýrafjarðarganga og frestist að hefja framkvæmdir eða verði hætt við göngin þá fara þeir peningar væntanlega til jarðganga annars staðar á landinu. Vestfirðingar myndu bara fá minni framkvæmdir við það.

Vegna málaferla hefur tafist von úr viti að ljúka framkvæmdum í Austur Barðastrandarsýslu. Til eru 2 milljarðar króna á vegaáætlun til verkefna þar sem ekki hefur reynst unnt að koma í vegabætur. Báðir borgarafundirnir leggja þunga áherslu á og vilja að sett verði í forgang að stjórnvöld finni lausn og komi framkvæmdunum aftur af stað. Það er ekki hægt að bjóða íbúum svæðins að búa við svo ófullkomna vegi öllu lengur.

Vegarkaflinn frá Bjarkarlundi að Þingeyri er hluti af stofnvegakerfi landsins sem liggur um land allt. Nú er svo komið að búið er að byggja það upp alls staðar nema á þessum kafla. Þetta er síðasti vegarkaflinn sem ekki er fær allt árið.

Nú þarf við erfiðar aðstæður í fjármálum þjóðarinnar að sýna mikið aðhald á öllum sviðum. Það er Vestfirðingum ljóst og þeir eru reiðubúnir til þess að leggja sitt af mörkum. Það mætir skilningi að framkvæmdir taki fleiri ár en ætlað var meðan allt lék í lyndi. En Vestfirðingar telja sig geta með fullri sanngirni geta farið fram á að þeir 3 milljarðar króna í þessi tvö stóru verkefni, sem ónotaðir eru, verði áfram á vegaáætlun og bætt við því sem á vantar til þess að þeim verði lokið á fáum árum.

Þetta er niðurstaðan af starfi aðgerðarhópsins ÁFRAM VESTUR. Það er víðtæk samstaða um þessar áherslur. Vestfirðingar hafa ákveðið að snúa bökum saman og styðja styðja stjórnvöld í þeim áherslum sem þau hafa lagt á Alþingi og í sveitarstjórnum. Á því leikur enginn vafi lengur.

Landsmenn hafa á undanförnu sumrum sótt Vestfirði heim og notið hinnar fögru náttúru sem þar er. Vestfirðingar hlakka til þess að ferðamennirnir geti ekið um góða vegi eins og þeir eiga að venjast annars staðar á landinu og vilja gera sitt til þess að gera ferðina ógleymanlega.

Athugasemdir